21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5905 í B-deild Alþingistíðinda. (4028)

374. mál, valfrelsi til verðtryggingar

Frsm. atvmn. (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 652 frá atvmn. um nýtingu á kartöflum.

Nefndin hefur rætt till. á fundum sínum og sent hana til umsagnar til Landssambands kartöflubænda, Iðntæknistofnunar, Neytendasamtakanna og Rannsóknastofnunar landbúnaðarins.

Þau svör sem bárust voru öll jákvæð hvað snertir till. sjálfa, en um leiðir til nýtingar komu fram mismunandi sjónarmið. Nefndin mælir með því að till. verði samþykkt með svofelldri breytingu:

"Till. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna hvort hægt sé að nýta þær miklu kartöflubirgðir sem til eru í landinu.“

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Geir Gunnarsson og Guðmundur H. Garðarsson.

Undir nál. skrifa Valgerður Sverrisdóttir, formaður, Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, fundaskrifari, Eggert Haukdal, Ólafur Þ. Þórðarson og Jón Sæmundur Sigurjónsson.

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að hafa nokkur orð til viðbótar um þetta nál. og þetta mikilvæga mál.

Í svari Neytendasamtakanna kemur m.a. fram að kartöfluneysla sé óeðlilega lítil miðað við önnur lönd og ráðleggingar í manneldismálum. Ástæður fyrir því að neysla hefur dregist saman hér á landi geta legið í ýmsu að áliti Neytendasamtakanna, svo sem takmörkuðum og breytilegum gæðum, einhliða framboði og háu verði.

Um þetta vil ég segja það að gæðin hafa verið misjöfn, því er ekki að neita, og þá ekkert endilega betri kartöflur sem keyptar hafa verið erlendis frá eins og menn muna. Það er mjög mikils virði að kartöflur séu metnar áður en þær fara á markað og má geta þess að Norðmenn hafa ákveðið flokkunargjald sem greitt er til bænda til að tryggja að engar kartöflur fari á markað án þess að hafa farið í gegnum ákveðið nálarauga dreifingarstöðva.

Um það að verðið sé hátt er rétt að það komi fram að það skipulagsleysi sem verið hefur að undanförnu í sölumálum á kartöflum hefur leitt af sér að munur á skilaverði til bóndans og útsöluverði úr verslunum hefur stóraukist. Í svari Rannsóknastofnunar landbúnaðarins kemur fram að sé tekið mið af næringargildi kartaflna og fóðurfræðilegu gildi sé ljóst að hægt væri að nýta alla þá umframframleiðslu á kartöflum sem fyrir er í landinu handa búfé. Spurningin er að sjálfsögðu um verð.

Þá er rétt að fram komi að á fæðudeild Rannsóknastofnunar landbúnaðarins hefur lengi verið unnið að mælingum á næringargildi í íslenskum kartöflum og niðurstöðurnar verða notaðar í fyrstu íslensku næringarefnatöflurnar sem gefnar verða út næsta haust. RALA leggur til að samið verði kynningarrit fyrir matvælaframleiðendur, veitingahús, skóla og almenning um næringargildi og hollustu kartaflna þar sem lögð verði áhersla á hollar framleiðslu- og matreiðsluaðferðir.

Um kartöflur til iðnaðar væri hægt að segja ýmislegt eftir atburði síðustu vikna. Ég vil þó aðeins segja að innlenda framleiðslan hefur batnað mikið og það er vissulega ánægjulegt.

Kartöflur til útflutnings. Þau mál eru í athugun og hefur einkum verið athugað um Noreg í því sambandi.

Ég vil að síðustu, hæstv. forseti, segja að markaðurinn hér innan lands er talinn vera um 8000 tonn, en framleiðslan sl. haust var u.þ.b. helmingi meiri.

Nú hef ég ekki nýjar tölur um birgðastöðu í dag þar sem fyrir utan sölu mun hafa verið eitthvað um rýrnun, en það er a.m.k. öllum ljóst að umframframleiðsla er veruleg.