15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

24. mál, ráðstafanir í ferðamálum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir með hv. flm. þessarar till. sem mér sýnist vera þörf í öllum greinum. Það á ekki síst við um stuðning við uppbyggingu ferðamannaþjónustu um land allt með því að setja á fót starf ferðamálafulltrúa í landshlutunum. Það gildir einnig um 2. tölul., um að varið verði til ferðamannaþjónustu og styrkingar á þessari atvinnugrein þeim 10% sem gert er ráð fyrir í tekjum af vörusölu Fríhafnar í Keflavík, en eins og við vitum hefur þar verið um skerðingu að ræða frá því að lög voru sett um þetta efni að ég hygg og það mjög grófa.

Varðandi 3. tölul. heyrði ég ekki að flm. viki sérstaklega að því hvernig að því máli ætti að standa, endurskoðun laga um skipulag ferðamála og mér er ekki kunnugt um hvort slík formleg endurskoðun er í gangi, en ég tel sannarlega þörf á því að taka skipulag ferðamálanna og stefnu í ferðamálum í víðu samhengi til umræðu og meðferðar hér á hv. Alþingi, þar á meðal þá þætti sem hér er að vikið.

Við stöndum frammi fyrir því að hér er ekki nein skilmerkileg stefna ríkjandi um þessi efni. Ferðamannaþjónustan þróast án slíkrar stefnumótunar og eins og horfir virðist sem sú þróun geti leitt til þess að ferðamannaþjónustan og tekjur af henni einskorðist að verulegu leyti við suðvesturhorn landsins, m.a. með þeirri öru uppbyggingu á gistiaðstöðu o.fl. sem þar að lýtur. Því er það mjög brýnt að Alþingi marki afstöðu til þess með hvaða hætti það telur æskilegt að þessi atvinnuvegur þróist og hvaða fjármagni beri að veita af opinberri hálfu til uppbyggingar ferðamannaþjónustu. Eins og stendur er þetta allt á horriminni hvað snertir fjárveitingar til uppbyggingar á ferðamannastöðum vítt um land. Ferðamálaráð ver sínu mjög takmarkaða fjármagni fyrst og fremst til landkynningarstarfsemi sem svo er kölluð, sölu og auglýsingu á landinu sem auðlind, en hefur ekki veitt neinu fjármagni upp á síðkastið til uppbyggingar á ferðamannastöðum til að taka við því fólki sem reynt er að laða til landsins. En auðvitað er spurningin um uppbyggingu ferðamannaþjónustu engu síður mál sem varðar ferðalög Íslendinga um sitt eigið land og þetta þarf sannarlega að haldast í hendur.

Hið sama er uppi á teningnum hvað snertir Náttúruverndarráð sem lögum samkvæmt er ætlaður ákveðinn hlutur að þessum málum. Það hefur á yfirstandandi ári innan við 1 millj. kr. til þess að verja til aðhlynningar á ferðamannastöðum, enda ástandið eftir því á mörgum af fjölsóttustu og vinsælustu ferðamannastöðum okkar, að þar stefnir í hreint óefni.

Ég ítreka, herra forseti, að ég tek undir með flm. að ég tel þörf á að taka stefnuna í ferðamálum upp í enn víðara samhengi en hér er gert af hálfu þingsins á þessu yfirstandandi þingi og mun beita mér fyrir því að svo geti orðið.