13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6341 í B-deild Alþingistíðinda. (4350)

431. mál, virðisaukaskattur

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég ætla að gera örstutta athugasemd í tilefni af orðum hæstv. fjmrh. varðandi virðisaukaskattsfrv. Alberts Guðmundssonar út af því að hann vildi minnast á það. Hann sagði að því frv. hefðu ekki fylgt neinar hliðarráðstafanir, enda mjög eðlilegt þar sem þetta frv. var aðeins, eins og hann man sjálfur, lagt fram til kynningar og átti ekki að verða að lögum það þing sem það var lagt fram á.

Mig langaði að spyrja sjálfstæðisþingmenn sem hér eru inni hvort þeir hafi samþykkt það sem kemur fram í grg. frv. um skattlagningu eignatekna og aðrar þær hugmyndir sem þar eru um hvernig á að brúa það bil sem verður, þessar 1200 millj. sem gert er ráð fyrir að virðisaukaskatturinn skili minna en söluskattskerfið.

Varðandi þá fsp. sem ég lagði fyrir hæstv. fjmrh. um túlkun á 34. gr. þessa frv. vil ég lýsa hér yfir að mér mundi finnast það miklu eðlilegra að í lögunum sé tekið fram hvaða skilyrði þyrftu að vera uppfyllt svo að tollkrít geti farið fram en ekki að þetta sé bundið við geðþóttaákvörðun fjmrh. í hvert og eitt skipti, hvort einhver innflytjandi skuli fá tollkrít eða ekki eða mætti bíða með að borga þennan virðisaukaskatt. En ég á von á því að þetta verði rætt í fjh.- og viðskn.

En það var eitt atriði sem ég gleymdi að minnast á í fyrri ræðu minni. Það er þetta kerfi sjálft sem slíkt. Eins og flestir vita er þetta nokkurn veginn óbreytt frá því sem er í Danmörku og nánast þýðing á þeim lögum og það sem er merkilegra, að prósentan er sú sama og í Danmörku. Sumir segja mér það að ástæðan fyrir prósentunni sé sú að við Íslendingar getum þá notað sama tölvuforritið.