24.11.1987
Efri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

131. mál, hlutafélög

Guðmundur Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að taka undir orð hæstv. viðskrh. að lögin nr. 32/1978, um hlutafélög, þarfnist breytinga. Hins vegar er það mikil spurning hvort þær breytingar sem fram koma í frv. séu þær breytingar sem mest eru aðkallandi í dag.

Frv. sem samið var 1976–1978 tók mest mið af dönsku lögunum, en þar eru í gildi tvenns konar lög, annars vegar um stór hlutafélög og hins vegar um lítil hlutafélög, og því miður tóku íslensku höfundarnir meira mark á lögunum um stóru hlutafélögin en þau litlu og nánast þýddu þau beint. Þetta hefur skapað mikinn vanda þar sem hlutafélög hér á landi eru að meginstofni til lítil og lögin um hlutafélög eiga ekki nema að takmörkuðu leyti við. Mætti þar nefna ýmis ákvæði.

Í mínum huga, en ég hef starfað við stofnun hlutafélaga og haft með þessi mál að gera, er þrennt sem ég hefði viljað leggja aðaláhersluna á. Það er stofnunin í upphafi, að ekki eigi að vera hægt að stofna svokölluð gervifélög, félög þar sem einn einstaklingur fær til liðs við sig fjóra aðila til að stofna pappírsfyrirtæki.

Í öðru lagi hefur mér fundist að áríðandi væri að athuga mjög vandlega tilkynningarskyldu og koma á betri tilkynningarskyldu en nú er frá félögunum til hlutafélagaskrár og öfugt þannig að vel sé fylgst með þessum félögum, að þau starfi eftir lögum og reglum.

Í þriðja lagi hefði ég kosið að ábyrgð stjórnarmanna í hlutafélögum yrði aukin, bæði skaðabótaábyrgð og refsiábyrgð því allt of oft hefur það komið upp að menn skýla sér á bak við hlutafélagalögin og formið hlutafélag þegar eitthvað kemur upp á. Ég þekki a.m.k. mörg dæmi þess að hlutafélög eru stofnuð um ákveðinn rekstur. Síðan safnar þetta hlutafélag upp söluskatti. Svo þegar á að innheimta söluskattinn er fyrirtækið gert gjaldþrota og nýtt fyrirtæki er stofnað á grundvelli þess gamla og nýr söluskattur fellur á og enginn söluskattur er borgaður í kannski eitt til tvö ár. Þetta er hættan.

Ég tel það ekki til bóta að fækka hluthöfum. Samkvæmt núgildandi lögum eru það fimm aðilar sem þarf til að stofna hlutafélag, en samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að þeir séu tveir. Ég held að þetta sé ekki til bóta þó að í nágrannalöndunum hafi þetta orðið ofan á. Miðað við það sem ég sagði áðan er hættan þessi gervifélög og sú takmarkaða ábyrgð sem menn hafa með því að stofna félög. Þá er það bara ákveðið hlutafé sem þeir bera ábyrgð á.

Í annan stað væri ég fylgjandi því að hækkuð yrði krafan um stofnfé þannig að það yrði jafnvel 1 millj. kr. Við þurfum að líta til þess, Íslendingar, að þetta er lítið samfélag og öðruvísi þarfir en úti í hinum stóra heimi. Þótt ekki sé litið lengra en til Danmerkur eru hlutafélög, ábyrgðir og annað allt öðruvísi en hér á landi. Hér á landi eru því miður stofnuð hlutafélög, jafnvel um rekstur eins manns, sem æskilegra væri að væru í formi einkafyrirtækis, en vegna þeirra takmarkana á ábyrgð sem hlutafélagsformið hefur finnst mönnum öruggara að stofna hlutafélög og fá þá yfirleitt konuna, börnin og einhverja frændur til að vera með sér í hlutafélögunum.

Ég vil því aðallega að þetta þrennt komist hér að. Ég fer ekki ofan í einstaka liði eða einstakar greinar þessa frv. Mér sýnist það vera að einhverju leyti til bóta. En ég held að þessi þrjú atriði séu mest aðkallandi í dag.