30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7108 í B-deild Alþingistíðinda. (5116)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Hæstv. forseti. Mér skilst að mín hafi verið saknað fyrr í morgun þegar önnur tillaga var hér til umræðu, þ.e. 153. mál ef ég hef tekið rétt eftir. Að vissu leyti gæti ég hér og nú svarað í því efni því að ég veit hvað um er spurt í sambandi við það mál eða ætlast er til af mér í sambandi við 153. mál.

Hér er í fyrsta lagi verið að tala um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar. Þá vék hv. 2. þm. Norðurl. v. að því að samræming, ekki á sviði samgöngumála, þ.e. verkefna, heldur á þingstörfum varðandi samgöngumál, sé ekki betri en svo að hér kemur tillaga um áætlun á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar, en tillagan sem var verið að ræða áðan, tillaga um gerð kostnaðar- og framkvæmdaáætlunar um lagningu vegar með suðurströnd Reykjanesskaga, tillagan sem við ræðum í dag, væri ekki til skoðunar í sömu nefnd og tillagan sem var verið að ræða um áður. (Gripið fram í.) Voru þær í sömu nefnd, þessar? (PP: Meginforseti stendur sig í stykkinu.) Þá vil ég bæta því við að þessar tillögur eru ekki til umfjöllunar. Hafi ég misskilið er það þriðja tillagan sennilega sem ég er með í huganum, þar sem við í dag erum að ræða um vegáætlun og um flugmálaáætlun, þannig að mér hefði fundist eðlilegast að þegar þessum tillögum var vísað til nefndar hefði þeim verið vísað til fjvn. því þar eru ræddar tillögur um vegáætlun og tillögur um flugmálaáætlun. Þar eru ræddar og samræmdar áætlanir á sviði samgöngumála. Þar hefur verið rædd langtímaáætlun um samgöngumál þannig að mér sýnist að skv. vegagerðarlögum sé gert ráð fyrir því sem hv. 4. þm. Norðurl. e. vék að, það hafi verið gert og Alþingi hafi fjallað um þau múl og hafi fjallað um þau í fjvn., enda má segja að það sem hér er verið að ræða um séu fjárveitingar til samgöngumála og þá mannvirkjagerðar, þ.e. áætlanir í sambandi við það. Það liggur alveg í hlutarins eðli að þegar þing kemur saman í haust og ný vegáætlun verður lögð fyrir verður það að sjálfsögðu að hluta til mannvirkjagerð sem verður höfð þar að leiðarljósi og áætlanir á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar eitt af þeim atriðum sem þá verða til umfjöllunar.

Einmitt nú, á sama tíma og endurskoðun vegáætlunar fyrir 1988 fer fram, er verið að fjalla um í fjvn. og væntanlega næstu daga á hinu háa Alþingi tillögu til flugmálaáætlunar, þeirrar fyrstu sem er til umræðu hér á Alþingi og væntanlega til samþykktar skv. nýjum lögum þar að lútandi. Mér sýnist því unnið að þessum málum eins skipulega til einmitt samræmingar og lög standa til. En það er ákaflega auðvelt að segja: Við erum tilbúnir til þess að bæta það. Það stendur ekkert á því. Ég vil hins vegar benda þingmönnum á að þeir sem hafa kannski meiri áhrif í þeim efnum eru einmitt þingmenn kjördæmanna og eitt af því sem fer fram þessa dagana eru einmitt fundir með þingmönnum hinna einstöku kjördæma til að fjalla um með hvaða hætti haga skuli fjárveitingum í vegagerð í sambandi við hin einstöku kjördæmi.

Þetta vildi ég að kæmi hér fram. En ég hefði mátt sjá það á þskj. að báðar þessar till. eru komnar frá atvmn. Hins vegar er sennilega það sem ég sagði í upphafi misskilningur í sambandi við aðra till. í þeim efnum.