14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6421 í B-deild Alþingistíðinda. (4426)

392. mál, úttekt vegna nýrrar álbræðslu

Guðmundur G. Þórarinsson:

Forseti. Aðeins örfá orð sem innlegg í þessa umræðu. Það er mjög eðlilegt að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson beri fram tillögur um þessi mál og fsp. á þinginu. Hann hefur fjallað um þessi mál mikið og ítarlega á undanförnum árum, það þekkjum við öll, bæði sem þingmaður og ráðherra. Ég held að það sé á engan hallað í þessum sal og þó víðar væri leitað í þjóðfélaginu þó að það sé fullyrt úr þessum ræðustól að enginn Íslendingur hafi nokkru sinni átt sér stærri drauma um stóriðjuframkvæmdir á þessu landi en þessi þingmaður og þar af leiðandi hljótum við öll sem hér erum að skilja mjög vel að hann geri þessi mál títt að umræðuefni í þinginu.

Mig rekur minni til þess að við á sínum tíma veltum mikið fyrir okkur fjárfestingum vegna stóriðjuframkvæmda þegar hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var iðnrh. Áform hans voru gríðarlega mikil, skýrslur voru unnar þykkar og miklar, safnað gögnum af mikilli samviskusemi og alúð. Ég held að það sé ekki hægt að gagnrýna að þar hafi verið unnið af miklum vilja og ásetningi í þá átt að koma upp stóriðjufyrirtækjum víðs vegar um landið.

Hv. þm. á hrós fyrir að á sínum tíma réð hann erlenda aðila og innlenda með til að vinna að skýrslum og hagkvæmniathugunum fyrir gríðarlega mikið álver á Akureyri, 130 þús. tonna verksmiðju sem sérstaklega var skoðað hvort reisa mætti þar jafnhliða mikilli verksmiðju sem hv. þm., þáv. ráðherra, hafði áhuga á að risi á Reyðarfirði, kísilmálmverksmiðju. Þó voru þessar tvær verksmiðjur aðeins hluti af þeim áformum sem hv. þm. hafði þá í huga og ég hygg að það sé ekki við hann að sakast að þessi áform urðu ekki að veruleika. Það komu aðrir hlutir til. Þar greip helkaldur og fjötraður raunveruleikinn inn í framkvæmdaáform ráðherrans fyrrverandi þannig að ekki varð af.

Ég hygg að þær fjárfestingar, sem hv. þm. hafði þá í huga og hafði látið vinna skýrslur um og reri að öllum árum af mikilli alúð að til framkvæmda gætu komið, hafi verið sýnu meiri en þær fjárfestingar sem nú er verið að ræða um við stækkun álversins í Straumsvík, hvort sem af þeim áformum verður eða ekki og kann að vera að núverandi stjórnvöld hafi ekki meiri árangur af þeirri viðleitni sinni en hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafði á sínum tíma með sín glæsilegu, stóru og miklu áform um uppbyggingu stóriðju á Íslandi.

Í þessu sambandi vil ég sérstaklega nefna að þáltill. ráðherrans fyrrverandi, og hann á hrós fyrir það, varðandi virkjanaframkvæmdir og virkjanahraða voru mikil plögg og vel unnin. Þar var gert ráð fyrir hraðari virkjanaframkvæmdum á Íslandi en aðrir menn höfðu nokkurn tíma látið sig dreyma um, hraðari uppbyggingu og þar af leiðandi auðvitað hraðari uppbyggingu á fyrirtækjum sem orkuna keyptu en menn höfðu - ja, ég vil eiginlega segja þorað að láta sér detta í hug fyrr.

Þess vegna kemur mér dálítið spánskt fyrir sjónir tónninn í ræðu þessa fyrrv. iðnrh. þegar hann nú talar fyrir sinni þáltill. um þjóðhagslega hagkvæmni þar sem hann telur að fjárfestingin verði svo mikil við þessa stækkun að vart verði unnt að ráðast í neina aðra framkvæmd í þjóðfélaginu samhliða, hér sé öllu teflt í tvísýnu og enginn muni neitt geta gert annað hafi ég skilið hann rétt. Virðist mér þá að fyrrv. iðnrh. hafi gleymt sínum fyrri áformum sem ekki kölluðu á minni fjárfestingar, að ég hygg jafnvel meiri, talsvert meiri.

Hitt er aftur annað mál að þessi hv. þm. er mikill landsbyggðartalsmaður og hefði sjálfsagt kosið að þessi stóriðjufyrirtæki væru reist sem víðast um landið, eins og hann hafði reyndar á sinni stefnuskrá, en ekki þarna við Straumsvík. Það eru aðrir hlutir sem þar grípa inn í, hagkvæmni þess að stækka þar vegna hafnarinnar og annarrar aðstöðu þó að ekki sé enn ljóst að úr þessum framkvæmdum verði.

Ég held að það verði seint þakkaður sá mikli áhugi sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sýndi þessum málum á sínum tíma og enn reisa menn á þeim grunni sín áform, á þeim grunni sem þessi fyrrv. ráðherra undirbjó og reisti meðan hann var í ráðuneytinu. Það má vel vera að þar komi einhvern tímann í framtíðinni að þessum fyrrv. iðnrh. verði reistur minnisvarði af stóriðjunefndum framtíðarinnar fyrir hans glæsilegu framtíðarsýn þegar hann sá fyrir sér þessi stóriðjufyrirtæki nánast um allt land. Ekki ætla ég að leggja dóm á það, en þó veit ég að menn hafa oft fengið viðurkenningu fyrir minna starf en þessi ráðherra fyrrv. lagði á sig við að koma þessum framkvæmdum fram.

Ég vil hins vegar aðeins í þessu sambandi benda hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni á það í fullri vinsemd að auðvitað er stóriðja, þó að hann hafi haft mikinn áhuga á henni, sérstaklega á þessum árum, ekki eini valkostur okkar í uppbyggingu atvinnulífs. Stóriðja er einn af kostunum, einn af þeim fótum sem við þurfum að setja undir þann stól sem þjóðarbúið situr á. Ég held að það þurfi að hafa opin og ber augu á þeim möguleika hverju sinni að auka stöðugleikann í okkar efnahagslífi, en auðvitað megum við ekki um of einblína á þennan möguleika. Það eru margir aðrir.

Ég flutti á sínum tíma til að mynda þáltill. um eflingu lífefnaiðnaðar hér og taldi að það gæti orðið merkileg stoð í okkar atvinnulífi. Henni var þá vísað til hv. fyrrv. iðnrh. Hjörleifs Guttormssonar og hún glataðist þrátt fyrir samþykkt þingsins og komst þess vegna lítið áfram. Ég er ekki hér með að saka fyrrv. iðnrh. um að hann hafi ekki haft áhuga á þeim árum á öðru en stóriðju og þess vegna hafi sú till. um lífefnaiðnað fallið undir stól, langt í frá. Þar kunna að hafa komið til önnur mistök sem hann hefur ekki ráðið við og kannski ekki í sínum stóriðjuáhuga haft áhuga á að fylgja henni eftir eða fylgjast meira með að úr henni gæti eitthvað orðið. Í fleiri slíkar till. gæti ég vísað, en tími minn er því miður á þrotum.

Að lokum aðeins þetta, forseti: Sú athugun sem nú stendur yfir kann að lofa góðu, a.m.k. að mati flm. till. Það er hins vegar engan veginn ljóst til hvers hún leiðir. Ég tel að það sé sjálfsagt að kanna hana nánar, vinna að því. Okkur ber skylda til þess að gera það. Enn er ég engan veginn viss um að hún geti leitt til neins raunveruleika. Þar eru mörg atriði sem eftir er að semja um og að sjálfsögðu verður ekki ráðist í það nema það sé talinn góður kostur fyrir Íslendinga að bestu manna yfirsýn.