06.05.1988
Neðri deild: 94. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7696 í B-deild Alþingistíðinda. (5743)

389. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. allshn. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur einnig verið til meðferðar í hv. Ed. og hlotið þar ítarlega umfjöllun. Sem formaður allshn. fylgdist ég með málinu þar, en við meðferð málsins í Ed. komu fram allmargar umsóknir til viðbótar frá því sem var í upphaflega frv. Þær hafa allar fengið þar afgreiðslu og hefur verið farið eftir þeim reglum sem gilt hafa um veitingu ríkisborgararéttar nú um allmörg ár.

Við umræðu málsins í hv. Ed. kom fram sú hugmynd að tímabært væri að endurskoða þær starfsreglur sem farið hefur verið eftir og hefur hæstv. dómsmrh. tekið undir að slík endurskoðun væri æskileg og ég hef skilið hann svo að hann muni beita sér fyrir slíkri endurskoðun nú í sumar.

Allshn. þessarar deildar mælir einróma með að frv. verði samþykkt eins og það er komið frá hv. Ed.