03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7262 í B-deild Alþingistíðinda. (5295)

Almennar stjórnmálaumræður

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Í Dagblaðinu 15. mars sl. er frétt um fiskvinnslu í fremstu röð. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Sjávarútvegsráðuneytið hefur hafið herferð til að hvetja menn til aukinnar framleiðni, bættrar starfsaðstöðu verkafólks og til að snyrta umhverfi fiskvinnslustöðva. Alls fengu í ár 9 fiskvinnslustöðvar verðlaun. Verðlaunin voru steinn sem á er letrað eftirfarandi: „Hvatning til dáða.“ Svo kemur nafn fyrirtækisins og undir er letrað nafnið „Halldór Ásgrímsson“. Verðlaunasteinarnir eru gerðir hjá Álfasteini hf. í Borgarfirði eystra. Einnig var fyrirtækjunum afhent innrammað vinnsluleyfi þar sem kemur fram viðurkenning sjávarútvegsráðuneytisins fyrir gott starfsumhverfi.“

Einu af þessum fyrirtækjum hefur nú verið lokað. Jafnvel fyrirmyndarfyrirtæki standast ekki stjórnarstefnuna. Í Morgunblaðinu 10. jan. 1987 birtist myndskreytt frétt um hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands á vegum Granda hf. — Það er leiðinlegt að ráðherra skuli vera farinn og sjái ekki þessa góðu frétt. Þar stóð m.a.:

„145 sérhæfðir fiskvinnslumenn útskrifaðir. Við athöfn þessa lauk námskeiði sem starfsfólki Granda hf. var boðið upp á þar sem fram fór kennsla í ýmsum fræðum er tengjast fiskvinnslu í landinu og starfi þeirra að henni. Í ræðu Brynjólfs Bjarnasonar, framkvæmdastjóra Granda hf., við upphaf athafnarinnar kom sú skoðun fram að námskeið þetta væri aðeins upphafið á því sem koma skyldi. Fram undan væru í þjóðfélaginu miklar framfarir í sjálfvirkni og tækni og því mikil þörf á sérhæfðu fiskvinnslufólki.“

Á hátíðinni var staddur hæstvirtur sjávarútvegsmálaráðherra. Um hans þátt segir Morgunblaðið, með leyfi forseta:

„Þegar afhending skírteina hafði farið fram tók Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra til máls og óskaði fyrstu útskrifuðu sérhæfðu fiskvinnslustarfsmönnum til hamingju með áfangann. — „Þetta er ekki aðeins merkur áfangi á starfsferli ykkar heldur er þetta stórviðburður í sögu íslensks sjávarútvegs.“"

Það er ekki nema rúmt ár síðan þessi hátíð var haldin og þessar ræður fluttar. Þá sagði forstjóri Granda að fram undan væri mikil þörf fyrir sérhæft fiskvinnslufólk og ráðherrann taldi þetta merkan áfanga í starfsferli fólksins. Aðgerðir og aðgerðaleysi fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar hafa orðið þess valdandi að einum þriðja af þessu sérhæfða fiskvinnslufólki Granda hefur verið sagt upp og skal nú leita sér annarra starfa þar sem háskólanámið kemur trúlega að litlu gagni.

Fréttamaður sjónvarps átti viðtal við sjómann af Akranesi og spurði hann um aflabrestinn á vertíðinni, hver væri orsökin. Sjómaðurinn svaraði því til að sjómenn teldu sig ekki geta veitt sama fiskinn nema einu sinni. Um of fáa fiska væri að ræða á miðunum. Þetta svar heyrist nú á næstum öllu hina hefðbundna vertíðarsvæði, jafnléleg vertíð hefur ekki komið áður. Greinilegt er að fiskveiðistefnan hefur brugðist, sókninni í þorskstofninn er illa stjórnað. Fiskurinn er veiddur of smár, fær ekki að vaxa upp til að ganga á hina hefðbundnu vertíðarslóð. Greinilegt er að ekki er hægt að beita kvótakerfi eins og við höfum búið við að undanförnu til að tryggja viðgang þorskstofnsins og til að halda veiðistofninum í hagkvæmri stærð.

Sjútvrh. taldi sér og framsókn það til ágætis í umræðunni um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar í fyrri viku að samstaða hefði verið mikil um samþykkt gildandi fiskveiðistefnu við afgreiðslu hennar um áramótin. Við sem töldum að stefna ráðherrans næði ekki þeim tilgangi sem henni er ætlað urðum vör við mjög mikla andstöðu við þá kvótaútfærslu sem samþykkt var meðal flestra hagsmunaaðila. Og í fyrsta skipti í ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar var öll stjórnarandstaðan á öndverðri skoðun við ráðherrann.

Stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, bæði gagnvart veiðum og vinnslu, hefur mistekist. Um það efast enginn nema þá kannski ráðherrarnir og seðlabankastjórar. Hróp um hagræðingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum, án nokkurrar skilgreiningar um hvað gera skuli nema að segja upp starfsfólki, er markleysa. Grandaaðferðin dugar hvergi, ekki einu sinni hjá Granda hf.

Greinilegt er að fram undan er minnkandi þorskafli, minnkandi umsetning fiskvinnslufyrirtækja og útgerðar, auknir rekstrarerfiðleikar vegna rangrar fiskveiðistefnu. Vaxtaokrið og gengisstefnan eru þegar fyrir hendi.

Það er nokkuð merkilegt að þótt landinu sé stjórnað gegn hagsmunum sjávarútvegs, gegn hagsmunum landsbyggðar, gegn framleiðsluatvinnuvegum, fyrir Kringlupólitíkina, fyrir fjármagnið og fyrir eyðsluna, eru þeir sem eru í forsvari fyrir þessar greinar meira og minna á bandi ríkisstjórnarinnar, á bandi framsóknar, ekki með samvinnufélögunum, á bandi Sjálfstfl., ekki með sjávarútveginum. Það er hrópað á gengisfellingu þótt vitað sé að slík aðgerð verkar eingöngu sem kvalastillandi lyf fyrir atvinnugreinarnar ef Kringlupólitíkin, vaxtaokrið og eyðslan heldur áfram.

Frjálshyggjustefnan gat gengið í uppsveiflunni, góðærinu. Það var hægt að stjórna um takmarkaðan tíma án fyrirhyggju við slíkar aðstæður. Því fara ekki forustumenn atvinnuveganna fram á breytta stjórnarstefnu? Af hverju gera ekki forustumenn sveitarstjórna úti á landsbyggðinni slíkt hið sama? Það er ekki nema von að fjmrh., forsrh. og sjútvrh. geti verið brattir meðan aðeins er beðið um gengisfellingu, en öðru í stjórnarstefnunni ekki mótmælt.

Það er fyrirkvíðanlegt að búa við stefnu núverandi ríkisstjórnar út yfirstandandi kjörtímabil ef fram stefnir sem horfir. Ef frjálshyggjan verður látin ráða ferðinni verður þjóðfélag okkar gjörbreytt frá því sem nú er að kjörtímabili loknu. Á undanförnum árum höfum við verið að leitast við að byggja upp félagslegt velferðarþjóðfélag og okkur hefur tekist þar margt nokkuð vel. Er ekki rétt að halda því starfi áfram? Það gerum við með því að styrkja félagsmálaöflin í landinu, Alþb. og verkalýðshreyfinguna.