09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7735 í B-deild Alþingistíðinda. (5824)

467. mál, vegáætlun 1987--1990

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Hér er einvörðungu um að ræða hina reglubundnu framreiknun upphæða að því er varðar fjármagn til vegaframkvæmda. Hér er ekki um að ræða hina venjulegu endurskoðun sem á sér stað. Ég vil aðeins minna á að á sl. vori, þegar hin reglulega endurskoðun átti sér stað, var ég þeirrar skoðunar að þá ættu menn í ljósi þess að kosningar væru fyrir dyrum að gera áætlun til eins árs og að loknum kosningum, með hliðsjón af nýrri stjórnarmyndun, ætti að taka þessi mál til gagngerðrar endurskoðunar og setja í það meira fjármagn en verið hefur undangengin ár og a.m.k. að staðið yrði við þá langtímaáætlun sem gerð var á sínum tíma og verulega hefur hrakað í þessum efnum. Þetta var ekki gert. Menn höfðu hinn gamla hátt á og gerðu þetta með hinum hefðbundna hætti.

Ég skal ekki fara frekar út í það. Að vori hlýtur að koma til þess að menn geri þetta dæmi betur upp en nú er verið að gera. Á því er enginn vafi. Það er greinilegt af þeim upplýsingum sem komið hafa fram að langtímaáætlunin hefur verulega raskast, miklu meira en menn höfðu gert sér grein fyrir að gæti orðið á ekki lengri tíma en er liðinn síðan þetta var gert. Við slíkt verður ekki búið til lengdar. Það ætti öllum hv. þm. að vera það ljóst að samgöngurnar úti á landsbyggðinni eru sá grunnur sem við byggjum á ef það á að halda uppi byggð í landinu. Einhver arðbærasta fjárfestingin sem í verður lagt eru vegaframkvæmdir.

Ég hygg að hv. þm. Júlíus Sólnes hafi farið eitthvað um Vestfjarðakjördæmi fyrir kosningar á sl. vori og ætti því að þekkja þá þörf sem þar er fyrir auknar framkvæmdir og meiri að því er varðar vegagerð á því svæði. Trúlega er svo víðar þó ég sé þeirrar skoðunar að á Vestfjörðum sé nánast versta ástandið að því er varðar samgöngur innan héraðs og við heildarsvæðið af öllum kjördæmunum.

En ég ætla ekki að fara út í það hér. Mér sýnist að þær umræður ættu miklu frekar heima að vori þegar hin reglulega endurskoðun á sér stað en vera að teygja hér lopann. En við hljótum, eða þeir sem þá verða til staðar hér á Alþingi, því það er ekkert sjálfsagt að hér verði allir sem nú eru - eða hver gengur út frá slíku hér? (AG: Þeir sem hafa peningamálin.) Þeir sem hafa peningamálin, segir hv. þm. Albert Guðmundsson. Hann hugsar á sama hátt og áður. (HG: Er stjórnarliði að tala?) Það verður hv. þm. Hjörleifur Guttormsson að gera upp við sig, hver það er sem er að tala, sé honum það ekki ljóst. Ég er fyrst og fremst að tala um að hér er lýðræði. Það veit enginn af hv. þm. hversu lengi hann kann að sitja nema þá þeir sem telja sig sjálfsagða til þeirra hluta og kannski er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson einn af slíkum. (PJ: Ódauðlega?) Ódauðlega já. Rétt hjá hv. þm. Pálma Jónssyni. Ég er ekki einn af þeim. Hér geta orðið breytingar á einu ári. Eitt ár í pólitík er vissulega langt.

Það sem ég ætlaði nú fyrst og fremst að gera í ræðustól var að spyrja hæstv. samgrh. um hvort núna væri gert ráð fyrir fjármagni til undirbúnings fyrirhuguðum jarðgöngum t.d. á Vestfjörðum sem mikið hefur verið um rætt eða ætla menn enn einu sinni að slá slíkri ákvörðun á frest? Ég held að það sé mikils virði... (EgJ: Er þeim frestað?) Ja, ég sé ekki að hún hafi verið hafin. Kannski hv. þm. Egill Jónsson hafi einhverja vitneskju um að það sé byrjað. Mér er ekki um það kunnugt og var ég þó vestra nýlega. En ég held að það sé mikils virði fyrir það fólk sem þarna er um að ræða að hv. Alþingi taki afstöðu til þessa máls, það sé ljóst að þetta verði gert og ákvörðun verði tekin. (Gripið fram í.) Ég er að spyrja um ákvörðun og síðan í áframhaldi af því fjárveitingu til málsins. Ég geri ráð fyrir og hef gert lengi, gerði það meira að segja meðan hv. 5. þm. Reykv. var ráðherra, að með ákvörðunum Alþingis væri það hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta að sjá fyrir fjárveitingum til þeirra ákvarðana sem teknar voru og ég hygg að svo sé enn. Ég spyr því hæstv. samgrh. um hvort núna, að því er varðar þessa afgreiðslu, verði gert ráð fyrir ákvörðun um fjárveitingu til að hefja undirbúning að jarðgangagerð á Vestfjörðum. Það er í mínum huga og þess fólks sem þar býr svo mikils virði að ég hygg að þingmenn almennt geti ekki öllu lengur skotið sér undan því að taka slíka ákvörðun.

Auðvitað kostar það peninga, það er ljóst, og það kostar töluverða peninga, en tiltölulega litla miðað við það gagn sem það kann að gera og mun skila þjóðfélaginu í framhaldinu. Ég teldi nauðsynlegt, þó að hér sé ekki um reglulega endurskoðun vegáætlunar að ræða, að menn slægju því föstu að fjárveiting yrði sett í undirbúning að slíkum mannvirkjum þannig að fólk hafi trú á því að menn meini eitthvað sem verið er að tala um en ekki bara orðin. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Er meiningin að setja í þetta fjármagn til undirbúnings eða ætla menn enn einu sinni að slá slíku á frest?