11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6193 í B-deild Alþingistíðinda. (4253)

387. mál, innflutningur á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum

Flm. (Ingi Björn Albertsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 732 um aðgerðir til að koma í veg fyrir innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum, en till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela viðskrh. að skipa nú þegar nefnd er hafi það hlutverk að leita leiða til þess að koma í veg fyrir innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum. Nefndin skili fullmótuðum tillögum eigi síðar en 1. okt. 1988.“

Herra forseti. Hinn 14. jan. sl. lagði ég fram fsp. á þskj. 489 um innflutning á vörum á fölsuðum upprunaskírteinum. Fsp. var í þremur liðum og vil ég, með leyfi forseta, fá að rifja hana upp og lítillega þau svör er hæstv. ráðherrar gáfu.

Í fyrsta lagi var spurt hvort farið hefði fram könnun á því hvort stundaður sé innflutningur á fatnaði og öðrum varningi með fölsuðum upprunaskírteinum. Þessu svaraði hæstv. fjmrh. á þá leið að slík könnun væri liður í almennu tollaeftirliti. Þá gat hann þess einnig að um síðustu áramót hefði hafist tölvuvinnsla tollskjala þar sem kerfisbundið væri haldið saman athugasemdum er fram kæmu vegna tollskýrslugerðar. Þessari tölvuvæðingu yrði lokið fyrir árið 1990 um land allt og þar með yrðu slíkar upplýsingar tölvuvæddar, tölvutækar og auðfengnar. Þetta er í mínum huga ekki nægilegt til að kanna umfang innflutnings á fölsuðum upprunaskírteinum þar sem ég tel að flestar af þeim upplýsingum sem ráðherra vitnaði til séu miklu fremur upprunaskírteini sem hafa verið ranglega útfyllt fyrir klaufaskap eða vanþekkingu en að hin raunverulegu fölsuðu plögg hafi tollstjóraembættið litla möguleika á að finna með þeim aðferðum sem virðast notaðar í dag.

Í öðru lagi var spurt hvað slík könnun hefði leitt í ljós. Svar hæstv. fjmrh. var orðrétt svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Engar endanlegar tölur eru enn til eða hafa verið teknar saman enn um umfang slíks innflutnings, en að sögn yfirmanns vöruskoðunardeildar embættis tollstjórans í Reykjavík mun töluvert bera á því að fölsuðum upprunaskírteinum sé framvísað við tollafgreiðslu á vörum, einkum þegar um fatnað er að ræða. Af þeim sökum er fatnaður m.a. talinn til þeirra viðkvæmu vörusendinga sem taldar eru þurfa sérstakrar skoðunar við og óheimilt að tollafgreiða svokallaðri DHL-hraðafgreiðslu.“

Hér kemur margt athyglisvert fram hjá ráðherra. T.d. það að engar tölur eru til né hafa verið teknar saman um umfang slíks innflutnings. Samt fullyrðir yfirmaður vöruskoðunardeildar tollstjórans í Reykjavík að töluvert beri á framvísun falsaðra upprunaskírteina, sérstaklega þegar um innflutning á fatnaði er að ræða og þar af leiðandi þurfi slíkur innflutningur sérstakrar skoðunar við og fær ekki DHL-hraðafgreiðslu í tolli. Yfirmönnunum er greinilega fullljóst að slíkur innflutningur á sér stað í verulegum mæli. Því verður að bregðast við.

Þá má spyrja: Hvernig eiga tollverðir að komast að því hvort vara er á fölsuðum upprunaskírteinum eða ekki? Það er nánast vonlaust. Því verður að leita leiða til að sporna gegn slíkum innflutningi. Fataiðnaður á Íslandi er við það að líða undir lok, m.a. vegna síaukinnar samkeppni við innflutningsverslunina sem lítið er hægt að gera við ef hún er á heiðarlegum grunni. Það er hins vegar skylda okkar að halda henni þar. Og ef við vitum af óheiðarlegum viðskiptaháttum eigum við að grípa inn í og reyna með öllum tiltækum ráðum að stöðva slíkt.

Hæstv. viðsk.- og dómsmrh. hafði litlu við svör hæstv. fjmrh. að bæta, sagði aðeins að þessi mál væru undir smásjá hjá tollyfirvöldum og þar af leiðandi mundi þetta fljótlega komast í gott lag. Enginn rökstuðningur fylgdi því hvernig hæstv. ráðherra fann það út að þetta kæmist fljótlega í gott lag. Hann taldi þó ástæðu til að geta þess sérstaklega að hér væri um refsivert athæfi að ræða og því hlýtur maður að spyrja: Hvað hefur ráðherrann gert gagnvart þeim sem staðnir hafa verið að slíkum innflutningi? Hvaða refsingu hafa þeir fengið? Hve margar ákærur hafa verið gefnar út, hve margir dómar?

Herra forseti. Til að komast fyrir slíkan innflutning þarf að koma upp öflugu eftirlitskerfi og beita þá þungum refsingum sem staðnir eru að verki. Eftirlit verður að hefjast í því landi sem varan er keypt frá og má þá vel hugsa sér að sendiráðin okkar í viðkomandi landi sjái um slíkt í nánum tengslum við tollayfirvöld hérlendis. Það má ekki láta lögbrot viðgangast án þess að nokkuð sé að gert. Það er viðurkennt af ráðherrum, það er viðurkennt af tollayfirvöldum, það er viðurkennt af innflytjendum, það er viðurkennt af formanni Félags ísi. iðnrekenda að þessi fölsun á sér stað. Þess vegna verðum við að bregðast við og því flyt ég þessa tillögu.

Herra forseti. Að lokinni umræðu óska ég eftir að tillagan verði send hv. allshn. til umfjöllunar.