12.11.1987
Sameinað þing: 17. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 933 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

Birting heimildar um öryggismál Íslands

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög, en ég vil fullvissa hv. þm. um að þetta mál , mun ekki sofna í utanrrn., eins og orðað var svo áðan, fremur en önnur mál. Ég get hins vegar ekki tryggt að við fáum skjótan aðgang að ýmsum upplýsingum í Bandaríkjunum sem við viljum fá. Það fer eftir lögum og reglum og kerfinu þar, en þessu mun verða hraðað eins og frekast er kostur. Ég mun einnig ræða þetta mál í utanrmn. að sjálfsögðu.

Ég hygg að rétt sé, sem hér hefur komið fram, að aðgangur að skjölum í stjórnarráðinu er ekki góður, langt frá því. Hins vegar vil ég upplýsa út af orðum hv. fyrirspyrjanda um kröfu þá sem hann mun hafa gert hér í marsmánuði að ég lét hreinsa til í gamla stjórnarráðinu fyrir tveimur árum. Ég man ekki hvort það voru tveir eða þrír stórir sendiferðabílar sem var farið með upp í Þjóðskjalasafn af mörgum hinum athyglisverðustu skjölum sem lágu þar uppi á háalofti og höfðu gert sum allt frá aldamótum ef ekki lengur.

Því miður er Þjóðskjalasafnið hins vegar þannig í stakk búið nú að þar er ekki hægt að veita góðan aðgang að þessum skjölum. En mjög mikilvægt skref var tekið til að bæta úr þessu á síðasta kjörtímabili í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar Þjóðskjalasafninu var útvegað gott húsnæði að því mér er tjáð í þessu skyni. Þetta stendur því til bóta eftir því sem fjárveitingar Alþingis leyfa.

Ég vil einnig láta koma fram, af því að töluvert hefur verið minnst á Eystein Jónsson, að ég ræddi við Eystein Jónsson um þetta mál. Eysteinn Jónsson byggir ekki aðeins á góðu minni. Hann byggir á góðu skjalasafni sem ég hugsa að sé aðgengilegra en skjalasafn stjórnarráðsins að sumu leyti ef ekki öllu. Eysteinn Jónsson tjáði mér að skýrsla Bandaríkjamanna um ferð þeirra þremenninganna 1949 hafi verið birt 24. mars 1976. Hann segir mér að skýrsla íslensku nefndarinnar hafi verið birt skömmu síðar. Hann segist hafa hana, ef við finnum hana ekki. Að lokum vil ég segja að þessi umræða er ekki efni í skáldsögu, alls ekki, og má ekki vera efni í skáldsögu. Hún á að vera efni í einn kafla af sögu þessarar þjóðar.