17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Mér skilst að hæstv. fjmrh. hafi óskað eftir leiðsögn af minni hálfu um hvernig ætti að reyna að ná sparnaði í hinum stóru málaflokkum ríkisútgjaldanna, það er að segja heilbrigðiskerfinu, menntamálakerfinu með meira. Nú veit ég ekki hvort tími vinnst til þess að skýra út fyrir honum með hvaða hætti væri hugsanlegt að ná slíkum sparnaði. Það eru ekki nema 5 mín. eftir af þeim fundartíma sem okkur var ætlaður. En það sem vakir fyrir mér er fyrst og fremst að hæstv. fjmrh. taki nú í gegn þessa stóru málaflokka. Ég geri þó ráð fyrir að honum hafi ekki unnist tími til að vinna það verk á þessu hausti, en ég ætla honum að halda því verki áfram á næstu árum ef hann situr svo lengi í þessu embætti.

Ég mundi vilja gefa honum það veganesti að rannsaka nánar þá miðstýringu sem er komin á í þessum höfuðmálaflokkum ríkisútgjalda. Öllu er stýrt héðan úr Reykjavík og útgjöldin eru nánast orðin sjálfvirk. Þau vaxa og vaxa eins og þetta sé orðið óstöðvandi krabbamein. Það er nánast alveg sjálfvirkt að þessar stofnanir, sem sækja allt sitt til miðstýringarvaldsins í Reykjavík, reyni að eyða og eyða öllum þeim peningum sem þær geta náð sér í. Ég held að ein leið til að reyna að draga úr útgjöldum vegna þessara stóru málaflokka væri að reyna að gera allar þessar stofnanir sjálfstæðari, draga úr miðstýringunni. Hér erum við komin að meginkjarna hins íslenska stjórnkerfis. Spurningin er einfaldlega sú: Væri ekki hægt að ná miklum sparnaði með því að fela landshlutunum að fara með þessi mál þannig að yfirstjórn landshlutanna tæki að sér að reka þessi dýru kerfi? Hún fengi einfaldlega sinn hluta af því fé sem er ætlað til viðkomandi málaflokks og myndi síðan ráðstafa því fé eins og henni þætti eðlilegast? Ég er ekki í nokkrum vafa um að það væri hægt að ná verulegum sparnaði með þessu móti.

Ég átti viðræður fyrir nokkru við einn ágætis fyrrverandi embættismann ríkisins, fyrrverandi fræðslustjóra á Norðurlandi eystra, sem var mjög í fréttum á síðasta ári. Hann fræddi mig á því að grunnskólahaldið í Norðurlandskjördæmi eystra hefði kostað um 300 millj. kr. á árinu 1986. Hann sagði: Hefðum við og fræðsluráðið fengið að ráðstafa þessu fé á þann veg sem við hefðum talið heppilegast hefði ég treyst mér til að reka grunnskólakerfið í Norðurlandskjördæmi eystra fyrir 270 millj. kr. og fá út úr því miklu betri þjónustu og miklu betra skólahald en raunin varð á. Ég hefði þannig getað skilað ríkisvaldinu 30 millj. til baka.

Ég held að þetta sé kjarni málsins og ég gef hæstv. fjmrh. þessa hugmynd eftir til frekari úrvinnslu og vona að honum takist vel til.