12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 911 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

49. mál, náttúrufræðisafn

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda skipaði þáv. menntmrh. fyrir tveimur árum nefnd til að gera tillögur um tilhögun og uppbyggingu náttúrufræðisafns og er hún nú u.þ.b. að ljúka störfum. Að sögn formanns nefndarinnar, sem er Ævar Petersen, deildarstjóri í Náttúrufræðistofnun Íslands, er nefndin sammála um að reisa beri safnhús eins fljótt og auðið er. Einnig er nefndin einhuga um að því væri best kosinn staður í Reykjavík á svæðinu norðan við gamla Tívolí, austan við þann hluta Njarðargötu sem var lagður niður fyrir allmörgum árum.

Þar eð endurskoðun aðalskipulags höfuðborgarinnar var á lokastigi við upphaf nefndarstarfsins taldi nefndin rétt að koma áliti um framtíðarlóð á framfæri við borgaryfirvöld sem ákváðu að gera ráð fyrir náttúrufræðisafni á áðurnefndri lóð. Hins vegar geta borgaryfirvöld að sjálfsögðu ekki úthlutað lóðinni fyrr en séð er fyrir gatnagerðargjöldum og nánari ákvarðanir yfirvalda og Alþingis um safnið liggja fyrir. Áhersla er lögð á að safnið verði þjóðarsafn svo sem er hlutverk Náttúrufræðistofnunar nú, sýninga- og fræðslustarf verði fært í nútímalegra horf og aukið verulega. Einnig er lagt til í þessu væntanlega nefndaráliti að komið verði á formlegum tengslum við önnur náttúrugripasöfn í landinu. Hugmyndir nefndarinnar lúta að því að ríki og Reykjavíkurborg og e.t.v. aðrir aðilar standi að byggingu og rekstri náttúrufræðihúss.

Eins og fram kom áðan í svari mínu hafa endanlegar tillögur nefndarmanna ekki enn borist menntmrn. og því ekki um það að ræða að teknar hafi verið ákvarðanir um frekari meðferð málsins og þá ekki heldur um hvort unnt verður að koma þessu húsi upp þannig að safnið taki til starfa á árinu 1989, eins og kom fram sem hugmynd frá hv. fyrirspyrjanda, en það er að sjálfsögðu undir Alþingi komið, fjárveitingarvaldinu og öðrum þeim aðilum sem kosta munu bygginguna og því að nefndin ljúki störfum og sendi sínar tillögur til menntmrn. sem þá mundi koma því erindi áleiðis til hv. Alþingis.