12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 917 í B-deild Alþingistíðinda. (575)

74. mál, útsendingar rásar tvö

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Vegna þessarar fsp. hefur verið leitað til Ríkisútvarpsins og aflað upplýsinga og mun svarið byggjast á þeim upplýsingum, en jafnframt vil ég taka fram að þetta mál var einnig að nokkru leyti til umræðu vegna þáltill. frá nokkrum framsóknarmönnum og við þær umræður lét ég í té nokkrar upplýsingar um mál þessu skylt.

Nákvæmar mælingar á FM-dreifingu rásar 1 og rásar 2 liggja ekki fyrir. Í dreifikerfi rásar 1 eru 65 sendar en 44 í dreifikerfi rásar 2. Áætlað er að með 25 sendum til viðbótar í dreifikerfi rásar 2 náist til allra landsmanna. Hér er um að ræða bætta dreifingu til þeirra sem hafa slæma eða enga móttöku fyrir.

Talið er að allt að 2000 hlustendur rásar 2 búi við þessi bágu móttökuskilyrði en fái góða úrlausn með framangreindri þéttingu dreifikerfisins. Eyður í dreifikerfi rásar 2 eru að einhverju leyti í öllum landsfjórðungum en þó mestar á Norðurlandi þar sem dreifing er einna erfiðust.

Ríkisútvarpið stefnir að því að koma útsendingum sínum til allra landsmanna. Fjárfesting Framkvæmdasjóðs fer þó eftir ákveðinni forgangsröð. Önnur verkefni sjóðsins eru fullnaðarfrágangur útvarpshússins og endurnýjun tveggja langbylgjustöðva sem ljúka þarf á allra næstu árum.