26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6834 í B-deild Alþingistíðinda. (4763)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ef ráðherra hefur ekki tíma til að klára þær umræður sem eru í gangi á Alþingi er eins gott að fresta þessum umræðum. Ég reikna með því að það sé seðlabankareikningur sem þarf að undirskrifa, athöfn sem á ekki að eiga sér stað. Seðlabankinn á að senda hingað reikninga til Alþingis og Alþingi á að fjalla um þá. En Seðlabankinn eyðir stórfé í það að bjóða hinum og þessum. (Forseti: Ég vil minna á að það eru umræður um dagskrármálið.) Þetta eru umræður um dagskrármálið, hvort ráðherra ætlar sér að fara úr umræðunum eða ekki. (Forseti: Hér er til umræðu frv. til l. um heimild til hækkunar á hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum.) Ef ráðherra ætlar að fara í burtu ætla ég að óska eftir frestun á umræðum. Ef ráðherra ætlar að hlusta á umræðurnar til enda sé ég ekki ástæðu til þess. (Forseti: Ég vil minna á að ráðherra er í salnum og það verður ekki frestað umræðum meðan hann er hér.) Hæstv. forseti. Ráðherra er í salnum vegna ummæla minna og væri kannski farinn ef ég hefði ekki dregið athygli að því að hann væri að ganga út.

Ég vil harma það hér og nú á sama hátt og ég gat þess við 1. umr. að ráðherra er að beita einhverjum þeim lágkúrulegasta málflutningi sem hægt er, þ.e. að beita fyrir sig fátækasta fólkinu í veröldinni til að nota það sem rök fyrir framlagi til Alþjóðabankans. Við erum að tala hér um tvö óskyld mál. Framlagið til Alþjóðabankans er allt annað en það framlag sem Ísland hefur tekið á sig og aldrei staðið fullkomlega við að veita til þróunarlanda, sem er ákveðin prósenta af þjóðarframleiðslunni. Ég hef aldrei heyrt nokkurn þm. mótmæla því að gert yrði eins vel við þróunarlöndin af hálfu Íslands og við getum. En við höfum bara aldrei talið okkur geta staðið við þá prósentuupphæð sem við sjálf höfum ákveðið hér á Alþingi að skuli renna til þróunarlandanna. Þróunaraðstoðin sem kemur frá Alþjóðabankanum til þessara aðila er allt annars eðlis.

Þegar ég var fjmrh. neituðu Bandaríkin framlagi til þessarar starfsemi Alþjóðabankans vegna þess að þau gátu þá ekki þvingað aðra meðlimi Alþjóðabankans til að auka sitt framlag. Nú virðist það hafa tekist. Ég hef ekki heyrt talað um það núna að Bandaríkin neiti að auka sitt framlag eða jafnvel leggja það sem um hefur verið talað fyrirfram til Alþjóðabankans. Það er ekki þessi málflutningur hæstv. ráðherra sem er ríkjandi þar eins og listinn yfir útlán Alþjóðabankans sýnir sem hann lagði sjálfur hér fram. Það eru ekki þessi fátæku lönd sem fá mestu aðstoðina frá Alþjóðabankanum. Það er þar eins og oft hér á landi líka að hinir ríku fá það sem þeir þurfa frá bankakerfinu og það er enginn munur á bankakerfinu þar og bankakerfinu hér. Það er nákvæmlega sama prinsipið sem starfað er eftir. En það eru hinir fátæku sem ráðherra er að nota sem rök í þessu máli. Þeir fá aldrei það sem þeir þurfa frá bankakerfinu. Þeir eru í flestum tilfellum útilokaðir frá því.

Hæstv, bankamálaráðherra ætti að kynna sér það sem ég og aðrir þm. sem hér sitja enn í dag og sátu í bankaráði Útvegsbanka Íslands voru að reyna að gera með svokallaðri Átaksdeild. Það var að hjálpa hinum þurfandi, hinum fátæku, hinum mörgu sem annars áttu hvergi höfði sínu að að halla. (Gripið fram í.) Við skulum tala um Hafskip líka. Við skulum tala um Sambandið, við skulum tala um ýmislegt. Það er ekkert hræðslumál frá minni hálfu að tala um Hafskip. Úr því að við erum að tala um Hafskip að gefnu tilefni frá hv. þingflokksformanni Framsfl. sem situr nú eins og er við hliðina á einum af bankaráðsmönnum Framsfl. á mínum tíma í Útvegsbankanum, þá var Alþingi — ég vil ekki segja pínt til þess, það þurfti ekki að pína — það samþykkti að það skyldi skipuð sérstök nefnd af Hæstarétti til að athuga gang þeirra mála milli mín sem bankaráðsformanns og mín sem formanns stjórnar Hafskips, til að athuga sambandið þar á milli. Hv. formaður þingflokks Framsfl. ætti að kynna sér betur niðurstöðuna sem þar kom fram.

En ég sé ekki ástæðu til að halda hæstv. bankamálaráðherra lengur. Ég hef sagt það sem ég þarf að segja um Alþjóðabankann og um aðstoð Íslands við þróunarlöndin sem kemur frá allt öðrum uppsprettum. Það er hlutfall af þjóðarframleiðslu Íslendinga sem við höfum ekki treyst okkur til að standa við. Ég segi enn þá einu sinni: Við höfum engin efni á því að taka lán til þess eins að vera fínir menn í samfélagi þeirra sem standa að Alþjóðabankanum sem hluthafar. Við verðum að segja fólkinu utan Íslands það sem fólkið á Íslandi veit, að við erum ekki eins ríkir eins og við erum að spila okkur.