21.03.1988
Sameinað þing: 63. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5929 í B-deild Alþingistíðinda. (4049)

361. mál, Menningarsjóður félagsheimila

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Austurl., fyrri flm. þessarar till., sagði að till. þessi léti lítið yfir sér. Það er að sönnu rétt. Ég hygg þó að hér sé í rauninni hreyft stærra máli og meira en kannski virðist við fyrstu sýn. Þetta mál er, eins og kom fram í máli flm., í rauninni nokkuð tengt máli sem dagaði uppi fyrr á þessu þingi, verkaskiptingarmálinu svonefnda, og ég get ekki látið hjá líða að minna á að ef það hefði orðið að lögum eins og þar var ráð fyrir gert hefði orðið að minni hyggju töluvert slys í þessu efni.

Þó að Menningarsjóður félagsheimila hafi verið tiltölulega máttlaus stofnun um langt árabil hefur verið reynt að sinna þar merku verkefni víða um land eins og kom fram í máli flm. Mín skoðun er sú að þetta málefni þurfi að stórefla, ekki einvörðungu af umhyggju fyrir landsbyggðarfólki. Við skulum ekki gleyma því að á æ fleiri sviðum í þessu landi er fólk að fá bæði menntunaraðstöðu og þekkingu á þeim sviðum sem hér er um að ræða, en sárvantar tækifæri til að nota þessa þekkingu sína. Lítum t.d. til leikhúsanna. Ég býst við því að það sé óvíða í atvinnumálum hér á landi eins og hjá leikurum þar sem lærðir leikarar hafa ekki nálægt því verkefni við hæfi.

Ég get ekki látið hjá líða að láta þá skoðun mína koma fram, sem hefur komið hér fram áður, að ég tel fráleitt að ætlast til þess að bygging félagsheimila verði einungis verkefni sveitarfélaga í framtíðinni. Þar er um að ræða svo mikið mál að ríkissjóður getur ekki látið þar sinn hlut eftir liggja. En í till. sem hér er til umræðu, sem eins og flm. sagði lætur lítið yfir sér, er hreyft stórmáli sem ég vil leggja a.m.k. þá áherslu á sem ég get til þess að afgreidd verði á þessu þingi þannig að við nk. áramót verði komin til framkvæmda löggjöf sem er burðugri í þessum efnum en er í dag.

Og ég endurtek: Það er ekki af umhyggju fyrir landsbyggðarfólkinu, ekki síður af umhyggju fyrir þeim sem að þessum málum þurfa og vilja vinna.