10.05.1988
Neðri deild: 101. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7890 í B-deild Alþingistíðinda. (6027)

431. mál, virðisaukaskattur

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um virðisaukaskatt. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frv. hefur virðisaukaskattur verið tekinn upp í flestum löndum Vestur-Evrópu. Frakkar voru brautryðjendur á þessu sviði, en það var árið 1955 sem þeir tóku upp nýtt skattkerfi sem byggðist í höfuðdráttum á skatti af virðisauka. 18 árum seinna eða árið 1973 höfðu öll þau lönd er stóðu að stofnun Evrópubandalagsins tekið upp virðisaukaskattskerfi. Auk þess hafa mörg önnur lönd tekið upp þetta skattkerfi. Framkvæmd við skattheimtuna er þó mjög mismunandi í hinum ýmsu löndum og er skatthlutfallið breytilegt frá einu landi til annars og skattþrepin mismunandi mörg eða frá einu upp í sex. Nú eru uppi umræður um samræmingu löggjafar um virðisaukaskatt á Norðurlöndum. Þá er það athyglisvert að af öllum þeim þjóðum sem tekið hafa upp virðisaukaskattskerfi hefur engin þjóð snúið frá því kerfi og verður að telja það meðmæli með kerfinu.

Að mínu mati eru gallar núverandi söluskattskerfis augljósir, enda hefur rækilega verið á þá bent. Hins ber þó að gæta að framkvæmd þess kerfis hefur verið mjög ódýr og skattskyldir aðilar tiltölulega mjög fáir miðað við heildarinnheimtu. Hins vegar er greinilegt að söluskatturinn mismunar atvinnugreinum. T.d. er það eingöngu fiskiðnaður og annar samkeppnisiðnaður sem nýtur undanþágu frá söluskatti í dag og þá að mestu leyti á vélar og tæki. Í þessum greinum er líka um allverulega uppsöfnun skattsins að ræða sem endurgreiddur er samkvæmt reglum þar að lútandi.

Það er augljóst að með upptöku virðisaukaskattskerfis mun framleiðslu- og atvinnugreinum ekki verða mismunað og er þetta einn af kostum virðisaukaskattskerfisins. Þetta á því eftir að bæta samkeppnisstöðu allra atvinnugreina, hvort heldur um er að ræða innanlandsmarkað eða útflutningsgreinar. Hins vegar má spyrja sjálfan sig hvort núverandi söluskattskerfi hafi verið að fullu reynt, þ.e. hvort ekki leynast leiðir til að betrumbæta það. Um það vil ég þó ekki fjölyrða en tel að svo gæti hugsanlega verið. Þó ber að hafa það í huga að allar helstu viðskiptaþjóðir okkar búa við virðisaukaskattskerfi sem þýðir einfaldlega að við erum ekki samkeppnishæfir. Við keppum ekki á jafnréttisgrundvelli eins og málum er komið í dag. Ég álít að það geti skipt sköpum fyrir utanríkisviðskipti okkar, hvort heldur um er að ræða inn- eða útflutning, að komið verði á virðisaukaskattskerfi þar sem það er mjög stór liður í því að gera okkur samkeppnishæfa.

Í athugasemdum með frv. er sagt að í VASK sé innbyggt öryggi og að undandráttur ætti að minnka. Þarna eru settar fram fullyrðingar sem getur reynst erfitt að standa undir. Enda er það reynsla víðast hvar annars staðar að undanskotum fer síst fækkandi í virðisaukaskattskerfi.

Hvað varðar starfsmannafjölda gerir frv. ráð fyrir töluverðri fjölgun starfsmanna vegna kerfisins. Það kom berlega í ljós þegar Englendingar tóku upp virðisaukaskattskerfi að fjölgun starfsmanna vegna kerfisins var hreint ótrúleg og skipti þúsundum starfsmanna. Ég er smeykur um að hlutfallslega verði það sama uppi á teningnum hér ef fyllsta eftirlits á að gæta.

Það er mín skoðun að við eigum að hafa í virðisaukaskattskerfinu tvö skattþrep, þ.e. eitt þrep á matvöru og helstu nauðsynjavöru heimilanna. Það þrep gæti verið allt að 6%, síðan háþrep sem þó mætti ekki vera hærra en 22%. Ég tel það afar brýnt, og það er reyndar forsenda fyrir því að ég greiði frv. atkvæði mitt, að inn í það komi ákvæði um tvö skattþrep á þeim nótum sem ég var að gera grein fyrir. Það er alveg ljóst að verði ekki tekin ákvörðun um tvö skattþrep nú í upphafi verður það aldrei gert. Nægir að vísa til reynslu Dana í því efni sem nú hafa ekki ráð á því að innleiða lægra skattþrep.

Herra forseti. Ég hef nú farið örfáum almennum orðum um frv. en vendi kvæði mínu í kross og fer nánar í nokkrar greinar frv.

Um 2. gr. þarf svo sem ekki að hafa mörg orð. Ég vil þó gjarnan að hæstv. fjmrh. skilgreini fyrir þingheimi 12. lið greinarinnar, 2. gr., þar sem segir, með leyfi forseta: „Starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi.“ Þarna væri gaman og athyglisvert að fá skilgreininguna á því hvað sambærileg liststarfsemi er.

Í 12. gr. stendur að fjmrh. geti kveðið svo á að endurgreiða megi virðisaukaskatt af vörum sem erlendir ferðamenn kaupa hérlendis og hafa með sér er þeir hverfa úr landi enda séu uppfyllt þau skilyrði sem fjmrh. telur nauðsynleg. Þetta á alls ekki að vera heimildarákvæði. Þetta á að vera skylda, alla vega fyrir öll vörukaup frá einum og sama aðila sem kosta meira en einhverja ákveðna krónutölu. Það er öruggt að tekjur af innkaupum erlendra ferðamanna mundu stóraukast ef þessu yrði komið á. Verslunin í landinu hefur margsinnis farið fram á að slíkar reglur yrðu settar og henni hafa verið gefin fyrirheit um að slíkt yrði gert.

Þá vil ég gera athugasemdir við 9. lið 12. gr. þar sem undanskilja á sölu dagblaða og sambærilegra landsmála- og héraðsfréttablaða. Það er eðlilegra að mínu mati að undanþágur verði sem fæstar í lögum þessum og er hér stigið vafasamt spor sem gæti orðið fordæmi fyrir frekari undanþágum í framtíðinni. Þarna kysi ég frekar að styrkja þessi og viðlíka blöð með beinum hætti úr ríkissjóði.

Í 13. gr. hefur verið valin sú leið að nota svokallaða reikningsaðferð við uppgjör skattskyldrar veltu í stað svokallaðrar greiðsluaðferðar. Þetta felur í sér skilyrðislausa reglu um að VASK skuli greiða af öllum skrifuðum reikningum á tímabilinu óháð því hvort greiðsla hefur komið fyrir vöruna eða þjónustuna eða ekki. Hér tel ég vel athugandi að bjóða mætti upp á val á milli uppgjörsaðferða og væri fróðlegt að fá álit ráðherrans á því.

Við 14. gr. hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi brtt. með leyfi forseta:

„Greinin orðist svo:

Virðisaukaskattur skal lagður á með tveimur mismunandi skattþrepum og skulu þau ákveðin í fjárlögum ár hvert. Hið lægra virðisaukaskattsþrep, sem ekki má vera hærra en 6%, skal notað við álagningu á matvæli og aðrar helstu nauðsynjavörur heimilanna samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð. Allar aðrar vörur og þjónusta, svo og annað sem er virðisaukaskattsskylt samkvæmt lögum þessum, skal bera skatt samkvæmt hærra þrepinu sem ekki má vera hærri en 22%.“

Hér er gerð heiðarleg tilraun til þess að bjarga andliti ríkisstjórnarinnar með því að lina þær þjáningar sem matarskatturinn veldur. Þessar álögur hafa komið mjög þungt niður á þeim sem síst skyldi og þá alveg sérstaklega hinum almenna launþega, barnmörgum fjölskyldum, öldruðum og þeim sem minna mega sín. Því gæti samþykkt þessarar brtt. lengt lífdaga ríkisstjórnarinnar örlítið.

Við 20. gr. hef ég lagt fram brtt. sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Við 20. gr. Orðin „fyrir fram“ í 3. málsl. 1. mgr. falli brott.“

Hér er um að ræða að samkvæmt greininni, eins og hún er í frv., er gert ráð fyrir að reikningseyðublöð skuli vera fyrir fram tölusett í samfelldri töluröð. Á tímum tölvutækni er fráleitt að meina aðilum að notfæra sér þá möguleika á hagræðingu sem felst í notkun tölva.

Í 24. gr. er gert ráð fyrir að gjalddagi VASK verði fimmti dagur annars mánaðar eftir uppgjörstímabil og verði því gjalddagi færður fram um tíu daga og þannig færður fram yfir uppgjörsdaga greiðslukortafyrirtækjanna. Þessu ber að fagna sérstaklega því þetta er til mikilla hagsbóta fyrir uppgjörsaðila. Þá ber einnig að fagna ákvæði til bráðabirgða nr. IV þar sem gert er ráð fyrir að fjmrh. geti á sama hátt ákveðið eindaga söluskatts í núgildandi kerfi og skora ég á hæstv. fjmrh. að beita þessu heimildarákvæði ekki seinna en strax.

Inn í 27. gr. hefði verið gaman að fá heimildarákvæði þess eðlis að uppgjörsaðili gæti fengið að greiða fyrirframáætlaða upphæð VASK ef hann af gildum ástæðum getur ekki verið til staðar er uppgjör á að eiga sér stað. Hér gæti t.d. verið um að ræða ferðalög eða veikindi. Því kæmu slík heimildarákvæði sér vel undir slíkum kringumstæðum. Við gætum hugsað okkur aðila sem fer í 5–6 vikna ferðalag eða þarf að leggjast á sjúkrahús rétt fyrir mánaðamót sem skattauppgjör miðast við. Hann getur ekki endanlega gert upp þessa tvo mánuði og er ekki kominn til baka þegar komið er að eindaga skattsins. Því væri þægilegt fyrir þennan aðila að hafa heimild til að greiða inn áætlaðan VASK sem síðan yrði að gera upp að fullu við næsta uppgjörstímabil, hvort sem um inneign eða skuld væri að ræða.

Í 34. gr. er sagt að fjmrh. geti ákveðið að ákvæði 109. gr. tollalaga, nr. 55/1987, um greiðslufrest aðflutningsgjalda af innfluttum vörum, skuli gilda með sama hætti um greiðslu virðisaukaskatts við innflutning. Hér er enn eitt óþolandi heimildarákvæðið á ferðinni. Hér ætti þetta að vera skylduákvæði, þ.e. að fyrirtæki geti valið hvort þau nýta sér heimild um greiðslufrest eða ekki. Eina skilyrðið ætti að vera að viðkomandi fyrirtæki setti tryggingar, t.d. bankaábyrgð, fyrir upphæðunum. Í grg. um 109. gr. með frv. til tollalaga, nr. 55/1987, er einnig við það miðað að þeim innflytjendum verði fyrst veitt heimild til innflutnings með greiðslufresti sem fluttu inn vöru fyrir 124 millj. eða meira á árinu 1985. Ef sú eða svipuð tala á að gilda fyrir heimild á greiðslufresti á virðisaukaskatti er bersýnilegt að hér á aðeins að leyfa stærstu aðilum eins og SÍS, Byko, Hagkaup og fleirum að notfæra sér þessa greiðslufresti.

Í sambandi við þetta atriði, svo og 37. gr. sem kveður á um að virðisaukaskattur af innflutningi skuli innheimtur með aðflutningsgjöldum, mætti svo sem einnig velta því fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að innheimta virðisaukaskattinn í tolli, hvort ekki sé nægjanlegt að taka virðisaukaskattinn á fyrsta stigi þar á eftir, hvort sem það nefnist iðnfyrirtæki, heildsala eða smásala sem flytur vöruna inn. Með því mætti minnka líkur á því að vaxtakostnaður innflytjenda vegna fjárbindinga í virðisaukaskattinum fari út í verðlagið og hækki verðlag til neytenda.

Herra forseti. Mig langar að fara yfir nokkrar af þeim umsögnum sem hv. fjh.- og viðskn. bárust, en þar er ég áheyrnarfulltrúi. Það má kannski segja að langflestir sem þar komu til viðtals hafi lýst sig fylgjandi frv. að því tilskildu að tillit væri tekið til þeirra óska. Með leyfi forseta les ég bréf er Samband ísl. hitaveitna sendi hv. fjh.- og viðskn. Ed., en það er eftirfarandi:

„Vegna frv. til laga um virðisaukaskatt óskar Stjórn Sambands ísl. hitaveitna eftir að koma eftirfarandi atriðum á framfæri:

1. Samkvæmt frv. leggst 22% skattur á alla húshitun en hún hefur verið skattfrjáls. Í sjálfu frv. er ekki gert ráð fyrir neinum frávikum eða aðgerðum vegna skattsins. Skatturinn mun mismuna fólki mjög verulega verði ekki að gert vegna þess hve mikill munur er á húshitunarkostnaði í landinu. Ekki er fjarri lagi að áætla að skatturinn geti orðið á bilinu 4–12 þús. kr. á fjölskyldu á ári allt eftir búsetu. Hér er miðað við fremur lítið íbúðarhús. Ef það er vilji löggjafans að áhrifum þessarar skattheimtu verði eytt verður að telja eðlilegt að það komi fram í lögunum sjálfum og þá einnig með hvaða hætti það skuli gert.

2. Í skýringum með frv. kemur fram að ætlunin sé að eyða áhrifum skattsins á húshitunarkostnað. Þar er ýmist talað um að skatturinn verði endurgreiddur eða niðurgreiddur. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Endurgreiðsla getur sem best farið fram við skil á skattinum og krefst því ekki fjármagnstilfærslna með tilheyrandi vaxtakostnaði. Niðurgreiðslur þurfa að fara yfir fjárlög á hverju ári og verða því vafalítið erfiðar í framkvæmd. Niðurgreiðslur hafa líka tilhneigingu til að rýrna með tímanum. Inn í frv. þurfa að koma reglur um hvernig endurgreiðsla á skattinum fari fram. Samkvæmt skýringum með frv. er hér um að ræða nærri 1 milljarð kr.

Það þurfa að liggja fyrir greinargóðar reglur um það hvernig skuli fara með þessa miklu peninga.

3. Þær endanlegu niðurgreiðslur sem rætt er um í skýringum eiga að ná til húshitunar án þess að það sé nánar skýrt. Skv. því sem komið hefur fram annars staðar mun hér eingöngu vera átt við íbúðarhúsnæði. Nú er það svo með hitaveitur að gjaldskrár eru mjög einfaldar og taxtar fáir. Það er því algengt að ólíkir aðilar kaupi vatn með sama mæli og skipti síðan kostnaði innbyrðis, enda hitakerfið oft sameiginlegt. Búast má við að fram komi mörg álitamál af þessum sökum.

4. Hverjir þurfa að borga virðisaukaskatt af hitaorku? Áhrifunum vegna íbúðarhúsnæðis á að eyða, sbr. skýringar. Atvinnulífið ber ekki skattinn því hann fer þar inn og út. Þeir sem eftir sitja eru undanþáguaðilar sem taldir eru upp í 2. gr. frv. Sveitarfélögin í landinu virðast lenda verst í skattinum. Sveitarfélögin eru yfirleitt stærstu einföldu orkukaupendur hitaveitnanna. Hitaveita Reykjavíkur telur að opinberir aðilar séu með 10–15% af heildarsölu veitunnar. Það samsvarar 40–60 millj. kr. í virðisaukaskatt á ári.

Hjá Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar er áætlað að Akranes muni þurfa að borga um 2 millj. á ári og Borgarnes um 700–800 þús. kr. Þetta er nýr skattur á sveitarfélögin. Með virðisaukaskatti á sölu hitaveitna leggst skattur á vöru sem hefur verið undanþegin skatti. Það skiptir miklu hvernig til tekst. Stjórn Sambands ísl. hitaveitna leggur á það mikla áherslu að við samþykkt laganna liggi fyrir hvernig með þessi mál skuli farið. Stjórn SÍH óskar eftir að fá að vera með í ráðum við mótun þeirra reglna sem setja þarf og fá að fylgjast með framvindu málsins.“

Hér er hæpið að tala um innlegg í baráttuna fyrir jöfnun orkukostnaðar í landinu. Lausn þessa máls, eins og nánast allra þeirra vafamála er upp hafa komið, er vísað til milliþinganefndar sem fjalla á um ein 18 ágreiningsefni.

Þá vil ég fá að lesa bréf frá Meistara- og verktakasambandi byggingarmanna, en það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Ljóst er að virðisaukaskattur verður verulega íþyngjandi fyrir byggingariðnaðinn, ekki hvað síst vegna þeirrar auknu vinnu sem leggst á þá mörgu aðila sem starfa við þennan iðnað. Þrátt fyrir það gerum við okkur ljóst að virðisaukaskattur verði lagður á og því er nauðsynlegt að allar reglur sem settar verða vegna byggingariðnaðar verði sem skýrastar og einfaldastar. Í þeim þarf t.d. að koma fram hvernig fara skuli með vinnu vegna nýbyggingar, viðhalds, húsa, eigin vinnu húseigenda o.fl. Sérstaklega þarf að hafa í huga að þær reglur, sem settar verða, auki ekki á svarta atvinnustarfsemi.

Við nefnum hér á eftir nokkur dæmi sem vert væri að skoða nánar:

1. Leggja niður sem allra mest af beinum sköttum sem nú gilda, svo sem launaskatt, vörugjald og aðra skatta og gjöld sem á byggingariðnaði hvíla.

2. Ef til endurgreiðslu kemur yrði hún einungis gerð á móti framlögðum reikningum með álögðum virðisaukaskatti. Gerð yrði sú krafa að þessir reikningar yrðu dagsettir og númeraðir eins og eðlileg reikningsskil gerðu ráð fyrir. Hugsanlegt væri að setja eitthvert hámark krónutölu pr. fermetra upp að ákveðnu stærðarmarki byggingar.“

Við lestur athugasemda með frv. kemur ýmislegt í ljós. Nú fer maður t.d. að skilja af hverju það var svona erfitt að fá stjórnarsinna til að falla frá álagningu vörugjaldsins á ýmsa vöruflokka um sl. áramót. Nú er nefnilega talað um að ein leiðin sem til álita komi til að vega upp á móti hækkun byggingarkostnaðar íbúðarhúsnæðis sé að fella niður 171/2%- vörugjaldið af ýmsum byggingarvörum, eins og t.d. steypustyrktarjárni og raflagnaefni. Nú er orðið augljóst hvers vegna það var svo erfitt að fá stjórnarflokkana til að falla frá vörugjaldinu um sl. áramót. Það átti frá upphafi að nota það til þess að koma virðisaukaskattinum í gegn. Ég mundi svo sem fagna því ef vörugjaldið yrði fellt niður af þessum vörum, en það þyrfti þá um leið að athuga hvort ekki væri rétt að fella niður um leið vörugjald af fleiri vörutegundum. Það eru enn nokkrir vöruflokkar fyrir utan iðnaðarvörur, eins og gosdrykkir og sælgæti, sem bera þetta vörugjald. Það mætti alveg eins nota tækifærið og fella niður vörugjaldið af hreinlætistækjum og stærri heimilistækjum og ýmsum öðrum tækjum sem heimilin í landinu nota.

Á fund fjh.- og viðskn. komu einnig fulltrúar Landssambands veiðifélaga og lýstu þeir áhyggjum sínum vegna fyrirhugaðrar skattlagningar á hlunnindi þau sem veiðiréttur er. Bentu þeir m.a. á að slík hlunnindi væru undanþegin slíkri skattlagningu í Finnlandi og Noregi. Töldu þeir að þetta mundi veikja eða jafnvel eyða byggð mjög víða þar sem veiðihlunnindi ráða úrslitum um búsetu á mörgum jörðum. Hér er um mjög brýnt hagsmuna- og byggðamál að ræða og því hvet ég þá milliþinganefnd, er mun yfirfara frv., til að gefa þessu máli gaum.

Í sama streng tóku fulltrúar frá Stéttarsambandi bænda. Það var einnig skoðun þeirra að í kerfinu skyldu vera tvö skattþrep. Það var reyndar skoðun allra fulltrúa launþegasamtaka sem á fund nefndarinnar komu. Er því mjög nauðsynlegt að þetta atriði nái athygli milliþinganefndarmanna.

Fjölmargar aðrar umsagnir fengust, eins og t.d. hjá Landssambandi iðnaðarmanna, Samtökum útgefenda tímarita, Félagi ísl. iðnrekenda o.fl. o.fl., og ætla ég ekki að eyða tíma þingsins í að fara nánar út í það.

Herra forseti. Ég verð að segja eins og er að þau vinnubrögð sem höfð eru í frammi við framlagningu þessa frv. eru fyrir neðan allar hellur og þinginu til háborinnar skammar. Hér er um það stórt mál og mikilvægt að ræða að það hlýtur að vera heimting þingsins og reyndar þjóðarinnar allrar að til verksins sé ekki kastað höndum eins og hér virðist gert.

Á síðustu dögum þingsins á að keyra frv. í gegn. Hér er kastað á borð okkar óútfylltum víxli og okkur sagt að skrifa upp á. Stjórnarliðar munu síðan í rólegheitum reyna að fylla víxilinn út í sumar. Svona vinnubrögð eru ámælisverð. Skipa á nefnd til að fylla víxilinn út; nefnd sem stjórnarandstæðingar eiga ekki ekki aðild að. Ég fæ ekki séð að nokkur ástæða sé til að samþykkja frv. í þeirri mynd sem það liggur fyrir og hvet því til þess að það verði dregið til baka og milliþinganefndin fullvinni frv. skv. þeim ábendingum sem þegar hafa komið fram og leggi það síðan fyrir þingið á fyrstu dögum þess næsta haust.

Í megindráttum er ég fylgjandi virðisaukaskattskerfi en get þó ekki greitt frv. atkvæði mitt nema inn í það verði tekin tvö skattþrep, eins og brtt. okkar borgaraflokksmanna gerir ráð fyrir. Ég vil gjarnan minna þingheim á gagnrýni hæstv. fjmrh. á virðisaukaskattsfrv. sem rætt var í Nd. þann 10. des. 1986, en þar sagði hann, með leyfi forseta, um tillögu þess efnis að leggja á 24% virðisaukaskatt: „Við erum ekki til viðræðu um að taka upp virðisaukaskatt sem er svona hrikalega hár.“ En aðeins seinna í ræðunni, með leyfi forseta, sagði hann: „Jafnframt er það mjög gagnrýnisvert að ekki skuli fylgja nánari úttekt, á tölulegum grundvelli, um hvaða áhrif upptaka virðisaukaskattsins hefði á þær atvinnugreinar sem hafa verið undanþegnar söluskatti. Þau áhrif geta komið fram í mjög mismunandi mæli og það er auðvitað alveg óhjákvæmilegt að skoða það, atvinnugrein fyrir atvinnugrein.“

Nú spyr ég hæstv. fjmrh.: Þar sem 24% þóttu hrikalega hátt hlutfall fyrir rúmu ári síðan og að hans mati hvatti til skattsvika, hver er þá túlkun hans á 22% í dag? Hvað metur hann þennan 2% mun mikils og í öðru lagi, hvers vegna fylgja ekki frv. þær athuganir sem hann taldi nauðsynlegt að gerðar yrðu á hinum ýmsu atvinnugreinum?

Hæstv. forseti. Ég tel að virðisaukaskattskerfið hafi ótvíræða kosti fram yfir núgildandi söluskattskerfi, þó að kerfið hafi einnig sína ókosti. En þegar á heildina er litið eru þeir færri og kostirnir allverulega fleiri. Af fyrrgreindum ástæðum get ég ekki samþykkt frv. óbreytt.