26.11.1987
Sameinað þing: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

138. mál, byggingarsjóður námsmanna

Flm. (Finnur Ingólfsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er að finna á þskj. 146 og er 138. mál þingsins. Flm. ásamt mér eru hv. þm. Páll Pétursson, Stefán Guðmundsson, Guðni Ágústsson og Valgerður Sverrisdóttir. Till. hljóðar svo með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að stofna í samvinnu við námsmannasamtökin, þ.e. stúdentaráð Háskóla Íslands og Bandalag íslenskra sérskólanema, byggingarsjóð sem hafi það hlutverk að fjármagna íbúðarbyggingar fyrir námsmenn. Byggingarsjóðurinn verði sjálfstæð stofnun með sérstakri stjórn og verði í vörslu Seðlabanka Íslands.

Byggingarsjóðnum verði heimilað að taka lán hjá Byggingarsjóði verkamanna. Sjóðurinn verði til að byrja með í eigu ríkisins og námsmannasamtakanna. Tekjur sjóðsins verði leigutekjur af húsnæði í eigu sjóðsins og greiði námsmenn innan námsmannasamtakanna ákveðið hlutfall af árlegum skólagjöldum sínum til byggingarsjóðsins. Fyrstu 10 árin greiðir ríkissjóður árlega þrefalda þá upphæð til sjóðsins sem námsmenn greiða. Þegar tekjur sjóðsins standa undir eigin framlagi sjóðsins við fjármögnun bygginga afhendi ríkið samtökunum eignarhlut sinn í sjóðnum.“

Hæstv. forseti. Með þessari till. er lagt til að farin verði ákveðin leið til að leysa það ófremdarástand sem er á hverju hausti í húsnæðismálum námsmanna á höfuðborgarsvæðinu. Könnun, sem Félagsstofnun stúdenta lét gera árið 1982 á húsnæðisaðstöðu stúdenta við Háskóla Íslands, sýndi að 4,6% stúdenta bjuggu á stúdentagörðum en 40% stúdenta bjuggu í leiguhúsnæði.

Í des. 1986 gerði Lánasjóður ísl. námsmanna könnun á húsnæðisaðstöðu námsmanna sem voru í lánshæfu námi hér á landi. Sú könnun sýndi að 50% námsmanna bjuggu í leiguhúsnæði og í dag búa innan við 4% stúdenta við Háskóla Íslands á stúdentagörðum.

Rannsókna eða kannana á ástandinu er því ekki þörf. Nú er aðgerða þörf. Daglegar auglýsingar, og það í tugatali, í dagblöðum í ágúst og september á ári hverju, þar sem námsmenn auglýsa eftir húsnæði og heita hárri fyrirframgreiðslu, segja sína sögu um ástandið. En hvernig námsmenn geta heitið hárri fyrirframgreiðslu er óskiljanlegt.

Framfærsla Lánasjóðsins í dag er 25 þús. kr. á mánuði og þar af er ætlað tæplega 4 þús. kr. til greiðslu á húsnæði. Ég hef fengið það staðfest af starfsmanni Húsnæðismiðlunar stúdenta að algengasta verð á mánuði fyrir eitt herbergi var 8–12 þús. kr., 20–25 þús. kr. fyrir tveggja herbergja íbúð og 30–35 þús. kr. fyrir þriggja herbergja íbúð. Þetta leiguverð er ekki greitt af námsmönnum sjálfum nema að hluta til. Auðvitað lendir það á foreldrum, vinum eða venslamönnum að aðstoða námsmenn í þessum efnum.

Að enn skuli vera 40 manns á biðlista eftir húsnæði hjá Húsnæðismiðlun stúdenta 11/2 mánuði eftir að skólar eru almennt byrjaðir lýsir ástandinu. Ég veit að hv. alþm. kannast margir við raunasögu námsmanna og annarra við leit að húsnæði. Mig langar til að segja eina sem ég tel að lýsi því ástandi sem nú ríkir á leigumarkaðinum. Hjón norðan úr landi töldu sig vera búin að tryggja sér tveggja herbergja íbúð hér í Reykjavík í vetur fyrir 20 þús. kr. á mánuði. Þegar þau mættu á staðinn með búslóðina tilbúin til að hefja námið hafði íbúðin verið leigð öðrum sem borgaði 30 þús. kr. á mánuði. Þessi hjón eru enn húsnæðislaus og á biðlista hjá Húsnæðismiðlun stúdenta. Búslóðin er geymd í bílskúr og þau búa hjá ættingjum, viku í senn á hverjum stað. Þessi hjón þekkja ástandið á húsnæðismarkaðinum í höfuðborginni.

Fullyrða má að þótt fjöldi námsmannaíbúða í Reykjavík á næstu fimm árum verði þrefaldaður muni enn skorta á til að leysa brýnasta vandann. Félagsstofnun stúdenta er nú að byggja nýja hjónagarða. Það er gert ráð fyrir að fyrsti áfangi þeirra verði tekinn í notkun árið 1988, sem munu vera 20 íbúðir, og síðan verði teknar í notkun 73 íbúðir fram til ársins 1990. Þetta mun aðeins létta undir með námsmönnum við Háskóla Íslands. En við megum ekki gleyma því að það eru fleiri námsmenn en bara þeir sem stunda nám við Háskólann.

Innritaðir stúdentar í Háskóla Íslands árið 1987 eru 4233. Félagsmenn í Bandalagi ísl. sérskólanema eru 3000. Þau samtök hafa ekkert húsnæði til útleigu fyrir sína félagsmenn. Þeir verða því eingöngu að treysta á leigumarkaðinn. Auk þessa verða hundruð, jafnvel þúsundir námsmanna sem stunda nám á framhaldsskólastigi, þ.e. í mennta- og fjölbrautaskólunum, einnig algjörlega að treysta á húsaleigumarkaðinn.

Ef sú tillaga, sem hér er mælt fyrir, verður að veruleika mætti hugsa sér að á næstu tveimur árum mætti fjárfesta í námsmannaíbúðum fyrir 200 millj. kr. með því að námsmenn sem skráðir eru í Háskóla Íslands og félagsmenn í Bandalagi Ísl. sérskólanema greiddu 1000 kr. hver í sérstakt framlag til Byggingarsjóðs og ríkissjóður kæmi með þrefalda þá upphæð á móti og einnig með því að lán fengist hjá Byggingarsjóði verkamanna fyrir 80% af byggingarkostnaði. Fyrrv. félmrh. beitti sér fyrir því með lagasetningu á Alþingi að hægt væri að lána námsmönnum og öðrum félagslegum samtökum 80% af byggingarkostnaði leiguhúsnæðis fyrir þessa hópa. Það gekk erfiðlega til að byrja með að fá Byggingarsjóð verkamanna til að lána til þeirra bygginga sem nú eru í gangi á vegum Félagsstofnunar stúdenta. Það var ekki fyrr en á árinu 1985 að fyrrv. félmrh. ritaði stjórn Húsnæðisstofnunar bréf þar sem hann óskaði eindregið eftir því að Félagsstofnuninni yrði lánað til þessara framkvæmda og nú eru þær framkvæmdir í gangi. Því er það í raun alger forsenda fyrir því að hægt sé að fara út í mjög miklar byggingarframkvæmdir, eins og lagt er hér til, að lán komi frá Byggingarsjóði verkamanna.

Fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt um húsnæðisaðstöðu eða reyndar aðstöðuleysi námsmanna vil ég nefna hér nokkur atriði enn sem ég tel að vegi þungt í rökfærslu fyrir því að byggingarsjóður sem þessi fyrir námsmenn sé nauðsynlegur.

Í fyrsta lagi: Eftir því sem framboð og húsnæði fyrir námsmenn verður meira, því minni verður námskostnaður nemenda. Leigan mun verða lægri í námsmannahúsnæðinu en á hinum almenna leigumarkaði.

Í öðru lagi mun lægri námskostnaður draga úr kröfum námsmanna um hækkun á framfærslukostnaði frá Lánasjóði ísl. námsmanna. Það er þjóðfélagslega hagkvæmara að fjármagna félagslegar íbúðabyggingar fyrir námsmenn en að fjármagna húsnæðiskostnað þeirra á almennum markaði.

Í þriðja lagi er hægt með fjölgun námsmannaíbúða að draga úr aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgar hvað menntun varðar.

Í fjórða lagi getur hátt leiguverð haft áhrif á varanlega búsetu fólks. Foreldrar námsmanna eða þeir sjálfir bregðast oft við húsnæðisvandanum með því að fjárfesta í íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Í fimmta lagi er öflugur byggingarsjóður fyrir námsmenn framtíðarlausn á húsnæðisvanda þeirra. Hæstv. forseti. Húsnæðismál námsmanna hafa áður komið til umræðu hér á hv. Alþingi. Þáltill. hv. þm. Stefáns Guðmundssonar um að fela ríkisstjórninni að kanna sérstaklega á hvern hátt megi bæta úr þeim mikla húsnæðisvanda sem námsmenn utan Reykjavíkur búa við var samþykkt hér á Alþingi 1984, en því miður hefur okkur lítið skilað fram á við á þessu sviði.

Ég trúi því að með samstilltu átaki námsmanna sjálfra og ríkisvaldsins sé hægt að koma fastri stjórn á húsnæðismál námsmanna fyrir framtíðina því við þær aðstæður sem námsmenn búa í dag er útilokað að búa til lengdar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að aflokinni þessari umræðu að þáltill. þessari verði vísað til félmn. Sþ.