11.05.1988
Sameinað þing: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7965 í B-deild Alþingistíðinda. (6163)

132. mál, verndun ósonlagsins

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið lýsti ég samþykki við þessa afreiðslu af hálfu nefndarinnar á þeirri till. sem hér var flutt á fyrri hluta þings um verndun ósonlagsins, en 1. flm. var Álfheiður Ingadóttir. Átti ég raunar einnig hlut að þessari till. Frsm. nefndarinnar og formaður, hv. þm. Salome Þorkelsdóttir, hefur greint hér frá ástæðum þess að till. er vísað til ríkisstjórnarinnar með þeirri umsögn sem nefndin stóð að, jákvæðri umsögn, þar sem nefndin tekur undir þau markmið sem fram koma í till. og nefnt er að stofnanir eins og Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð og Geislavarnir ríkisins hafa lýst eindregnum stuðningi við till. Mæltu þessar stofnanir með samþykkt hennar.

Það kom fram í máli hv. frsm. að ríkisstjórnin hefði 28. apríl sl. tekið á þessu máli og þann 3. maí hefði hæstv. iðnrh. skrifað bréf með þeirri samþykkt frá 28. apríl til fjögurra ráðuneyta og óskað eftir tilnefningu fulltrúa í nefnd. Þetta bréf fór til ráðuneytanna 3. maí sl. Það er því greinilegt að flutningur þessarar till. hefur orðið til þess að ýta við stjórnvöldum í þýðingarmiklu máli. En auðvitað er það athyglisvert að til aðgerða af hálfu stjórnvalda er gripið um það leyti sem félmn. er að ljúka störfum og Alþingi er að ljúka störfum og um sama leyti og till. er þar til meðferðar sem hér er rædd. Hefði auðvitað verið eðlilegt að Alþingi hefði tekið beina afstöðu til till. En ég ætla engan veginn að lasta þá afgreiðslu sem hér liggur fyrir tillaga um og vænti að hún hljóti stuðning, enda vísað til þeirra markmiða í áliti nefndarinnar sem fram komu í tillgr.

Ég vil vekja sérstaka athygli á þýðingu þessa máls. Það upplýstist á liðnum vetri að 100 vísindamenn á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna og fleiri aðila hafa staðið að víðtækum rannsóknum á eyðingu ósonlagsins og niðurstöður þessara rannsókna hafa verið birtar í virtum vísindaritum. Þessar athuganir leiða í ljós að ósonlagið í háloftunum hefur rýrnað um 3–6% yfir stórum svæðum jarðar undanfarin 20 ár. Eins og menn ættu nú orðið að vita er óson hlíf gegn útfjólublárri geislun utan úr geimnum og það er talið að tíðni húðkrabbameins vaxi um 5–7% fyrir hvert prósentustig sem ósonið minnkar. Hér á norðurslóð hefur minnkun ósonlagsins raunar orðið yfir 6% yfir vetrarmánuðina og samkvæmt áliti vísindamanna gæti þetta þá þýtt að aukning á húðkrabbameini yfir nokkurt tímabil gæti vaxið af þessum sökum um þriðjung eða nærri því.

Auðvitað blasir við annað og miklu alvarlegra heilsutjón og eyðing lífs ef ekki tekst að stöðva þessa háskalegu þróun. Því er hér um gífurlega þýðingarmikið mál að ræða og mikilsvert og reyndar úrslitaatriði að alþjóðleg samstaða takist um aðgerðir. Ísland þarf að taka sig verulega á í þessum efnum því við höfum lítið aðhafst í þessu máli enn sem komið er.

En það ber að fagna því að hreyfing er komin á það og með samþykkt þessarar till. eða afgreiðslu hennar hér á Alþingi fær framkvæmdarvaldið ákveðin skilaboð frá Alþingi um þau markmið sem stefna beri að í þessum efnum.