05.05.1988
Neðri deild: 92. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7587 í B-deild Alþingistíðinda. (5632)

360. mál, umferðarlög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er hryggilegur misskilningur ef orð mín hafa verið skilin svo áðan að ég væri með þeim hluta frv. sem fjallar um Bifreiðaeftirlitið. Ég þóttist auðvitað taka það skýrt fram að þetta væri veruleg afturför í þjónustu í mínu kjördæmi og ég sé það í hendi minni að það er svo í öðrum kjördæmum. Hitt er annað mál að ég benti á að kannski væri svo mikil óstjórn og vandræði í Bifreiðaeftirlitinu í Reykjavík að það gerði eðlilegt að menn færu að fitja upp á svona hugleiðingum eins og hér er lagt til, en auðvitað sjá allir lifandi menn að hér er um verulega afturför að ræða. Það er alveg hryggilegt að horfa upp á jafngóðan dómsmrh. rjúka til og skemma allgóð umferðarlög sem sett voru hér í fyrra. Það þykir mér bara mjög sárt að horfa upp á.

Ég veit ekki nema það væri kannski rétt fyrir hv. þingdeildarmenn að setja sig inn í byggingarplönin, sem myndu vera hér á nokkrum síðum og það væri líka hyggilegt að fá kostnaðaráætlanir hjá hæstv. dómsmrh., að hann gerði grein fyrir þeim byggingarhugmyndum og fjárfestingarhugmyndum sem þarna er verið að leggja út í.

Ég kem til með að ræða þetta mál síðar og þarf ekki að orðlengja meira í bili.