09.05.1988
Efri deild: 96. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7797 í B-deild Alþingistíðinda. (5924)

293. mál, áfengislög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Vegna athugasemda hv. 8. þm. Reykv., sem var að ljúka máli sínu, vil ég aðeins benda á að það er rétt hjá hv. þm. að það eru heimildir í áfengislögunum til að gera margt, en það sem við flm. þessarar tillögu um breytingu við 5. gr. viljum er að Alþingi taki afstöðu til þess hvernig þessar heimildir eru notaðar. Það er kveðið afdráttarlaust á um í þessari brtt. að það skuli við setningu reglugerðarinnar tekið tillit til þeirra sjónarmiða að draga úr ofneyslu áfengis og stuðla að forvarnarstarfi, einkum fyrir ungt fólk. Þar er bæði um að ræða að slíkt afdráttarlaust ákvæði hlýtur að hafa áhrif á hina nýju reglugerð sem verður að setja einmitt við þennan kafla um sölu og dreifingu á áfengi. Það er engin tilviljun að við flytjum þessa brtt. einmitt við þennan kafla, a.m.k. ekki frá mínu sjónarmiði. Það er vegna þeirrar reynslu sem ég fékk af því að fjalla um þessi mál og einmitt IV. kafla áfengislaganna. Það var að finna hversu ríkt gróðasjónarmiðið var hjá mörgum að græða á því að selja sem allra mest áfengi og sinna í engu hvaða afleiðingar það hefði.

Ég gat um við fyrri umræðu málsins í deildinni reynsluna sem fékkst af bjórlíkinu og eitt dæmi sem ég nefndi þar var að þá spruttu upp allmargar veitingastofur sem höfðu það á boðstólum. Það var engin tilviljun að þessar veitingastofur sumar hverjar drógu að sér þá sem reyndu að græða á því að selja ólögleg vímuefni vegna þess að þeir vissu að það andrúmsloft sem þetta skapaði var besta gróðrarstían fyrir hin ólöglegu vímuefni. Nú þegar þessi breyting kemur á áfengislögunum er einmitt verið að reyna að vekja aftur upp það andrúmsloft sem kveðið var niður þegar bjórlíkið var bannað.

Við erum að heyra fréttir um það gífurlega magn sem framleiðendur hinna ólöglegu vímuefna eru að reyna að smygla inn á markað hingað til Evrópu og að sjálfsögðu verður aukinn þrýstingur á að koma því hingað til landsins. Það er kallað á aukið lögreglueftirlit til að koma í veg fyrir slíkt, en að sjálfsögðu er það eftirspurnin og verð hér innan lands sem ræður því hversu margir freistast til að reyna þá ólöglegu starfsemi. Besta ráðið til að draga úr því er að sjálfsögðu að reyna að draga úr eftirspurninni og koma í veg fyrir slíkt.

Þetta vildi ég sérstaklega taka fram vegna ummæla hv. 8. þm. Reykv. og ástæðunnar fyrir því að við flytjum brtt. Mér finnst alveg furðulegt að hér skuli standa upp þingmaður og segja: Það er óþarfi að það sé skylt að taka til þess sjónarmiðs tillit við setningu reglugerðarinnar að draga úr ofneyslu áfengis og styðja við forvarnarstarf, einkum fyrir ungt fólk. (JM: Það er í lögunum.) Það er heimildarákvæði, hv. þm. Hér er spurning um að kveða á um að það sé skylt í sambandi við útgáfu reglugerðar um sölu og dreifingu að taka það fram.