06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7690 í B-deild Alþingistíðinda. (5721)

432. mál, Ríkisendurskoðun

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Skv. lögum um Ríkisendurskoðun er eitt meginhlutverk þeirra að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Það er hennar fyrsta og fremsta hlutverk sem stofnunar sem heyrir undir löggjafarsamkomuna Alþingi. Að sjálfsögðu getur Ríkisendurskoðun ekki fylgst með framkvæmd fjárlaga nema hún geti staðreynt það, ef hún telur þess þurfa, að þjónusta hafi komið fyrir þær greiðslur sem ríkið er krafið um í því sambandi. Það segir sig auðvitað sjálft að ef Ríkisendurskoðun getur ekki staðreynt þetta þá getur hún ekki fylgst með framkvæmd þeirra greiðslna sem Alþingi hefur áætlað fyrir slíka þjónustu á fjárlögum. Það er alveg sama hvort í þessu sambandi um er að ræða heilsugæsluþjónustu sem ríkisvaldið á að greiða fyrir eða aðra þjónustu sem ekki tengist heilsugæslumálum, að Ríkisendurskoðun á fyrir hönd Alþingis að fylgjast með því að það hafi komið þjónusta fyrir þá fjármuni sem greiddir eru í hennar nafni. Það getur hún að sjálfsögðu ekki gert nema með því að geta sjálf staðreynt það að sú þjónusta hafi verið innt af hendi.

Út af því sem hv. 1. þm. Vestf. sagði hér áðan, þá vil ég aðeins taka það fram að það er ekki bara þetta eina fordæmi sem hann rakti í sinni ræðu sem er ástæðan fyrir því að rétt þykir að flytja það frv. sem hér er til umræðu. Ég hvet hv. þm. til þess að kynna sér það sjálfa. Þá munu þeir komast að raun um að ástæðurnar eru fleiri, þær eru fleiri en tvær og þær eru fleiri en þrjár. Það er ekki gert að gamni sínu í þessum efnum þegar lagt er fram frv. eins og það sem hér liggur fyrir. Það eru fleiri en ein ástæða, fleiri en tvær og fleiri en þrjár sem búa því að baki að þetta er talið nauðsynlegt.

Í annan stað skulu menn huga að því að það eru að sjálfsögðu fleiri en læknarnir einir sem sinna viðkomandi sjúklingi sem fá þær upplýsingar fyrr eða síðar sem hér er vikið að. Læknarnir hafa aðstoðarfólk sem í mörgum tilvikum er ekki heilbrigðismenntað. Það fjallar um þessar skýrslur og er ekki bundið sérstökum trúnaðarskyldum umfram almennar trúnaðarskyldur þeirra sem slík störf vinna. Þannig að upplýsingar þær sem hér er um rætt fara fyrir augu fleiri en eins læknis, fara fyrir augu fleiri en menntaðra lækna. Þær fara einnig í mjög mörgum tilvikum fyrir augu aðstoðarfólks lækna og jafnvel fólks sem vinnur við heilbrigðisþjónustu og er alls ekki sérmenntað.

Í þriðja lagi skyldu menn gæta að því að það er ekki bara spurning um það að ríkið sé að fara inn á svið um upplýsingar um einkahagi manna. Það er komið svo hér í okkar ágæta landi að menn geta keypt sér slíkar upplýsingar. Aðili sem hugsar sér t.d. að afla fjár til einhvers viðfangsefnis með happdrætti getur keypt sér upplýsingar um það hverjum hann eigi að senda slíka miða. Annaðhvort getur hann keypt sér upplýsingar um það og greitt fyrir það og annast síðan útsendingarnar sjálfur eða samið við fyrirtækið að taka þetta að sér fyrir hann gegn því að ákveðin þóknun sé greidd fyrir andvirði hvers selds miða. Yfirleitt er þarna um gírósendingar að ræða og það er það einfaldasta af öllu einföldu að keyra saman þær upplýsingar sem koma af tölvudiski frá bönkum um það hverjir greiða slíka gíróseðla og hverjir greiða ekki. Það einfaldasta af öllu einföldu er að finna út hverjir það eru í þessu þjóðfélagi sem yfirleitt greiða slíka reikninga. Og hvaða fólk skyldi það nú vera? Það er gamla fólkið.

Það er gamla fólkið sem hefur vanist því að greiða þá reikninga sem það fær, fyrir hvað svo sem þessir reikningar eru, og það er engin tilviljun að það er þetta fólk sem er á útsendingarlista flestra þeirra fyrirtækja sem annaðhvort selja skrár yfir þá sem rétt sé að snúa sér til til að safna fé hjá eða selja happdrættismiða. Margt af þessu gamla fólki, ég hef séð það sjálfur, er að fá happdrættismiðasendingar frá ólíklegustu aðilum sem sendar eru út samkvæmt gírókerfi sem hafa verið fest kaup á hjá tilteknum aðilum í borginni og hafa meira að segja gengið svo langt að forráðamenn fjölmennra félagasamtaka fá varla nokkurn frið fyrir þessum aðilum sem vilja fá keyptar hjá þeim eða hjá félögunum skrárnar yfir félagsmenn til að nota í slíkum tilgangi. Sumir aðilar í þessu landi selja sínar félagaskrár m.a. til innflytjenda og annarra umboðsmanna varnings. Nefni ég þar sérstaklega til barþjónasamtökin sem selja umboðsmönnum áfengis skrá yfir félagsmenn sína sem reka eða stunda barþjónustu á Íslandi. Það er hinn mesti misskilningur, herra forseti, að hér sé það eitthvert fordæmi sem hið opinbera sé að gefa til þess að ganga að upplýsingum um einkahagi manna sem sé gersamlega fordæmalaust á Íslandi. — Ég heyrði að hv. þm. Albert Guðmundsson kallaði fram í og spurði hvar fá mætti slíka skrá keypta. Ég legg til að hann athugi það sjálfur hjá fyrrv. starfsbræðrum sínum í stéttinni.