26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6822 í B-deild Alþingistíðinda. (4749)

202. mál, Háskólinn á Akureyri

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Á undanförnum árum hefur orðið skólabylting á Íslandi hvorki meira né minna, ekki bara menntunarbylting heldur skólabylting. Með fjölbrautaskólakerfinu hefur sannarlega orðið bylting í íslensku menntakerfi.

Með þessu kerfi hafa verið opnaðar blindgötur þannig að mönnum hafa verið opnaðar leiðir til háskólanáms í gegnum fjölmarga skóla og í gegnum fjölmargar greinar. Ég held að sú breyting sem þannig varð á framhaldsskólastiginu hafi verið æskileg, eðlileg og nauðsynleg. Og þó að þær raddir hafi heyrst að „standardinn“ eða gæði menntunar hafi sett niður held ég að þær raddir hafi jafnvel orðið sterkari að með þessari breytingu á framhaldsskólastiginu hafi menn verið að hækka „standardinn“ eða gæði menntunar meðal íslensku þjóðarinnar almennt vegna þess að við höfum verið að færa menntunina út í auknum mæli.

Auðvitað er það sem nú er að gerast á háskólastiginu ekki annað en afleiðing af þessari skólabyltingu sem á undanförnum árum hefur orðið á framhaldsskólastiginu. Fleiri og fleiri hafa rétt til háskólanáms og sú bylting sem nú er að verða á háskólastigi, það öldurót sem þar er, er bein afleiðing af því sem þegar er orðið. Sú bylting og það öldurót er líka eðlilegt, æskilegt og nauðsynlegt. Ég hygg að á því sé enginn vafi. Ég held að þetta frv., sem Alþingi Íslendinga er nú að samþykkja um Háskólann á Akureyri, sé tímanna tákn, það sé æskileg breyting, það sé æskileg þróun sem menn eiga eftir að fagna og á eftir að hafa sín áhrif í íslensku þjóðlífi.

Menn deila dálítið um orðið „háskóli“ sem þýðingu á erlenda orðinu „universitas“ og ég ætla ekki að fara hér út í nána skilgreiningu á hlutverki háskóla sem kennslu- eða rannsóknastofnun. En það getur engum blandast hugur um að þróunin í íslensku þjóðfélagi, sem er mjög hröð í dag, er í þá átt að fleiri og fleiri sérskólar eru að koma fram á háskólastigi. Það eru sérskólar með kennslu á háskólastigi en alls ekki allir sem hugsa sér að starfa sem sjálfstæðar vísindastofnanir. E.t.v. mætti segja, miðað við ensku skilgreininguna, að hér væru skólar sem gæfu menntun á stiginu „undergraduate“ hvernig sem menn vilja þýða það. En við höfum, eins og menntmrh. réttilega rakti, Tölvuháskóla Verslunarskólans, við höfum Kennaraháskóla, við erum að tala um tónlistarháskóla, búvísindadeild á Hvanneyri er á háskólastigi, myndlistaskóli á háskólastigi, íþróttakennaraskóli á háskólastigi, Samvinnuskólinn ætlar að fara yfir á háskólastig.

Skólabyltingin sem við höfum staðið frammi fyrir á framhaldsskólastiginu er komin á háskólastigið og á móti þeirri þróun verður ekki staðið, á móti þeirri þróun á ekki að standa. Við eigum miklu frekar að örva hana og ég held að það væri rangt að setja um hana mjög stífa löggjöf á meðan menn sjá ekki allt sem af þessu getur æskilegt hlotist í þjóðfélaginu.

Hitt kann að vera spurning með Háskóla Íslands, sem sjálfsagt verður okkar æðsta menntastofnun og menntasetur um ókomin ár, hversu hann á að bregðast við þeirri þróun á háskólastiginu sem nú er að verða. Hann þarf vafalaust að líta nánar á sín innri mál og ég hygg að það sé nauðsynlegt að einmitt þessi stofnun hér horfi mjög til Háskólans í því ölduróti sem hann er í nú.

Ég hef oft hugsað til þess að gaman væri ef Háskóli Íslands gæti valið sér einhverjar ákveðnar greinar og náð sérstökum árangri á ákveðnum sviðum svipað og sumir háskólar erlendis verða nafntogaðir meðal nálægra landa og jafnvel um gjörvallan heim fyrir starfsemi sína á ákveðnum sviðum. Þar hygg ég að nokkur svið standi nálægt Háskóla Íslands, ekki síst norræn.

Ég hef stundum gert það að umræðuefni að ég hjó sérstaklega eftir því þegar prófessor Þórhallur Vilmundarson flutti sitt ágæta erindi á afmæli Sigurðar Nordals að hann talaði um nýyrði sem komið væri upp í Bandaríkjunum, nýyrði í norrænum rannsóknum, nýyrði sem hann kallaði „denordalization“. Það kannski sýnir ekki hvað síst þau gífurlegu áhrif sem Sigurður Nordal einmitt hafði á norræn fræði og norrænar rannsóknir á sínum tíma. Á undan „denordalization“ hlýtur nefnilega að hafa verið „nordalization“. Þetta bendir okkur til að jafnvel víða um heim getur Háskólinn náð sérstöku stigi fyrir gæði í ákveðnum greinum og kannski ekki bara í norrænum rannsóknum heldur e.t.v. í eldfjallafræði, haffræði og fiskifræði og fleiri slíkum greinum þar sem kannski frumkvæði Háskólans hefur ekki verið nægt á undanförnum árum. En nóg um það.

Ég hygg að það frv. sem við erum að samþykkja nú um Háskólann á Akureyri sé talandi tímanna tákn. Ég hygg að það sé nauðsynlegt, eðlilegt og æskilegt og það sé þáttur í þeirri þróun sem íslenskt þjóðlíf gengur í gegnum nú einmitt á háskólastigi.