03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7259 í B-deild Alþingistíðinda. (5294)

Almennar stjórnmálaumræður

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég gerði ekki ráð fyrir því að þurfa að hefja mál mitt hér fyrir framan alþjóð með því að mótmæla ummælum Eiðs Guðnasonar sem talaði hér á undan mér og reyndi að tengja mig í þessum umræðum við Hafskip og Útvegsbankann þar sem ég hef ekkert að skammast mín fyrir. Þetta er dæmi um málefnafátækt stjórnarliða og blettur á þingmannsferli hv. þm.

Hæstv. utanrrh. hóf mál sitt með því að segja að Framsfl. mundi ekki slíta stjórnarsamstarfinu. Þetta eru vissar fréttir vegna þess að sú eina niðurstaða sem ég hef heyrt af hinum umtalaða miðstjórnarfundi Framsfl. var eftirfarandi:

„Við höfum lesið í fréttum frá miðstjórnarfundi Framsfl. að ráðherrum flokksins er falið að ræða efnahagsmál og lausn á þeim vanda sem nú sligar þjóðfélagið við sína samráðherra. Náist ekki samkomulag um efnahagsráðstafanirnar sem duga innan tveggja mánaða mun Framsfl. endurskoða aðild sína að ríkisstjórninni.“

Þetta var niðurstaðan af miðstjórnarfundi Framsfl.

Þá fullyrðir hæstv. utanrrh. að stjórnarandstaðan hefði ekki verið burðug og hún muni ekki leysa nein mál. Þetta er vanvirða við stjórnarandstöðu, vanvirða við andstæðing vegna þess að stjórnarandstaðan á Alþingi hefur verið málefnaleg og sterk og samstæð og staðið uppi í hárinu á valdhöfum. Stjórnarandstaðan er ekki valdaaðili, hún er allt annað, hún veitir valdhöfum aðhald.

Hæstv. forseti. Í sl. viku fóru fram umræður á Alþingi um vantraust á ríkisstjórnina. Kom þá fram að ríkisstjórnin afhjúpaðist sem ráðalaus með öllu. Vantrauststillagan hafði meirihlutastuðning meðal þm. en Framsfl. ákvað að lengja líftíma ríkisstjórnarinnar um tvo mánuði.

Ræða forsrh. gefur ekki tilefni til andsvara, hún var óbreytt frá fyrri ræðum. En ræða sjálfskipaðs leiðtoga stjórnarliðsins, hæstv. fjmrh., vakti athygli mína fyrir það að hann forðaðist að tala um stjórnarstefnuna og árangur hennar en eyddi tíma sínum í að segja áheyrendum hvernig hann ímyndar sér framtíðina ef hitt eða þetta verður samþykkt, framkvæmt eða gerist. Maðurinn er gjörsamlega blindur fyrir staðreyndum sem blasa þó við þjóðinni allri og lifir í draumheimum.

Hæstv. forsrh. endurtekur í sífellu að við megum ekki slíta friðinn. Hæstv. fjmrh. staglast á því að fólk og fyrirtæki hafi aldrei haft það eins gott á Íslandi. Þvílíkir blekkingarmeistarar! Ranglega heldur hæstv. fjmrh. því fram að stjórnarandstaðan hafi lagt til að fjárlögin fyrir 1988 yrðu afgreidd með meiri halla. Hið rétta er að við vildum lækka útgjöld og mótmæltum hækkun skatta.

Útgjaldahlið fjárlaga hækkaði um 50% milli áranna 1987 og 1988. Það sem hv. þm. Hreggviður Jónsson átti við í sinni ræðu var það að ég sem fjmrh. skilaði fjárlögum fyrir 1986 með tekjuafgangi. Hækkunin nú á milli ára er úr 43 milljörðum í rúmlega 60 milljarða, ég held að það verði 65–67 milljarðar fyrir árið 1988. Skattar hækkuðu yfir 20 milljarða milli sömu ára til að standa undir útgjaldaaukningunni þetta eina ár. Halli ríkissjóðs er með þessu færður yfir á heimilin í landinu. Eldhúsin í landinu eru látin taka til sín áhyggjur fjmrh. því laun hafa ekki hækkað að sama skapi.

Aldrei hefur ríkisstjórn löðrungað þjóðina svo ákaft. Alþfl., flokkur sem kennir sig við alþýðuna, og Alþýðusambandið hafa haft launamál vinnumarkaðarins í sínum höndum í 70 ár og Alþb. með þeim eitthvað skemur. Árangurinn er ekki meiri en það að enn þá getur enginn verkamaður lifað af 8 stunda vinnudegi. Launin duga ekki fyrir þaki yfir höfuðið. Því búa margir meðbræður okkar við óöryggi sem okkur ber að bæta úr. Hinir gömlu flokkarnir sem nú eru í einni sæng í ríkisstjórninni hafa líka brugðist, bæði í launamálum og húsnæðismálum.

Borgarafl. hefur lagt fram á Alþingi framkvæmanlegar tillögur, bæði um hækkun lágmarkslauna og um byggingu leiguhúsnæðis sem ávallt væri í eign ríkisins og leigan mætti aldrei vera hærri en sem svarar 1/4 af lægsta launataxta Verkamannasambands Íslands eins og hann er á hverjum tíma. Þessi till. sem er orðuð af mér er nákvæmlega eins orðuð og sú till. sem var framkvæmd á vegum Reykjavíkurborgar af öllum flokkum stjórnarandstöðunnar þar auk mín sem var oddamaður í Reykjavík þá og heitir nú leiguíbúðir fyrir aldraða og eru starfræktar.

Hitt er annað mál að hér er þáltill. á þskj. 172 flutt af Eiði Guðnasyni sem leggur til sams konar aðferð við fjármögnun.

Fjölmiðlar hafa haldið till. Borgarafl. leyndum. Er hér er skrá frá Alþingi yfir á milli 60 og 70 mál sem Borgarafl., hinn nýi ársgamli flokkur, hefur flutt hér á Alþingi. Hann hefur því ekki verið aðgerðalaus. En fjölmiðlar hafa haldið till. Borgarafl. leyndum. Með þessum lista kemur það fram að slæmt er að hafa ekki málgagn. Trúr stefnu sinni hefur Borgarafl. mótmælt tillitsleysi, miskunnarleysi ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar í skattamálum og fleiri málum sem stefnt er gegn fólkinu fyrir kerfið því Borgarafl. starfar í anda mildi og mannúðar.

En hver er svo árangurinn af stefnu og störfum ríkisstjórnarinnar? Verkföll lama þjóðfélagið, undirstaða þjóðarbúsins, fiskvinnslan, í miklum rekstrarerfiðleikum og dregur saman seglin, segir upp fólki. Ný endurreist Álafoss hf. líklega að loka nema opinberir sjóðir haldi áfram að spýta peningum í hítina. Ullariðnaður er að stöðvast og fjöldi fólks að verða atvinnulaus. Verksmiðjurnar á Akureyri eru að stöðvast. Grandi hf. segir upp helmingi af starfsfólki. Verslanir og fyrirtæki um land allt hætta störfum. Mörg kaupfélög birta ársreikninga sem sýna mörg hundruð milljón kr. tap á rekstri. Sláturfélag Suðurlands segir upp fjölda manns og tilkynnir taprekstur. Stórfelld gengislækkun er boðuð þrátt fyrir nýafstaðna gengislækkun. Erlendar skuldir halda áfram að aukast, viðskiptahalli vex ört og er nú sagður stefna í 15–20 milljarða um áramótin og verðbólgan á hraðri ferð upp á við. Nýfrjálshyggjan hefur ekki látið að sér hæða. Það er köld nótt í íslensku efnahagslífi um þessar mundir.

Til þess að þurfa ekki að standa Alþingi skil á væntanlegum aðgerðum sínum skal nú slita Alþingi, senda það burt þrátt fyrir áríðandi mál sem bíða óafgreidd. Stjórnarliðið hefur verið svo óstýrilátt að augljóst er að ríkisstjórnin ræður ekki við stuðningslið sitt og er það önnur ástæða fyrir því að senda alþm. burt frá störfum.

Stjórnarfrumvörp hafa oft mætt andstöðu stjórnarliða. Í umræðum hafa meira að segja ráðherrar opinberað ágreining sín á milli. Slíkur ágreiningur milli ráðherra smitar út frá sér og hefur skapað óróa í þjóðfélaginu þegar samstaða og velvilji milli manna og gagnkvæmt traust var það sem þjóðin þurfti mest á að halda.

Góðir hlustendur. Ísland er gott land, Ísland, landið þitt og landið mitt. Land tækifæranna, tækifæra lands og sjávar. Fólkið er fallegt og frjálslegt og þjóðarframleiðslan ein sú mesta í veröldinni. En því miður líður ekki öllum vel. Hvers vegna er það svo? Svar mitt er einfalt: Það er vegna þess að við eyðum tíma okkar og orku í deilur um fánýta hluti í stað þess að finna lausnir. Við þurfum að koma okkur saman um að skipta ágóðanum af gjöfulu landi þannig að allir hafi nóg til að lifa hér mannsæmandi lifi.

Borgarafl. er ekki gamall, hann er eins árs. En gömlu flokkarnir gera til hans meiri kröfur en sjálfra sín, sem er ágætt. Borgarafl. er afl í íslenskum stjórnmálum og mun stækka og styrkjast því að hann er flokkur fólksins. Borgarafl. er reiðubúinn til samstarfs um endurskoðun á skiptingu þjóðartekna með það að markmiði að allir landsmenn hafi efni á að lifa sómasamlegu fjölskyldulífi af 8 stunda vinnudegi, hafi varanlegt þak yfir höfuðið og að allir geti veitt sér góðan mat á hverjum degi og hafi síðan tíma afgangs fyrir fjölskylduna. Þetta er hægt. Svona er það hjá öðrum þjóðum. Hvers vegna er þetta ekki eins hjá okkur? Ef við berum gæfu til að sameinast, standa saman þá erum við Íslendingar sem heild sterk eining, sterk heild. Borgarafl. vill hér eins og áður hvetja til umburðarlyndis og samstöðu með þjóðinni.