24.11.1987
Neðri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

84. mál, viðskiptabankar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu sýnist mér fyrst og fremst hafa þrjú meginmarkmið. Fyrsta markmiðið er að bankastjórar skuli aðeins starfa í sex ár án endurráðningar, í öðru lagi að staðan skuli vera auglýst og í þriðja lagi að hægt sé að víkja þeim frá fyrirvaralaust og án launa.

Nú er það svo að þessi þrjú markmið sýnast mér að sumu leyti stangast á. Einu markmiðinu er ég alveg sammála, þ.e. því markmiði að þetta starf skuli auglýst. Það er ekkert sem mælir á móti því. Ég vil trúa því í það minnsta um framsóknarmenn að þeir hafi ekki áhuga á því að vinna að því að koma framsóknarmanni í bankastjórastöðu sem þeir ekki telji að standist allan samanburð við aðra umsækjendur. En ef við víkjum svo aftur að hinu atriðinu, hvort það sé skynsamlegt að þeir skuli aðeins starfa í sex ár, hljótum við að spyrja einnar spurningar: Erum við að gera mennina veikari gagnvart pólitíkinni í landinu eða sterkari með tiltækinu? Hvor bankastjórinn skyldi vera veikari fyrir pólitískum þrýstingi, sá sem er ráðinn til að starfa ævilangt eða hinn sem er ráðinn til að starfa í sex ár? Hvor skyldi vera sterkari? Hvor skyldi eiga auðveldara með að segja nei ef formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins heldur á hans fund og segir við hann: Ég vil að þessu stórfyrirtæki sé lánuð þessi fjárhæð, maðurinn sem er æviráðinn eða hinn sem þarf að leita undir bankaráðið eftir eitt ár til endurráðningar? Hvor er sterkari? Liggur það ekki alveg ljóst fyrir? Endurráðning eftir sex ár væri mikil veiking á þessum mönnum til að standast pólitískan þrýsting. (AG: Þetta er í lögunum. ) Það má vel vera, en ég vil undirstrika að ég tel að það sé ekkert óeðlilegt við að þessir menn séu æviráðnir. Ég set miklu meiri spurningu við hitt, hvort það sé hægt að ætlast til þess að þeir haldi líkamlegu og andlegu þreki til að gegna þessari stöðu þar til þeir eru orðnir sjötugir eða 67 ára. Það er miklu meiri spurning.

Ég spyr einnig að því hvort einstaklingurinn þurfi nauðsynlega að vera í veikari stöðu en þeir sem hafa ráðið hann í vinnu gagnvart því ef honum er vikið úr starfi. Undir þeim kringumstæðum er ekki óeðlilegt að líta svo á að oft geti það verið mikið matsatriði hvort maðurinn hafi brotið af sér eða ekki. Þessi maður mun að sjálfsögðu leita álits dómstóla á því, ég geri ráð fyrir að þarna sé álitamál, hvort hann hafi brotið af sér eða hvort hann hafi verið beittur órétti með því að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi. Með því að taka þá ákvörðun skilyrðislaust að þessi réttur án launa sé til staðar erum við að færa að mínu viti kannski hluta af dómsvaldinu yfir þessum manni í hendurnar á bankaráðinu. Mér finnst að hann eigi að hafa jafnan rétt gagnvart dómstólunum á við bankaráðið og það sé ekki óeðlilegt að íslenskir dómstólar skeri úr því hvort maðurinn hafi brotið af sér eða ekki og þá verði á því máli tekið hvort hann sé sviptur launum frá þessum tíma eða hvort hann eigi rétt á launum einhvern ákveðinn tíma áður en hann víkur. Ég tel nefnilega að það sé skilyrðislaust hægt að líta svo á að í heimi átaka og stjórnmála sé ekki fyrir fram hægt að slá því föstu að bankaráðið sé óskeikult á þann hátt að það setji mann því aðeins af að hann hafi brotið af sér. Það getur verið að þeir setji hann af vegna þess að þeir telji að hann hafi brotið af sér, en þarna sé kannski um ágreining við manninn að ræða út af ýmsu öðru.

Það hefur verið í þessari umræðu vikið dálítið að því hvort hið pólitíska vald sé hið illa í þessum efnum. Það er fyrst og fremst tvenns konar vald sem stjórnar þessum heimi. Það er annars vegar fjármálavald og hins vegar pólitískt vald. Fjármálavaldið hefur löngum viljað koma óorði á pólitíska valdið, koma þeirri skoðun á framfæri að pólitíska valdið sé af hinu illa. Þessi orrusta er búin að standa lengi. Hún er búin að standa jafnlengi og átökin hafa staðið um hvort lýðræðið sé skynsamlegt stjórnarfyrirkomulag eða ekki. Það eru margir sem telja lýðræðið ekki skynsamlegt stjórnarfyrirkomulag og er ekkert við því að segja. Lýðræðið gerir nefnilega ótal vitleysur svo grátlegar að það er erfitt stundum að verja það sem gerist. En spurningin er hvort menn hafi þá á hendinni annað vald sem er betra í ákvarðanatökunni. Þá er það fyrst og fremst fjármálavaldið.

Ég fagna því að það var ekkert hik á hv. 5. þm. Reykv. þegar hann lýsti þeirri skoðun sinni á þessum átökum á hvorum staðnum átökin væru grimmari og hættulegri. Ég lít þess vegna ekki svo á að frv. sem hér er flutt sé nein aðför að ríkisbönkunum. Frv. er fyrst og fremst flutt, að því er mér sýnist, til að koma þar á betri skipan mála að dómi flm. Þess vegna undirstrika ég það hér, sem ég sagði í upphafi máls míns, að það sem mér finnst fyrst og fremst horfa hér til bóta er ákvæðið um að þessar stöður skuli auglýstar. Ég tek undir það heils hugar þó að ég setji stærri spurningarmerki við hina hlutina, en ég hef ekki athugað nákvæmlega hvernig þetta er orðað í núgildandi lögum og að því leyti getur verið að sumt af því sem er í þessari grein og ég hef gert að umræðuefni sé engin breyting frá því sem þar er. En ég hef þó aðeins lýst skoðunum mínum á þeim atriðum án þess að það komi frv. beinlínis við.