30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7160 í B-deild Alþingistíðinda. (5175)

451. mál, sama gjald fyrir símaþjónustu

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Ég þakka hv. þm. Málmfríði Sigurðardóttur ágætar undirtektir við þessa till. Ég er nú viss um að hún á stuðning víða, en hann þyrfti bara að koma fram hér í þinginu. Það er mjög nauðsynlegt.

Auðvitað er það svo að þó að hér sé lögð fram sú till. að sama gjaldskrá og ein gjaldskrá gildi fyrir landið allt í sambandi við símaþjónustu þannig að fullum jöfnuði verði náð getum við litið á skref sem stigin yrðu í þessa átt sem jákvæð og eins og tekið er fram í grg. með till. er þakkað það sem hefur þokast í þessa átt fyrir tilverknað forstöðumanna Pósts og síma og fyrir tilverknað framkvæmdarvaldsins á liðnum árum. En sá munur sem þarna er á er hróplegur og það eru engin rök á bak við, engin skynsamleg rök að skattleggja þá sem langlínuna nota með þeim hætti sem þarna er gert.

Vissulega væri, eins og hv. síðasti ræðumaður nefndi, æskilegt að hæstv. samgrh. væri viðstaddur, en ég geri ráð fyrir að hann átti sig á þessu máli, það er svo augljóst og einfalt, það liggur hér fyrir. Ég mun hlutast til um það að athygli hans verði á því vakin. En hér er það þingviljinn sem spurt er um og þó að ráðherrar séu öflugir margir hverjir taka þeir ekki ákvarðanir fyrir Alþingi nema að svo miklu leyti sem þeir eru hluti af þinginu.

En það reynir vissulega á vilja ráðandi meiri hluta hér. Það er eftir honum sem spurt er ekki síst þegar till. af þessu tagi er flutt.