18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6501 í B-deild Alþingistíðinda. (4501)

Töf á afgreiðslu rekstrarlána til bænda

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Vegna lokaorða síðasta hv. ræðumanns vildi ég gjarnan fá það upplýst hver gerði samkomulag um fyrirgreiðslu úr ríkisbönkunum án þess að hafa samráð við bankastjóra. Ég skildi það á orðum hv. síðasta ræðumanns að einhver utanaðkomandi hefði gert það og þá helst ráðherra. Ég hélt að bankarnir væru algjörlega sjálfstæðar stofnanir og að bankamálaráðherra hefði bókstaflega ekkert yfir þeim að segja annað en að skipa bankaráðsformann. Að öðru leyti: stjórnsýslulega séð sem ráðherra heyrir stofnunin undir hann án þess að hann geti skipt sér af daglegum rekstri, útlánum eða öðru. Ég furða mig á þessum málflutningi, enda væri furðulegt að ráða bankastjóra og trúnaðarmenn Alþingis, sem hafa legið hér undir ádeilum og þar á meðal sá sem hér stendur, ef ráðherra ætti svo að hafa heimild til að ráðstafa eða jafnvel gera samkomulag úti í bæ um ráðstöfun á fé bankans.