26.11.1987
Sameinað þing: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1294 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

102. mál, jöfnun á námskostnaði

Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð svör við fsp. minni. Af svari hans kom fram að árangur af lagasetningunni hefur ekki orðið sá sem til var ætlast og er það miður. Námsstyrkur hefur fallið að raungildi frá því að vera árið 1975 26 490 kr. til þess sem er núna 12 496 kr. Fjárveitingar hafa ekki verið nægjanlegar til þess að halda verðgildi framlaga, hvað þá að þau hafi aukist.

Það er vart hægt að ætla að í upphafi hafi framlög verið talin svo rífleg að ástæða hafi verið til þess að skerða þau svo mjög sem orðið hefur. Sætir furðu að námsstyrkjanefnd skuli hafa sætt sig við að úthluta styrkjum svo mjög sem þeir hafa rýrnað í höndum nefndarinnar og Alþingis frá því að þeir fyrst voru veittir. Nefndarmenn hljóta að hafa gert sér grein fyrir hvert stefndi því að þeim er einnig ætlað að afla upplýsinga um námskostnað nemenda. Frá árinu 1975 hefur nemendum fækkað sem notið hafa styrkja, en það má vafalaust rekja til þess að mjög víða hafa komið upp menntaskólar og fjölbrautaskólar úti á landi og er það auðvitað mjög jákvætt og jafnar þessi met.

Ég vil fagna því sem kom fram í svari ráðherra að starfandi er nefnd sem endurskoðar þessi mál og vænti ég þess að störfum hennar verði hraðað.

Í fjárlagafrv. sem liggur fyrir þinginu er ætluð sama fjárhæð til námsstyrkja og er á þessu ári. Ég treysti hæstv. menntmrh. til þess að fá þá fjárhæð hækkaða svo að rétta megi hag þeirra námsmanna sem mestan kostnað hafa af námi sínu.