04.05.1988
Neðri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7379 í B-deild Alþingistíðinda. (5373)

445. mál, eiturefni og hættuleg efni

Frsm. heilbr.- og trn. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. sem liggur frammi á þskj. 991 frá heilbr.- og trn., um frv. til laga um eiturefni og hættuleg efni.

Nefndin hefur fjallað um málið. Það á sér þá forsögu að með bréfi dags. 13. sept. 1984 skipaði þáv. heilbr.- og trmrh., Matthías Bjarnason, nefnd sem falið var að endurskoða lög um eiturefni og hættuleg efni. Í þá nefnd voru skipaðir Ingolf J. Petersen, deildarstjóri lyfjamáladeildar ráðuneytisins, Ólafur Pétursson, forstöðumaður mengunarvarna Hollustuverndar ríkisins, og dr. med. Þorkell Jóhannesson prófessor, formaður eiturefnanefndar.

Nefndin varð sammála um að lagfæra þyrfti lög um eiturefni og hættuleg efni vegna þeirra breytinga sem orðið hafa frá því að fyrri lög tóku gildi. Kemur þar helst til tilkoma Vinnueftirlits ríkisins, Hollustuverndar ríkisins og Lyfjaeftirlits ríkisins. Enn fremur taldi nefndin að breyta þyrfti þeim þáttum sem snertu landlæknisembættið. Síðan varð breyting á meðferð þessara mála við stofnun heilbr.- og trmrn., eða heilbrigðismálaráðuneytisins eins og það hét, árið 1969.

Frv. er eins og það liggur fyrir mjög svipað og nefndin lagði til að það yrði. Þó var gerð breyting á 2. gr. áður en hæstv. ráðherra lagði frv. fram. Hún varðaði 2. gr. frv. sem fjallar um flokkun efna á lista yfir eiturefni og hættuleg efni. Þær breytingar voru sérstaklega gerðar með tilliti til þess að hægt væri að hafa sama hátt á um merkingu slíkra efna og Efnahagsbandalagslöndin hafa komið sér saman um.

Nefndin fjallaði um frv. Ingimar Sigurðsson, deildarstjóri í heilbr.- og trmrn., kom á fund nefndarinnar. Nefndarmenn urðu sammála um að mæla með frv. eins og það kom frá hv. Ed.