04.11.1987
Sameinað þing: 13. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

1. mál, fjárlög 1988

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Frv. til fjárlaga 1988 er á þskj. 1 og lagt fram í Sþ. Frv. til lánsfjárlaga fyrir sama ár hefur verið lagt fram í Ed., 63. mál, og frv. til þjóðhagsáætlunar 1988 hér í Sþ., 22. mál. Öll þessi frumvörp og raunar lagasetningin sem af þeim mun leiða eru hagstjórnartæki og starfsáætlun sem ríkisstjórn mun beita til að reka ríkiskerfið í heild sinni. Í leiðinni er hér vitaskuld um að ræða tæki sem hefur ómæld áhrif á aðra þætti þjóðarhags okkar, svo sem verðlag, vexti, neysluna og tekjuskiptinguna að verulegu leyti ef ekki í heild.

Í fjárlagafrv. hverrar ríkisstjórnar og þá ekki síst nýrrar ríkisstjórnar eru því í rauninni kynnt meginmarkmið sem viðkomandi ríkisstjórn hefur væntanlega komið sér saman um að stefna að. Ég tel að veruleg framför hafi orðið á seinustu árum við undirbúning fjárlaga og lánsfjárlaga, a.m.k. miðað við það sem áður mun hafa tíðkast hér á hv. Alþingi. Þar á ég einkum við að nú eru frv. þessi öll lögð fram nánast samtímis og ætlast til að þau verði afgreidd frá Alþingi sem lög á sama tíma. Ég hef af því spurnir að þessi breyting eigi rót sína að rekja til ráðherratíðar fyrrv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar, formanns Borgarafl., og þykir mér sem talsmanni Borgarafl. ákaflega gott til þess að vita og gott til þess að hyggja. Í þessu er vafalítið fólgin veruleg breyting til batnaðar frá því sem áður var.

Einnig virðast margs konar upplýsingar, töflur og yfirlit fylgja greinargerð allra hluta fjárlagafrv. Mér finnst þau vera á þann veg gerð að þessar upplýsingar allar auðveldi mjög yfirsýn yfir ríkisbúskapinn í heild, ekki síst nýliðum, og sérstaklega stöðu einstakra þátta hans frá ári til árs. E.t.v. er þetta ekki sérstaklega þakkarvert á tölvuöld, en engu að síður ástæðulaust að láta framfarir á þessu sviði liggja í þagnargildi.

Það frv. til fjárlaga 1988 sem hér er til 1. umr. hefur sérstöðu um margt. Frv. er fyrsta fjárlagafrv. hæstv. fjmrh., fyrsta frv. hæstv. ríkisstjórnar í upphafi kjörtímabils. Þó ekki væri af annarri ástæðu hlýtur það að marka tímamót að því leyti. Að auki hefur sá verkstjórn á hendi sem áður öðrum fremur hélt uppi gagnrýni á fyrri vinnubrögð við fjárlagagerð undanfarin ár.

Þingmeirihluti hæstv. ríkisstjórnar er í stærra lagi og þess vegna ætti að vera auðveldara að ná fram meginmarkmiði sem nyti öflugs þingmeirihluta. En er nú svo raunin hér? Ég held ekki. Nú bregður hins vegar svo við að einn ráðherranna, sem að vísu telur ekki ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu, hæstv. landbrh., sá sem heldur um stjórnvöl í einum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, bókar andstöðu sína við einstaka þætti fjárlagafrv. og þá sérstaklega þá þætti frv. sem taka til þeirra verkefna sem í hans umsjá eru, þ.e. landbúnaðarmálanna. Hann lætur bóka andstöðu sína við afgreiðslu málsins í ríkisstjórn, gerir grein fyrir þessari afstöðu sinni í fjölmiðlum og ítrekar þá afstöðu sína í umræðum á hv. Alþingi. Leiðtogar stjórnarflokkanna, allir, og þá ekki síður flokksformaður í flokki hæstv. landbrh., hæstv. utanrrh., hafa hins vegar staðfest fylgi við meginstefnu fjárlagafrv. Engu að síður hefur þremur hv. þm. í stjórnarliðinu, eins og hæstv. fjmrh. tók fram í ræðu sinni fyrr í dag, verið falið að fjalla sérstaklega um þennan ágreining innan ríkisstjórnarinnar og verksvið þeirrar nefndar virðist vera það víðtækt að enn sem komið er hefur umfjöllun um þessi ágreiningsatriði nánast verið sleppt í þeirri undirbúningsvinnu sem þegar hefur farið fram í fjvn. Miðað við það hvaða hv. alþm. hafa valist í þetta nýja ráðuneyti, ef svo mætti að orði kveða, og afstöðu þeirra til landbúnaðarmála almennt hlýt ég að álykta sem svo að fremur sé líklegt að tekið verði eitthvert tillit til sjónarmiða hæstv. landbrh. í þessu ágreiningsefni og því hlýt ég vitaskuld að fagna, ekki hvað síst hvað varðar rannsóknarverkefni ýmiss konar í þessum mikilsverða málaflokki.

Nú er vitaskuld ekkert eðlilegra en að frv. til fjárlaga breytist í meðförum þingsins, enda þótt yfirleitt sé það vart í meira mæli en sem svarar 2–3% útgjalda. Alsiða er og að einstakir stjórnarþingmenn áskilji sér rétt til sérstöðu um jafnviðamikið mál og afgreiðslu fjárlaga. Ekki síst þegar um stóran þingmeirihluta er að ræða. En að fagráðherra geri svo ákveðinn ágreining um sitt eigið sérsvið held ég að heyri undantekninga til. Hér er því um að ræða aðra sérstöðu þessa frv. Að öllu eðlilegu hefði ágreiningur af þessu tagi átt að leysast með samstarfi innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar en ekki utan hennar.

En hver eru þá megineinkenni þessa frv. til fjárlaga? Eflaust er það það markmið að þurrka hallann á ríkisbúskapnum út á einu ári. Það markmið mun vafalítið mestum tíðindum sæta, ekki síst þegar tillit er tekið til þess að sá halli mun án efa verða yfir 2 milljarðar kr. á yfirstandandi ári, raunar 2,1 milljarður eins og segir í grg. með frv. og var þó þá gert ráð fyrir matarskattinum frá 1. nóv. sl. sem nú hefur verið frestað góðu heilli.

Enn er rétt að hafa í huga að við myndun núverandi ríkisstjórnar á sl. sumri var yfirlýst markmið að eyða þessum halla á þremur næstu árum og þá talið fullboðlegt verkefni og ærið. Og ég verð að segja að það hefur ekki komið hér fram, hvorki í ræðu hæstv. fjmrh. né í öðrum umræðum sem um þetta hafa farið fram hér þegar á þingi, hvað veldur þeim raunverulega mun sem þarna verður í mikilsverðri stefnu ríkisstjórnarinnar.

Það er yfirlýst stefna Borgarafl. að miða eigi við hallalaus fjárlög í góðæri eins og við búum við nú. Það þýðir hins vegar ekki að einu gildi með hvaða hætti þessu markmiði er náð. Vitaskuld verður því ekki náð nema með minnkun útgjalda eða aukningu tekna nema hvort tveggja eigi sér stað og sú er einmitt raunin með frv. sem hér liggur fyrir til fjárlaga. En það eru hins vegar aðferðirnar við að ná þessum markmiðum sem ég hef ýmislegt við að athuga og ég mun síðar koma að í máli mínu, en áður en ég geri það mun ég víkja aðeins að öðru.

Meginuppbygging fjárlagadæmisins er með hefðbundnu sniði. Heildartekjur áætlaðar 59,6 milljarðar, þar af óbeinir skattar 48,1 milljarður og því burðarásinn í tekjuöfluninni. Beinir skattar eru hins vegar samanlagt 8,2 milljarðar og aðrar tekjur 3,3 milljarðar. Nánari sundurgreining á þessum tekjum ríkissjóðs er á þann veg að söluskatturinn er 41,8%, innflutningsgjald 12,9%, beinir skattar aðeins 13,8%, vörugjald 5,0%, launaskattur 7,7%, vaxtatekjur 4,7%, hagnaður af Áfengis- og tóbaksversluninni 6,9% og ýmsir óbeinir skattar 7,2%.

En þegar athugað er hvernig tekjum þessum er ráðstafað, þessum 59,6 milljörðum kr., kemur þetta í ljós: 52,4 milljarðar eða 88% fara í rekstur báknsins. Þar af í samneysluna, eins og kom fram hjá hæstv. fjmrh. fyrr í dag, 29,3 milljarðar, neyslu- og rekstrartilfærslur mínus sértekjur af ýmsu tagi 18,3 milljarðar, en vaxtagreiðslur ríkissjóðs einar sér nema 4,8 milljörðum kr. eða um 8% heildartekna ríkissjóðs. Það er ekkert lítið atriði að hafa í huga að áætlaður beinn tekjuskattur einstaklinga samkvæmt frv. er álíka upphæð eða um 5 milljarðar.

En það sem sérstaka athygli vekur er sá hluti ríkisteknanna sem ætlaður er til fjárfestingar. Það eru 7,2 milljarðar eða einungis 12% af heildartekjunum sem aftur skiptist í 3,7 milljarða í raunverulega fjárfestingu, 3,5 milljarða sem eru fjármagnstilfærslur til annarra aðila. Heldur þætti það nú slappur rekstur hjá sveitarfélagi sem skilaði ekki nema 12% tekna til fjárfestingar og uppbyggingar fyrir framtíðina. Algengt er að samsvarandi hlutfall á þeim vettvangi sé tvisvar ef ekki þrisvar sinnum hærra. Ég minnist þess af þeim vettvangi sem ég þekki best til að lægst hafi það farið niður í 19%, hæst upp í 43%. En hér eru það 12% sem fara til fjárfestingar til framtíðaruppbyggingar. Ég þóttist heyra það í máli hæstv. fjmrh. áðan að aukningin á milli ára í þessu efni væri um 9% og það er rétt að menn hafi verðlagsforsendur frv. í huga í því sambandi.

Annars er ein afdrifaríkasta breytingin samfara og óbeint í tengslum við þetta frv. til fjárlaga ákvörðun seinasta þings um staðgreiðslu opinberra gjalda. Tekjuskattur einstaklinga er að vísu ekki stór hluti í heildartekjum ríkisins eða tæpir 5 milljarðar nettó af þessum tæpum 60 milljörðum eða ca. 8% eins og ég minntist á áðan og vaxtagreiðslurnar eru álíka.

Breytingin í staðgreiðslu beinna skatta skiptir sveitarfélögin mun meira máli en ríkissjóð af þeirri einföldu ástæðu að útsvarið er yfirleitt um 50% af tekjum hvers sveitarfélags, en tekjuskatturinn eins og ég áðan sagði aðeins um 8% ríkisteknanna. Því gegnir það í rauninni furðu að sveitarfélögin og samband þeirra skuli ekki eiga neinn fulltrúa í þeirri milliþinganefnd sem undanfarið hefur fjallað um undirbúning að framkvæmd staðgreiðslulaganna. Miklu máli skiptir að menn hafi ríkulega í huga forsendurnar sem menn gáfu sér í mars sl. þegar setning þessara laga varð hér á hv. Alþingi. Þar skiptir langmestu máli sú skuldbinding að skattbyrði beinna skatta í heild verði svipuð og við var miðað þegar lögin voru sett, þ.e. svipuð og hún var á árinu 1986 að teknu tilliti til breytinga frá því sem ákvarðanir voru teknar um, þ.e. 300 millj. kr. lækkun tekjuskatts á fjárlögum 1987 og hækkun barnabóta samkvæmt bráðabirgðalögum í júlí 1987 sem enn eru að vísu auðvitað ekki farin að líta dagsins ljós á hinu háa Alþingi. Því nefni ég þetta að ýmislegt bendir til þess að einmitt þessar breytingar muni snerta önnur áform sem uppi eru höfð með fjárlagafrv. Mér fannst ég heyra það á orðum hæstv. ráðherra hér áðan að ýmislegt í þeim dúr er í bígerð.

Annars sakna ég þess stórlega í þessu frv. til fjárlaga 1988 að hvergi örlar á því meginverkefni, sem hæstv. fjmrh. lagði þunga áherslu á er hann gegndi hlutverki þm. í stjórnarandstöðu, þ.e. að stemma stigu við undanskoti og skattsvikum. Að vísu kveðst hann af þeim sökum vilja leggja matarskattinn á og breikka skattstofninn eins og hann nefnir svo og stefna síðan að virðisaukaskatti að ári. Mig minnir að hann hafi í umræðum hér á Alþingi fyrir fáum dögum minnst á skattsvikanefndina frá í fyrra sem komst að þeirri niðurstöðu að undanskot næmi um það bil 7% hér á landi gegnumsneitt. Látum svo vera. Jafnframt lagði hann á það þunga áherslu að meginniðurstaða nefndarinnar hefði verið að einföldun skattkerfisins væri lykillinn að betri skilum á sköttum. Varla þarf að reikna með að undanskot sé minna í söluskatti en annars staðar í skattkerfinu nema síður sé. Þess vegna væri ekki lítils virði ef takast mætti að finna skilvirkara kerfi og einfaldara miðað við 26 milljarða söluskattsinnheimtu. Ef menn reiknuðu með að ná þar inn 7% væri það hartnær 2 milljarðar kr. svo eftir nokkru væri að slægjast.

En skilar virðisaukaskattur betri árangri? Er það alveg víst? Eru allir þm. stjórnarinnar sannfærðir um það, að ég tali nú ekki um stjórnarandstöðu? Ég er viss um að svo er ekki. Ég vil í því efni vitna til niðurstöðu um það efni í athugasemdum með frv. um virðisaukaskatt sem lagt var fram á hv. Alþingi á sl. ári. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Virðisaukaskattur hefur af mörgum verið talinn öruggari tekjustofn en söluskattur. Stafar það m.a. af því sjálfseftirliti sem talið er að myndist í kerfinu með frádráttarheimildinni. Telja verður það ofmælt að í kerfinu felist umtalsvert sjálfseftirlit með hagsmunaárekstrum innheimtuaðila. Í öllum aðalatriðum má segja að allar aðstæður að þessu leyti verði mjög hliðstæðar í virðisaukaskattskerfi og nú er í söluskattskerfinu og mun þörf á virku eftirliti skattyfirvalda ekki verða minna með tilkomu virðisaukaskatts.“

Og í lok sömu umsagnar segir þetta: „Þegar á heildina er litið verður að telja að virðisaukaskattskerfið hafi í för með sér kostnaðarauka bæði fyrir skattyfirvöld og gjaldendur.“

Af þessum ástæðum m.a. hafa þm. Borgarafl. gert sérstaka athugun með aðstoð Þjóðhagsstofnunar á annarri leið í álagningu óbeinna skatta. Hún er í fáum orðum fólgin í álagningu söluskatts á fyrsta stig við innflutning inn í landið. Höfuðkostur þess kerfis er sá sem skattsvikanefndin lagði megináherslu á og hæstv. fjmrh. minnist á í máli sínu fyrir fáum dögum. Höfuðkostur kerfisins er einmitt einfalt kerfi sem næði mjög miklum árangri. Söluskattur í tolli væri án efa árangursrík leið og örugglega ódýrust í framkvæmd. Þessi innheimtuaðferð er þegar við lýði í okkar kerfi þegar um er að ræða vörur til eigin nota og innheimtuhlutfallið á þeim vettvangi er í dag hvorki meira né minna en 27,5%. Ekki veit ég annað en að skattheimtan á þessu stigi sé af öllum talin mjög örugg og undanbragðalaus. Borgarafl. teldi meira en ómaksins vert að kanna þessa leið betur ofan í kjölinn því óvíða í þjóðfélagi okkar bíða menn óþreyjufyllri eftir réttlæti en í framkvæmd skattalaganna.

Þegar menn eru að reyna að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu ríkissjóðs er fróðlegt að líta á skuldastöðuna og stöðu ábyrgða. Heildarskuldir bókfærðar nema um 44 milljörðum kr. og 173 millj. um sl. áramót sem eru um 27% af landsframleiðslu ársins á undan, 1986. Veittar ríkisábyrgðir nema hins vegar á þeim tíma, um sl. áramót, um 22 milljörðum og 740 millj. eða 13,7% af vergri landsframleiðslu ársins 1986. Sjálfvirkar ábyrgðir ríkissjóðs vegna ríkisbanka og fjárfestingarlánasjóða nema hins vegar 47 milljörðum 966 millj. eða 29% af vergri landsframleiðslu 1986. Þessar skuldbindingar í heild nema því 114 milljörðum rúmum eða tæpum 70% af vergri landsframleiðslu 1986. Óneitanlega eru þetta verulegar skuldbindingar sem hafa verður í huga þegar áform um lántökur á næsta ári eru metnar. Skv. frv. er nú ætlunin að taka 8000 millj. kr. í erlend lán á næsta ári. Það er svipuð fjárhæð og að var stefnt með lánsfjárlögum 1987. Reyndin varð hins vegar 12 milljarðar og 440 millj. að láni í ár svo að varlega ættu menn að taka áformum af þessu tagi.

Hæstv. fjmrh. gerir mikið úr því markmiði að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs erlendis. Engu að síður er ætlunin að taka að láni á þriðja milljarð kr. erlendis á vegum opinberra aðila og þá vitaskuld tengda ríkinu af þeim 8 milljörðum sem ætlað er að taka að láni. 12 milljarða og 250 millj. er svo ætlunin að taka að láni innanlands þannig að heildarlántökur árið 1988 verða röskir 20 milljarðar. Auk þessa er heildaraukning skatta talin nema hartnær 6 milljörðum. Í máli fjmrh. kom fram talan 5700 millj. sem ekki er ólíklegt að verði um 6 milljarðar þegar upp verður staðið sem auðvitað mun dreifast um allt kerfið og eira fáum. Stjórnarstefnan stuðlar þannig að því í leiðinni að hækka vexti í landinu og íþyngja þar með öllum atvinnurekstri, húsbyggjendum og almenningi öllum.

Gjaldahlið fjárlagafrv. ber með sér að fjölmargir rekstrarliðir, ekki síst í ráðuneytum, stórhækka og langt umfram verðbólgustig, a.m.k. miðað við meginverðlagsforsendur frv. Þar er býsna oft sjáanleg hækkunarprósentan 50–70% þó að verðlagsforsendur frv. segi 17–18%. Þetta heitir á máli hæstv. ráðherra áðan „ráðdeild og aðhaldssemi“.

Kaupsamningar við opinbera starfsmenn eru í gildi út næsta ár og gera ráð fyrir 7% grunnkaupshækkun og greinilegt er að ríkisstjórnin ætlast til sams konar samninga af öðrum launþegasamtökum og það heitir „þjóðarsátt“, hugtak sem menn hafa tæpast minnst á frá því í fyrra þegar við átti og sérstaklega þurfti á að halda. Eitt og annað hefur að vísu gerst í millitíðinni en það heitir launaskrið og á við allt aðra og á auðvitað ekkert að vera að blanda því saman við „þjóðarsátt“.

Eitt megineinkenni á gjaldahlið þessa frv. til fjárlaga er flutningur verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Hér er um að ræða mörg verkefni og margvísleg, tónlistarskóla, byggðasöfn, dagvistarstofnanir, málefni fatlaðra, að vísu að hluta, landshafnir, að vísu til fárra staða, heimaþjónustu aldraðra, vatnsveitur að verulegu leyti, Íþróttasjóð og Félagsheimilasjóð. Þetta eru margvísleg verkefni sem sveitarfélögin standa auðvitað misjafnlega að vígi að sinna. Þau eru mörg í þessu landi, óvenjulega mörg, óvenjulega margbreytileg.

Ég hef hitt marga sveitarstjórnarmenn undanfarna daga og það fer ekkert á milli mála að hvarvetna, alls staðar er sama spurning á vörum manna: Hvernig ætlar ríkissjóður að standa við skuldbindingar sínar gagnvart sveitarfélögum um þau verk og verkefni sem þegar eru unnin en þó að meira og minna leyti óuppgerð milli ríkis og sveifarfélaga? Hvernig á það uppgjör að fara fram? Það er ekki orð um það í fjárlagafrv. Menn hafa verið spurðir víðs vegar úr ríkisstjórnarliði. Það hefur hvergi komið fram annað en þetta atriði: Það á að bæta sveitarfélögum upp það að sveitarfélögin taka á sig auknar byrðar.

Það er fyrst í dag sem ég heyri nefnda þá nefnd sem hæstv. fjmrh. minntist á að hæstv. félmrh. mundi tilnefna í þessu efni. Það er röskur mánuður þangað til þessi mikilvæga lagabreyting á að vera komin í gegn. Það eru þrír flokkar sem standa að ríkisstjórninni. Það eru mörg sveitarfélög í þessu landi. Ég er ekki búinn að sjá að það verði hægt að vinna þessi verk svo í lagi væri á jafnskömmum tíma.

Menn spyrja hvort sveitarfélögin geti treyst fulltrúum ríkisins í þessu efni. Sporin hræða vissulega. Því er tæpast hægt að neita. Um svar við þessari meginspurningu er, eins og ég sagði áðan, hvergi stafkrók að finna í þessu frv. Þó að margir vilji gjarnan gleggri skil á milli ríkis og sveitarfélaga verður því tæpast mælt í mót að það hefði átt að standa á annan veg að verki en hér er gert.

Menn spyrja: Hvers vegna er ekki aðlögunartíminn meiri? Hvers vegna var ekki samráð? Hvers vegna var ekki kynning mála? Hvers vegna var ekki málinu þannig fylgt eftir að það væri hægt að búast við betri viðtöku af sveitarfélaganna hálfu? Hefði ekki verið nær að fara að ráði nefndarinnar, sem þó hefur lagt fram stofninn að þessum hugmyndum, og taka sér a.m.k. árs undirbúning til þessara verka? Ætli af hefði veitt? Ég býst ekki við því.

Þá er önnur spurning sem menn eðlilega spyrja. Það er bara hluti málsins. Hvernig á að gera upp það sem unnið er? Hverjir verða hinir auknu tekjustofnar sem jöfnunarsjóði eða sveitarfélögunum verða veittir til þess að takast á við þessi verkefni til nálægrar og fjarlægrar framtíðar? Það kemur hvergi fram. Það var þetta atriði sem mér fannst þó skína í gegn hjá hæstv. fjmrh. að væri eitt af þeim atriðum sem eru á floti varðandi staðgreiðslukerfi skatta. Og við skulum fyllilega gera okkur grein fyrir því að þar hafa ýmsar upplýsingar komið fram sem skipta máli og skipta ekki aðeins máli hér á Alþingi heldur fyrir hvert einasta heimili í landinu.

Í mars sl., þegar þessi umfjöllun fór fram á þinginu, var gert ráð fyrir um 20% tekjubreytingu á milli áranna 1986 og 1987 og skattprósentan bæði til ríkis og sveitarfélaga var við það miðuð í löggjöfinni og hefur víða farið um þjóðfélagið. Þegar verið er að athuga þessi mál núna á síðustu dögum kemur annað í ljós. Tekjubreytingin hefur ekki orðið 20% heldur 37,5%. Öll viðmiðun hefur auðvitað skekkst hvað þetta snertir og 36% heildarálagning þýðir náttúrlega allt annað miðað við þessar aðstæður eða við aðstæðurnar sem gengið var út frá í vor, í marsmánuði. Sem sagt: Það er ekki orð um þetta meginatriði í frv. og það sýnir hve allt þetta mál er á veikum grunni.

Einnig má spyrja og hefði það átt að liggja fyrir í frv.: Hvernig verður stjórn og ákvörðunarrétti háttað varðandi jöfnunarsjóðinn ef hann fær þetta nýja og þýðingarmikla hlutverk? Þannig mætti lengi spyrja.

Þau verkefni, sem hér er um að véla, eru vissulega mikil og margþætt. Þau snerta fjölda fólks í þessu landi og daglegt líf þess og það er vissulega ábyrgðarhluti að kasta höndum til í sambandi við breytingar á jafnviðamiklum og viðkvæmum vettvangi og hér um ræðir. Borgarafl. hvetur eindregið til þess að hér verði gengið fram með aðgát og gætni en ekki í flýti eða flaustri.

Hæstv. forseti. Hér er á ferð frv. til fjárlaga sem ber þau megineinkenni að skattar eru auknir um þúsundir milljóna kr. Engu að síður ætlar hæstv. ríkisstjórn að smokra verkefnum af ríkinu til annarra aðila án nægilegs og eðlilegs undirbúnings. En verst er þó að um þau markmið sem uppi eru virðast stjórnin og stjórnarliðið sjálfum sér sundurþykk í verulegum atriðum.

Borgarafl. lítur svo á að hlutverk sitt í stjórnarandstöðu sé fyrst og fremst að gagnrýna á rökstuddan hátt. Það munu fulltrúar hans gera eftir því sem þeir geta fram komið. Hins vegar eru fulltrúar Borgarafl. reiðubúnir til jákvæðs og eðlilegs samstarfs við fulltrúa ríkisstjórnar og annarra flokka í stjórnarandstöðu til að sníða verstu agnúa af því verki sem meira og minna sýnist vera hálfunnið. Þetta frv. til fjárlaga er greinilega því marki brennt.