26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6849 í B-deild Alþingistíðinda. (4772)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. félmn. (Óli Þ. Guðbjartsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. 2. minni hl. félmn. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60/1984, með síðari breytingum. Nál. þetta er á þskj. 888.

Öllum er ljóst að löggjöf um Húsnæðisstofnun ríkisins þarf heildarendurskoðunar við. Húsnæðiskerfið sinnir fráleitt því hlutverki sem því er ætlað og nauðsynlegt er. Má í rauninni segja að þetta hafi verið rauði þráðurinn í máli beggja þeirra frsm. sem töluðu á undan mér, hvort heldur var fyrir meiri hl. félmn. eða 1. minni hl.

Þegar breyting var gerð á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins í kjölfar og raunar samfara lausn kjaradeilna á vinnumarkaðnum í febrúar 1986 var það með þeim yfirlýsta fyrirvara þáv. stjórnvalda að húsnæðiskerfið allt yrði tekið til gagngerrar endurskoðunar, einkum með tilliti til félagslegra íbúða, leiguíbúða, íbúða fyrir aldraða, öryrkja og námsmenn og ekki síst með því að leysa sérstaklega vanda þeirra sem í greiðsluerfiðleikum lentu eftir 1980 og kerfið tók ekki til. Þegar svo breyting var samþykkt á lögunum fyrr á þessu þingi voru þessi sömu áform um heildarendurskoðun enn ítrekuð nánast af öllum sem um þá breytingu fjölluðu í báðum deildum.

Í forsendum þess frv. var kveðið svo fast að orði, m.a. um nauðsyn heildarendurskoðunar, að segja, með leyfi hæstv. forseta: „Með hliðsjón af framansögðu er ljóst að grípa verður til áhrifaríkra aðgerða til að koma í veg fyrir gjaldþrot húsnæðiskerfisins“. Þetta voru orð þeirra aðila sem lögðu frv. fram.

Þolendur þessa ástands eru allir þeir sem reynt hafa seinustu árin að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Biðraðirnar eru vísast lengstar á þenslusvæði höfuðborgarinnar. Landsbyggðin situr hnípin hjá, enda dæmd af stjórnvaldsaðgerðum til að vera í þessu efni sem öðru annars ef ekki þriðja flokks. Hvergi virðist örla á raunhæfum vilja til að ráðast að kjarna þess vanda sem hér er við að etja sem er ranglæti lánskjaravísitölunnar skv. lögum nr. 13 1979. Jafnvel svo einfalt mál sem það er að hrinda af stað heildarendurskoðun á húsnæðislöggjöfinni virðist vefjast fyrir þeim sem hér fara með meirihlutavald.

Borgarafl. er eina stjórnmálaaflið á Alþingi sem fyrr á þessu þingi hefur lagt fram mjög athyglisverðar tillögur um heildarlausn á húsnæðislöggjöf þjóðarinnar. Það hefur verið gert með flutningi málsins bæði í þessari deild sem og í Ed. Þetta hefur verið gert á þskj. 170 í Ed., þskj. 222 hér í Nd. og enn fremur á þskj. 256 og þskj. 581 í Ed.

Meginmarkmiðin í húsnæðistillögum Borgarafl. eru þrjú:

1. Að breyta hlutverki Húsnæðisstofnunar þannig að hún sæi um fjármögnun fyrstu íbúðar og félagslega þáttarins til frambúðar, en húsbanki sæi um önnur húsnæðislán.

2. Að ná því jafnvægi á þessum lánamarkaði að biðraðir væru úr sögunni.

3. Að komast út úr ranglæti lánskjaravísitölunnar með vaxtaaðlögun.

Enda þótt aldrei verði nægileg áhersla lögð á þá meginstaðreynd að árangurs á þessu sviði verður vart að vænta fyrr en menn snúa sér að rótum meinsins vilja fulltrúar Borgarafl. ekki leggja stein í götu þess frv. sem nú er sérstaklega til umfjöllunar um kaupleiguíbúðirnar.

Hugmyndin um kaupleiguíbúðir er góðra gjalda verð og ætti vissulega rétt á sér sem einn valkosta í heilbrigðu húsnæðislánakerfi er stæði undir nafni og þjónaði á eðlilegan hátt þörfum húsbyggjenda um allt land.