12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6259 í B-deild Alþingistíðinda. (4313)

443. mál, skógrækt

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna því fyrir mitt leyti að hér er komið frv. til l. um skógvernd og skógrækt sem reyndar er nokkuð kunnugt orðið þeim sem hér hafa átt sæti á sl. árum, en það breytir ekki því að það er ánægjulegt að sjá það komið hér fram og vonandi tekst nú að ná samstöðu um að afgreiða þetta mál í farsælum búningi þess. Ég hef ekki miklar efnislegar athugasemdir við það að gera á þessu stigi málsins, enda hef ég ekki, svo frómt sé frá sagt, haft tíma til að kynna mér það vandlega síðan það kom hér, en ég hygg þó að það sé að mestu leyti svipað því sem áður hefur birst undir sama nafni.

Það sem ég vil koma á framfæri við 1. umr., hvort sem það á betur eða verr heima undir umræðum um skógrækt, er áhugamál mitt að reyna með öllum tiltækum ráðum að virkja betur en nú er gert og tekist hefur á undanförnum árum almenning til þátttöku í þessum málum. Mér finnst of lítið hafa verið gert til að auðvelda almenningi þátttöku í skógræktinni og landgræðslunni með sem frjálsustum hætti ef svo má að orði komast, þ.e. að menn geti lagt sitt af mörkum jafnvel án þess að bindast formlegum eða skipulegum samtökum. Ég er þá að hugsa um að það verði reynt að greiða götu þeirra sem vilja græða upp eða planta í einhver tiltekin landsvæði eða tilteknar spildur, reynt að auðvelda slíkum einstaklingum eða hópum að komast yfir land til slíks. Ég hefði gjarnan viljað sjá í kafla í þessum lögum, ef af verður, einhver almenn ákvæði um möguleikana fyrir hópa að taka sig saman og fara í landbótastarf af þessu tagi án þess endilega að það þyrfti að falla í hina skipulegu uppbyggingu Skógræktar ríkisins eða skógræktarfélaga. Þar með er ég ekki að lasta starf þeirra ágætu aðila nema síður sé, en ég bendi á að ég held að ýmsir telji sig kannski ekki þannig stadda að þeir séu tilbúnir að gerast félagar í þeim skipulegu félögum og veita þessum málum liðsinni sitt sem slíkir, en hafi hins vegar áhuga á að leggja sitt af mörkum með einum eða öðrum hætti. Ég á við áhugamannafélög, sem gjarnan mættu að mínu mati falla undir það hugtak sem á erlendum málum kallast hrein áhugamannafélög, þ.e. félagamannasamtök og hópar sem starfa af öðrum hvötum en ágóðavon, og ég finn ekki í skjótu bragði góða íslenskun á því hugtaki, en hv. þm. skilja væntanlega hvað ég er að fara, þ.e. félagsskapur eða samtök fólks sem eingöngu áhugans vegna og eingöngu með það í huga að leggja góðum málstað lið tekur sig saman um tiltekin verkefni án þess að ætlast til endurgjalds, ágóða eða hagnaðar. Þannig gæti maður hugsað sér að hrein áhugamannafélög tækju sig saman og græddu upp og eða plöntuðu í ákveðnar landspildur og afsöluðu sér mögulegri hagnaðarvon af timburtöku eða öðru endurgjaldi fyrir landið, gjarnan til líknarfélaga eða hreinlega til málstaðarins sem slíks.

Þetta eru, herra forseti, ekki mjög vel undirbúnar umræður af minni hálfu, en ég vildi þó koma þessum hugleiðingum á framfæri vegna þess að ég hef oft hugleitt hvort ekki væri nauðsynlegt að skoða bæði skógræktarlög og landgræðslulög með þetta sérstaka efni í huga. Ég mun hugleiða það áður en þetta frv. kemur til 2. umr., jafnframt sem ég vona að þessar vangaveltur mínar verði teknar til góðlátlegrar athugunar af hv. landbn. sem væntanlega fær þetta frv. til skoðunar að lokinni umræðu.