24.11.1987
Efri deild: 12. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

131. mál, hlutafélög

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Það þarf ekki að vera nema örstutt athugasemd til leiðréttingar. Það er mesti misskilningur að lögin frá 1978 séu þýðing úr skandinavískum rétti. Það er alveg reginmisskilningur. Ég verð þá líklega að segja frá því að ég kynnti mér svolítið bandarískan rétt í þriggja mánaða fríi sem við blaðamenn höfðum þá og höfum víst enn á fimm ára fresti. Þegar ég hafði verið fimm ár ritstjóri árið 1965 var ég einmitt í bókasafni Alþjóðabankans og Alþjóðafjármögnunarstofnunarinnar, International Finanee Corporation, þar sem ég hafði mjög góðan og greiðan aðgang bæði að munnlegum upplýsingum og eins á þessu safni og kynnti mér það. Þó tíminn væri stuttur nýttist hann sæmilega til að kynna sér svolítið þennan bandaríska rétt. Ég fór síðan einmitt til Kaupmannahafnar þegar önnur fimm ár voru liðin, 1971. Það hafði ósköp lítið gerst í skandinavískum rétti og hann var mjög þröngur. Hitt er svo annað mál að lögin frá 1921, sem hv. þm. hefur kannski átt við, voru nánast þýðing á dönskum lögum. En þessi lög okkar eru með allt öðrum hætti en löggjöf í Skandinavíu var á þeim tíma, hvort sem þeir hafa svo eitthvað nálgast þýskan og bandarískan hlutafélagarétt meira nú í seinni tíð. Það hygg ég að sé en ekki hitt að við höfum apað eftir þeim. Þar er staðreyndunum snúið gersamlega við.

En það er ekki meginmálið heldur hitt að við þurfum að finna hinn gullna meðalveg. Ég er eiginlega sammála þeim athugasemdum sem hv. þm. gerði við frv. sem nú er lagt fram. Það orkar allt tvímælis sem þarna er fram lagt. En einmitt þetta er í mjög örum breytingum í nágrannalöndunum, m.a. vegna þess sem er að gerast, að Vestur-Evrópuríkin eru meira og minna að sameinast í efnahagslega heild. Menn hefðu varla trúað að slíkt væri á næsta leiti, en ég trúi nú, eftir að fara þangað í viku heimsókn með utanrmn. Alþingis og heyra og sjá hvað er að gerast, að þetta sé raunverulega á næsta leiti. Samræming á hlutafélagalögum allra þessara ríkja verður auðvitað mjög ofarlega á baugi. Það eru að vísu 300 atriði, sem nefnd eru í þessari svokölluðu hvítu bók, eða White paper, sem á að framkvæma, vera búið að koma í gagnið 1992 að mestu leyti, en eitt af því er samræming slíkrar löggjafar. Ég hygg að þá getum við Íslendingar einmitt hugað að því að reyna að ná sem nánastri samstöðu með þessum réttarreglum.

Ég hygg að ef þetta gerist í Evrópu, og ég sagði ef en ég er sannfærður um að þetta er að gerast, hvort sem það verður 1992, 1994 eða 1995, muni aðrar lýðræðisþjóðir líka reyna að samræma sína löggjöf löggjöf þessara ríkja. Eins verður t.d. um alla mögulega staðla. Það er eitt af því mikilvægasta í samstarfi Evrópuríkja að samræma þá. Heimurinn er að minnka og vestræn ríki munu hafa meira og minna svipuð lög, vona ég, á sviði atvinnurekstrar yfirleitt. Þó að séraðstæður séu í hverju ríki fyrir sig og aldrei verði um fullkomna samræmingu að ræða er engin skömm að því að þiggja réttarreglur frá öðrum ríkjum ef þær henta okkur.

En í efnahagsmálum og atvinnumálum hefur að mínum dómi ekki verið líklegast að sækja reglurnar til Skandinavíuþjóðanna á undangengnum áratugum. Mér hafa fundist höftin og bönnin þar vera að sumu leyti enn þá meiri en hjá okkur og frekar ætti að sækja til þeirra ríkja þar sem löggjöf er frjálsleg. Því miður hef ég enga þekkingu til þess að geta nefnt það hvernig t.d. er háttað japanskri löggjöf. Hitt veit ég þó að þar stuðlar ríkisvaldið að því að borgararnir sem allra flestir geti eignast hlutdeild í þjóðarauðnum með því að taka þátt í kaupum á skuldabréfum. Þar er jafnaðarlega — og kannski rétt að rifja það upp núna þegar verið er að tala um halla hjá okkur o.s.frv. — 5 eða 6% af þjóðartekjum, sem núna er víst kallað landsframleiðsla, veitt til borgaranna á hverju ári. Þeir geta síðan notað þessi skuldabréf sín til að kaupa hlutabréf í stórfyrirtækjum. Þarna gerist svipað og gerðist í Þýskalandi í þýska undrinu þegar t.d. Volkswagenverksmiðjurnar voru gerðar að almenningshlutafélögum og notaðar jafnvel sem fjölskyldubætur. Þeir sem höfðu litlar tekjur fengu bréfin með stórfelldum afslætti. Þá var takmarkað hvað hver mætti eiga. Það sama var gert með þýska stálhringinn. Þetta var undirstaðan að þýska undrinu og þar kom í kjölfarið mjög frjálsleg löggjöf, miklu frjálslegri, ítarlegri og merkilegri löggjöf en við höfðum í Skandinavíuríkjunum þá.

Ég held að það væri fyrir t.d. unga lögfræðinga mjög merkilegt að reyna að kynna sér þessa japönsku löggjöf, hvernig hún virkar einmitt til að jafna út auðinn og skapa þá miklu velmegun sem þar hefur orðið á örfáum árum. Það er eitthvað svipað að gerast þar og við þýska undrið. Einkennilegt er það að þjóðirnar sem biðu ósigurinn í hildarleiknum mikla og voru maskaðar niður rifu sig þó upp. En hvernig gerðu þær það? Með auknu frjálsræði, minni afskiptum hins opinbera valds. með því að dreifa þjóðarauðnum. Ég held að við getum ýmislegt lært í félagarétti af þessum þjóðum og þess vegna er gott að fá þessar umræður.