05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7433 í B-deild Alþingistíðinda. (5479)

485. mál, fiskeldi

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið tilheyra þessi mál ótvírætt landbrn. eins og mál standa nú í kerfinu og heyra þar undir lög um lax- og silungsveiði. Hitt er annað og rétt að um þessi mál hefur mikið verið rætt að undanförnu og sýnst hefur sitt hverjum í þeim efnum. Ég vil hins vegar aðeins benda á að á fundum Landssambands fiskeldis- og hafbeitarstöðva hefur ekki verið mikil mæting þegar þar hafa samþykktir verið gerðar og það er engan veginn einhugur hjá þeim samtökum.

Í annan stað vil ég mótmæla því hjá hv. 11. þm. Reykv. að búnaðarþing nú hafi samþykkt að fiskeldi skuli falla undir sjútvrn.

Þá birtust fréttir í útvarpinu í gærmorgun um að í Noregi, þó þetta mál falli undir sjútvrn. þar, séu það allt að 14 aðilar sem með málin þurfi að flækjast á milli m.a. ráðuneyta. Þar var einnig tekið fram að menn þyrftu ekki að láta sér bregða þó menn yrðu að sýna þolinmæði því það tæki allt að 21/2 ár að fá málin þar afgreidd.

Hins vegar vil ég undirstrika að á vegum landbrn. fara fram miklar rannsóknir, þar er heilbrigðiseftirlitið og þar er fræðslan, og ef þessu verður skipað á annan veg held ég að við hljótum að þurfa að byggja þetta kerfi upp annars staðar hvort sem menn telja það nú ódýrara eða ekki.