17.03.1988
Sameinað þing: 61. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5857 í B-deild Alþingistíðinda. (3967)

332. mál, Kolbeinsey

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Eins og vikið er að í fsp. var samþykkt á Alþingi hinn 20. apríl 1982 ályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að sjá svo um að sjómerki yrðu sett á Kolbeinsey og athuganir færu fram á því hvort og hvernig tryggja mætti að „eyjan standist heljaröfl stórviðra og ísa“, eins og þar segir. Vegna þessa gerði Vitamálastofnun Íslands út leiðangur til Kolbeinseyjar í ágúst 1985. Gerðar voru jarðfræðilegar athuganir og mælingar, bergsýni voru tekin og eyjan ljósmynduð. Teiknuð voru kort af eyjunni á grundvelli þessara mælinga og loftmyndum frá Landmælingum Íslands teknum árið 1958 og 1985. Næstu mánuði var unnið að heimildakönnun og gerð jarðfræðilýsingar. Áfangaskýrsla er hafði að geyma upplýsingar um leiðangurinn og mat á öllum tiltækum heimildum um Kolbeinsey var síðan gefin út af Vitamálastofnuninni í september 1986.

Helstu niðurstöður eru þær að um fjöru mældist eyjan 40 metrar frá vestnorðvestri til austsuðausturs og 40 metrar frá norðnorðaustri til suðsuðvesturs og mesta hæð um 5 metrar. Til samanburðar má geta þess að út frá mælingum sem gerðar voru árið 1933 má lesa að eyjan hafi verið um 48 metrar frá vestsuðvestri til austnorðausturs og 71 metri frá norðnorðvestri til suðsuðausturs og um 8 metrar á hæð.

Út frá þessum mælingum og öðrum tiltækum hefur verið reiknað út að eyjan verði að mestu horfin um miðja næstu öld. Í áðurnefndri skýrslu eru leidd rök að því að líklega séu lárétt skil á fárra metra dýpi undir eyjunni og þessi skil séu veikleiki sem valdi því að smám saman grafist undan eyjunni, blokkir losni og hverfi í sjóinn. Sé þessi tilgáta rétt er ekki nægjanlegt til að hefta niðurbrot eyjunnar að styrkja yfirborð hennar með steinsteypu. Varnirnar yrðu að ná niður í gegnum veika lagið. Dýptarmælingar og borun mundu leiða í ljós hvort þessi ályktun er rétt.

Vitamálastofnun hefur lagt til að sem fyrst verði komið upp sjómerki í Kolbeinsey, steinsteyptum píramída með innfelldum radarspeglum. Slík sjómerki hafa verið sett upp á skerjum fyrir Suðausturlandi. Stofnunin telur einnig að rannsóknir varðandi heftingu niðurbrots verði að halda áfram því ekki sé unnt að gera raunhæfar tillögur um úrbætur á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Leggur hún til að næsta skrefið sé dýptarmæling umhverfis eyjuna og að samhliða uppsetningu sjómerkis verði borað svo að kanna megi jarðlögin undir eyjunni.

Varðandi lið 2 er það að segja að ekki eru áform um að koma fyrir búnaði til veðurathugana í Kolbeinsey, enda yrði að líkindum erfitt að þjónusta slíka stöð því oft þarf að bíða langtímum saman eftir lagi til landtöku í eyjunni.

Kostnaður við þær rannsóknir sem nú þegar hafa verið framkvæmdar hefur verið greiddur af rekstrarfé Vitastofnunar Íslands. Áætlað hefur verið að til að koma upp sjómerki, ljúka dýptarmælingum og borun þurfi um 3 millj. kr. Óskir um fjárveitingu í þessu skyni voru í fjárlagatillögum Vitastofnunar fyrir árið 1988, en þær náðu ekki fram að ganga. Þær verða að sjálfsögðu endurteknar við fjárlög næsta árs og málið þá betur undirbúið til þess að fáist það fjármagn sem talið er að þurfi til að sinna þessu verkefni.

Sem svar við lið nr. 3: Í júní 1983 var í samvinnu Hafrannsóknastofnunar við BBC Natural History Unit og Woodshole Oceanographic Institution farið í leiðangur á Bjarna Sæmundssyni á stað sem er um 3 sjómílur suðsuðvestur af Kolbeinsey. Leiðangurinn var farinn til að rannsaka jarðhitasvæði á hafsbotni með í fyrsta lagi ljósmyndun, í öðru lagi sjónvarpsmyndun og í þriðja lagi öflun sýna af botni og í jarðsjó. Í öllum þessum atriðum tókst að ná markmiðum leiðangursins. Unnið er að úrvinnslu þessa efniviðar og mun henni ljúka síðar á þessu ári. Verður þá lýst jarðfræðilegum einkennum svæðisins, stærð þess og efnafræði jarðsjávarins.

Ljóst er nú þegar að jarðhitasvæði er efst á um 100 metra hárri hæð sem mynduð er við eldsumbrot og enn fremur að jarðhitinn er virkastur í eða við gíga og kemur þar upp gas og sjóðandi jarðsjór. Þess er að vænta að niðurstöður rannsókna varpi ljósi á eðli jarðhita á Kolbeinseyjarhrygg og verði jafnframt innlegg í þá umræðu sem nú fer fram um hafsbotninn, fræðilega þýðingu hans og hagnýt jarðefni tengd honum.

Eftir því sem efni mun gefast til mun ég beita mér fyrir því að haldið verði áfram þeim rannsóknum sem hér hefur verið vikið að og vænti þess að við fjárlagagerð fyrir næsta ár komi fram hugmyndir um fjárframlög til þeirra verkefna sem þá verða talin brýnust í þessu máli.