24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6097 í B-deild Alþingistíðinda. (4167)

330. mál, rannsóknarnefnd til að kanna hvort starfsmenn lögreglunnar virði friðhelgi einkalífsins

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég get fullvissað hið háa Alþingi um að íslenska lögreglan stundar ekki persónunjósnir né hlerar síma manna né rannsakar póst þeirra án þess að dómsúrskurður eða sérstök lagaheimild liggi fyrir. Ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi heimilis og einkalífs eru virt, enda eru þau einn af hornsteinum lýðræðis í þessu landi.

Flm. þessarar þáltill. gefa sem tilefni til flutnings hennar mál sem hér varð að umtalsefni í lok janúar sl. Það er rétt að fylgst var með ferðum eins manns. Hið sérstaka tilefni til þess var að í blaðafrétt hafði þessi maður lýst því yfir að sérfræðingar frá Sea Shepherd samtökunum, sérfræðingar í aðgerðum eins og kallað var, væru hér á landi og að hann hefði haft samband við þá. Síðan skemmdarverk voru unnin á hvalveiðiskipunum í Reykjavíkurhöfn og í hvalveiðistöðinni í Hvalfirði hefur lögreglan verið sérstaklega á verði gagnvart hugsanlegum frekari skemmdarverkum sem þessi samtök kynnu að standa fyrir. Þetta er hið sérstaka tilefni til þess að fylgst var með ferðum þessa manns.

Tímaritið Þjóðlíf setti síðan upp viðtal við lögreglustjóra á þann hátt að efni þess mátti skilja á annan veg en tilefni var til. Lögreglustjóri hefur reyndar í bréfi til flm. þessarar þáltill. skýrt málið og leiðrétt misskilning sem hann telur að hafi gætt í grg. með till. Ég þakka 1. flm. till. fyrir að hafa gert þinginu grein fyrir þessu bréfi í framsögu sinni.

Eins og ég sagði áðan fylgdist lögreglan með mannaferðum við hús þessa manns, sem flutningsmenn vitna til í grg., í nokkra daga en hleraði hvorki síma hans né opnaði póst, enda þarf til slíkra aðgerða dómsúrskurð sem ekki var efni til í þessu máli. Aðgerðir lögreglunnar í þessu tilfelli voru eðlilegar, en til þess að þingið geti endanlega gengið úr skugga um það að starfsaðferðir lögreglunnar séu í fyllsta samræmi við lög og stjórnarskrá lýðveldisins má gjarnan samþykkja þá till. sem hér er gerð.