06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7679 í B-deild Alþingistíðinda. (5711)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get stytt mál mitt mjög því að hv. síðasti ræðumaður kom að því sem ég ætlaði að benda á, að bæði í nýsettum læknalögum og svo eldri útgáfu læknalaganna er ljóst að þagnarskyldan er almenn regla sem þó getur þurft að víkja frá í einstökum tilfellum þegar ríkir hagsmunir bjóða, bæði vegna réttarrannsóknar og dómsmeðferðar mála, en einnig er gert ráð fyrir því að önnur lög, sem sömuleiðis eru þá sett af ríkum ástæðum, geti hafið upp þessi ákvæði læknalaganna. Það er beinlínis tekið fram, bæði í eldri ákvæðum og í þessum nýsettu lögum, í 10. gr. eldri laga og í 15. gr. hinna nýsettu laga. Ég held að það sé ljóst að sérlög gildi um sérstök tilvik af þessu tagi þar sem brýnir hagsmunir eru tvímælalaust á ferðinni, sem er eftirlit með opinberu fé eða meðferð opinbers fjár, og það er æðsta eftirlitsstofnun í ríkinu sem þarna á í hlut, Ríkisendurskoðun, og það hljóti að vera tilfelli af því tagi sem gert hefur verið ráð fyrir bæði við setningu þessara laga og í eldri lögum þar sem segir að lög geti boðið annað, enda sé þá rökstudd ástæða til að rjúfa þagnarskyldu vegna brýnnar nauðsynjar.

Ég vek einnig athygli á því að það er ekki víst að ákvæði 16. gr. um afhendingu sjúkragagna eigi við í þessum tilfellum því það er ekki gert ráð fyrir því mér vitanlega að Ríkisendurskoðun krefjist í sína vörslu þeirra sjúkragagna sem hún þarf að komast að til að bera saman við ákveðnar upplýsingar.

Ég hygg að menn hugsi sér að það fari þannig fram að Ríkisendurskoðun fái heimild í gegnum sinn trúnaðarlækni til að bera saman þær greiðslur sem inntar hafa verið af hendi við þau grunngögn sem fyrir liggja hjá viðkomandi heilsugæslustöð, hjá viðkomandi lækni eða eftir atvikum hvar sem það er. Það sé sem sagt ekki eitt og hið sama að viðkomandi þurfi að afhenda, láta af hendi sjúkraskrá eða önnur slík gögn. Ég stend því í þeirri meiningu að verði sá háttur hafður á sem við leggjum til í okkar nál. sé fundin verklagsaðferð til að gæta þessa trúnaðar. Og ég hef fyllstu ástæðu til að ætla að það takist og án þess að brjóta í bága við ákvæði læknalaga eða annað sem hér á við.