05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7429 í B-deild Alþingistíðinda. (5470)

487. mál, kostnaður vegna auglýsinga

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég tek undir það með þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar, hv. þm. sem hér hafa talað, að það ber að gera miklar kröfur um hlutlægni í kynningarstarfi á vegum ráðuneyta. Ég get fallist á að á því hafi verið misbrestur um texta þeirrar fyrstu auglýsingar sem birtist af hálfu fjmrn. Þær eru þrjár talsins. Númer tvö var hins vegar hlutlægur samanburður á staðgreiðslukerfinu í samanburði við eldra innheimtukerfi beinna skatta. Þriðja auglýsingin var áskorun til almennings um að koma á framfæri við ráðuneytið ábendingum um ráðdeild og sparnað í ríkisrekstri. Viðbrögð við því hafa verið góð og margar af þeim ábendingum og tillögum verðskulda alla athygli og gætu leitt til umtalsverðs sparnaðar í rekstri ríkisins. (SJS: Eins og sú að ráðherrann segi af sér! Eins og sú ábending?) Hér er engu svarað um gæsalappaágæti ráðherra heldur erum við að ræða þetta mál hlutlægt.

Ég tók eftir því að hv. 7. þm. Reykv. rifjaði upp að á sínum tíma við umræðu málsins var það gagnrýnt að fjmrh. hefði ekki beitt sér fyrir nægilega ítarlegri kynningu á þeirri skattkerfisbreytingu sem fyrir höndum er. Ég er sammála því. Ég tel að það megi gagnrýna þann sem hér stendur fyrir að hafa ekki fyrir fram gætt þess að verja meiri hlut af starfsemi ráðuneytisins til að undirbúa jarðveginn og kynna með hlutlægum hætti þessar viðamiklu breytingar. Ég tel þær jafnnauðsynlegar og viðamiklar breytingar eins og breytingar á umferðarreglum og lögum eða eins og þá miklu breytingu sem varð í fjármálalífi þjóðarinnar þegar tekin var upp verðtrygging fjárskuldbindinga þannig að ég legg á það áherslu að það er með ráðum gert og það er yfirlýst stefna og til þess var ætlað fé að reyna að bæta úr þessu og leggja áherslu á kynningarstarf. Ég tek hins vegar undir með hv. stjórnarandstæðingum sem hér hafa talað um að það ber að gera af hlutlægni, það ber ekki að misnota í flokkspólitíska þágu og á þeim grundvelli verður að meta það. En ég mundi eindregið mælast til þess eða láta í ljós þá von að menn væru sammála um nauðsynina á hlutlægri kynningarstarfsemi og ég vona að enginn véfengi, því um það er ég sannfærður, að auglýsingar sem lúta að verðsamanburði vegna verðlagsákvæða skattkerfisbreytingarinnar hafa borið mikinn árangur og eru vissulega í þágu neytenda.