26.04.1988
Efri deild: 79. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6787 í B-deild Alþingistíðinda. (4701)

472. mál, grunnskóli

Guðrún Agnarsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er fyrir mér komið eins og hv. 6. þm. Reykn. að ég bjóst heldur ekki við að þetta mál kæmi svo fljótt á dagskrá. Ég vil þó koma hér upp til þess að styðja erindi þessa frv. Eins og kemur fram í grg. frv. sat ég í þeim vinnuhópi sem hv. 1. flm. nefndi og gerði ýmsar brtt. varðandi tilhögun í skólamálum. Einkum þó er varðaði tengsl heimila og skóla, en hv. þm. Salome Þorkelsdóttir veitti þeim vinnuhópi forstöðu og var einmitt minnst á það við flutning frv. okkar kvennalistaþingkvenna um breytingar á grunnskólalögunum.

Hv. 1. flm. vék að því áðan að hún hefði undrast hvers vegna þessar breytingar hefðu ekki verið teknar með í því frv. og ég endurtek útskýringar mínar á því. Það var fyrst og fremst af kurteisi við hennar frumkvæði vegna þess að hún hafði þegar flutt þetta mál og við áttum reyndar von á því að hún mundi þá gera það aftur á þessu þingi.

En ég vil bara í stuttu máli ítreka það að ég tek undir meginerindi þessa frv. og tel það vera til bóta því að mörgu má breyta í skólamálum og ekki er vanþörf á því að efla einmitt nánara samstarf heimilanna og skólanna, þeirra aðila sem helst sinna uppeldi barnanna okkar.