19.04.1988
Efri deild: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6535 í B-deild Alþingistíðinda. (4539)

445. mál, eiturefni og hættuleg efni

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls fyrir þeirra ummæli um frv. og það að þeir telja hér mikilvægt mál á ferðinni. Það gefur mér vonir til þess að halda að nefndin og deildin muni leggja sig fram um að afgreiða málið að sjálfsögðu samviskusamlega, en líka helst sem fyrst. Ég viðurkenni að málið er auðvitað seint fram komið, of seint miðað við þann knappa tíma sem eftir er til þingstarfa og þann mikla málafjölda sem nú liggur fyrir Alþingi, báðum deildum Alþingis, en ég vænti þess þó að einmitt í tengslum við afgreiðslu á frv. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem nefnt var hér í umræðunum, takist að afgreiða þetta mál einnig þó það hefði verið æskilegt að þau hefðu verið rædd meira saman af því að þessi mál tengjast og eru að verulegu leyti skyld.

Nú er mér kunnugt um að heilbr.- og trn. hefur unnið vel að hinu málinu. Það er ekki fyrir það að það hafi legið þar óhreyft eða án umræðu. Ég hef fylgst með því í gegnum nefndarmenn og formann hv. nefndar að það hefur verið unnið að málinu og nefndarmenn hafa þar fullan hug á því að reyna að koma því frá. Ég þakka fyrir þann áhuga, en ítreka að ég vonast til þess að okkur takist að afgreiða bæði þessi mál.

Varðandi athugasemdir frá hv. 6. þm. Reykn. um einstakar greinar er auðvitað ekkert um það að segja annað en að nefndin taki til athugunar það sem hv. þm. hefur bent á. Vil ég fá að beina því til nefndarinnar hvort ekki megi breyta þarna um eitthvað. Ég vil einnig í því sambandi bjóða fram aðstoð starfsmanna ráðuneytisins. Ef þeirra aðstoð má verða til að flýta fyrir nefndarstarfi veit ég að það er auðfengið og vænti þess að nefndarmenn muni þá kalla eftir slíkri aðstoð ef þeir telja hana mega verða að gagni.