11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

92. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (María E. Ingvadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. um breytingar á 68. og 83. gr. laga nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þessu frv. er ætlað að færa skattalögin einu skrefi nær því að mismuna ekki heimilum eftir því hver aflar teknanna. Í 68. gr. ofangreindra laga er fjallað um skattafslátt, þ.e. þann persónuafslátt sem rennur til greiðslu álagðra gjalda.

Nú er það svo að ef annað hjóna eða sambýlisfólks nýtir ekki þennan skattafslátt, t.d. vegna þess að viðkomandi vinnur ekki utan heimilis eða aflar lítilla tekna utan heimilis, færist ónýttur hluti hans til þess aðilans sem hærri hefur tekjurnar.

Fyrir 50 árum voru þeir unglingar færri sem lögðu í langskólanám en hinir sem fóru út á vinnumarkaðinn. Þetta hefur snúist við. Nú afla flestir unglingar sér framhaldsmenntunar enda í takt við þær þjóðfélagslegu breytingar sem orðið hafa.

Laun unglinga fyrir sumarvinnu þeirra duga skammt til bókakaupa og annars er til skóla þarf og þurfa þá foreldrar að hlaupa undir bagga utan þess að sjá um framfærslu barna sinna. Foreldrar barna eldri en 16 ára njóta ekki barnabóta vegna þeirra þrátt fyrir að kostnaður vegna þessara barna er einna mestur á unglingsárunum.

Sú breyting sem hér er mælt fyrir er ekki síst mikilvæg fyrir einstæða foreldra sem oft og tíðum standa að mestu einir straum af kostnaði vegna uppeldis og menntunar barna sinna. Því er lagt til í frv. að aftan við 68. gr. um skattafslátt bætist við: „Heimilt er framteljanda að nýta óráðstafaðan skattafslátt barna sinna eldri en 16 ára sem lögheimili eiga hjá framteljanda.“

Þetta má gera á svipaðan hátt og yfirfærsla ónýtts skattafsláttar milli hjóna og sambýlisfólks, þ.e. eftir að öll álögð gjöld hafa verið dregin frá.

Í frv. þessu er einnig kveðið á um breytingu við 83. gr. sömu laga, sbr. lög nr. 7 frá 1984 og lög nr. 72 frá 1986, en sú grein er um eignarskattsútreikning. Í núgildandi lögum er það svo að allar eignir hjóna eða sambýlisfólks mynda eignarskattsstofn sem síðan er skipt til helminga. Frá hvorum helmingi fyrir sig er síðan dregin sú upphæð sem nemur skattleysismörkum hverju sinni. Þessi skattleysismörk voru 1 millj. 525 þús. kr. fyrir gjaldárið 1987 fyrir hvern einstakling og voru þar með 3 millj. og 50 þús. kr. fyrir hjón eða sambýlisfólk.

Þegar talað er um fjölskyldu í dag er ekki lengur hægt að hafa aðeins í huga það fjölskylduform sem algengast var áður fyrr. Sú þróun hefur orðið að þeim heimilum fjölgar þar sem aðeins er ein fyrirvinna. Ungt menntað fólk stofnar sín heimili, stundum í sambýli með öðrum, stundum með barni sínu eða börnum eða þá eitt sér. Stofnkostnaður húsnæðis og gjöld vegna þess eru nokkurn veginn þau sömu hvert sem fjölskylduformið er.

Eftir skilnað verða til tvö heimili úr einu og þyngist þá eignarskattsbyrðin á báðum heimilum frá því sem. hún var þegar um eitt heimili var að ræða. Við lát maka hækkar gjaldskyldur eignarskattsstofn þess sem eftir lifir um helming þess frádráttar sem hjónin nutu áður.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að skattleysismörk hverrar fjölskyldu verði þau sömu, þ.e. að einstaklingar njóti sama frádráttar frá eignarskattsstofni og hjón og sambýlisfólk. Þessi breyting hefði það einnig í för með sér að færa skattalögin nær því að mismuna ekki fjölskyldum eftir því hvernig þær eru saman settar.

Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.