23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6085 í B-deild Alþingistíðinda. (4153)

293. mál, áfengislög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þar sem það er sannfæring mín að vel athuguðu máli að tilkoma áfengs öls án nokkurs viðbúnaðar eða hliðarráðstafana eins og hér eru tillögur um muni leiða til aukinnar áfengisneyslu og aukinna vandamála því samfara, stóraukins kostnaðar í heilbrigðiskerfinu, heilsutjóns og félagslegs tjóns treysti ég mér ekki til að standa að slíkri breytingu með þeim hætti sem hér er lagt til. Með sérstakri tilvísun til áherslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á að draga úr áfengisneyslu tel ég það að leyfa áfengt öl með þeim hætti sem hér er lagt til, án nokkurra viðbragða eða ráðstafana því samfara, tímaskekkju og hlýt því að segja nei.