22.03.1988
Efri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 5987 í B-deild Alþingistíðinda. (4067)

315. mál, grunnskóli

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Hér hafa farið nokkuð góðar umræður , fram um frv. Kvennalistans til breytinga á grunnskólalögunum. Ég tel þær af hinu góða. Get ég tekið undir þau sjónarmið sem þar koma fram, en tel samt ekki ástæðu nú til þess að úttala mig um hvert og eitt þeirra. Frv. á eftir að fara til menntmn. þar sem ég sit. Þar fer eflaust fram betri umræða og bíð ég með mínar athugasemdir þangað til að því kemur.

Ég sagði að ég gæti tekið undir þau átta sjónarmið sem koma fram í þessu frv. og ég tel að þau hafi verið og eigi að vera ráðamönnum að leiðarljósi í skólamálum. Hins vegar skal ég upplýsa það að ég er ekki mjög hrifinn af því að lögbinda þessi atriði en þau eiga að vera markmið stjórnvalda. Ég tel þessi atriði markmið en ekki bein lagaatriði þó að með setningu þessara atriða í lögum þá verði það til þess að knýja á um að farið verði eftir þessu. En ég tel sem sagt að mörg þessara atriða sé ekki rétt að hafa í lagatexta.

Það var ekki margt sem ég vildi hér sagt hafa, en taldi samt nauðsynlegt að fulltrúi frá Borgarafl. kæmi hér upp og gerði grein fyrir sinni afstöðu og síns flokks. Hún er sem sagt sú að þetta eru þau markmið sem við höfum lagt fram í okkar stefnuskrá og ég fagna því að þetta kemur hér til umræðu.