26.11.1987
Sameinað þing: 23. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (923)

138. mál, byggingarsjóður námsmanna

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um viðskiptabann á Suður-Afríku. Þetta efni, viðskipti okkar Íslendinga við Suður-Afríku, hefur fyrr borið á dagskrá á þessu Alþingi þegar hæstv. utanrrh. svaraði fsp. varðandi þetta efni. Í þeirri umræðu kom fram að viðskipti okkar við Suður-Afríku fara nú aftur vaxandi eftir að úr þeim dró um tíma í kjölfar mikillar umræðu og ákvarðana stjórnvalda um að beina tilmælum til aðila viðskiptalífsins um að draga úr þessum viðskiptum.

Það kom einnig fram að Íslendingar hafa, a.m.k. að nafninu til, í þessu efni eins og fleiri verið aðilar að norrænu samstarfi á þessu sviði, en nú hefur það því miður skeð að Íslendingar hafa dregist aftur úr hinum Norðurlandaþjóðunum og ekki fylgt þeim eftir í að grípa til harðari ráðstafana til að mótmæla hinni ómanneskjulegu kynþáttaaðskilnaðarstefnu stjórnvalda hvíta minni hlutans í Suður-Afríku. Það kemur m.a. fram í fskj. með þessari þáltill. að þrjár Norðurlandaþjóðanna hafa lýst yfir á þessu ári meira og minna altækum viðskiptabönnum á Suður-Afríku.

Í skýrslu svonefndrar Sérstöku nefndar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni kemur fram í kafla þar sem fjallað er um aðgerðir einstakra þjóða að Svíþjóð, Noregur og Finnland hafa öll á þessu ári sett viðskiptabann á Suður-Afríku. Þetta kemur fram í fskj. I með tillögunni.

Í mars 1987, þ.e. í mars á þessu ári, setti norska þingið lög um efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Suður-Afríku og Namibíu og þau lög tóku gildi 20. júlí 1987. Meðal annars felst í þessum lögum almennt bann á innflutning og útflutning til Suður-Afríku. Sömuleiðis í mars á þessu ári lagði sænska ríkisstjórnin fyrir þingið frv. til l. um aðgerðir gegn Suður-Afríku og þar er sömuleiðis um viðskiptabann að ræða. Finnar settu í júní á þessu ári sambærileg lög sem banna með öllu innflutning varnings frá Suður-Afríku og útflutning þangað. Síðan er það svo að á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hafa Norðurlandaþjóðirnar reynt að koma fram sem hópur og svo skemmtilegt eftir atvikum sem það er kom það í hlut Íslands að mæla fyrir hinu sameiginlega áliti Norðurlandaþjóðanna þegar fram fóru atkvæðaskýringar varðandi ályktun Sérstöku nefndarinnar um kynþáttaaðskilnaðarstefnunna. Þessi atkvæðaskýring Norðurlandaþjóðanna flutt af Íslandi er fskj. II með þessari tillögu. Þar er einmitt kveðið mjög sterklega að orði um nauðsyn þess að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna grípi til harðra aðgerða gegn Suður-Afríku.

Svona er nú staðan, herra forseti, og í framhaldi af orðaskiptum sem fóru fram á þinginu fyrr í vetur, þegar hæstv. utanrrh. svaraði fsp., er það skoðun okkar þm. Alþb., sem flytjum þessa till., að ekki sé eftir neinu að bíða að Ísland sláist í hóp þeirra Norðurlandaþjóða sem sett hafa viðskiptabann á Suður-Afríku. Það hefur sýnt sig hér eins og reyndar annars staðar að tilmæli stjórnvalda og almennur áróður duga ekki til. Viðskiptahagsmunir og gróðavon ráða ferðinni hvað sem öllum fögrum fyrirheitum um annað líður.

Nýlega barst mér í hendur vitneskja um dæmi sem er nokkuð lýsandi fyrir ástand þessara mála hér uppi á Íslandi. Þrátt fyrir allan áróðurinn, þrátt fyrir tilmæli stjórnvalda eykst innflutningur varnings frá Suður-Afríku og kannski ekki alveg að ástæðulausu. Það er nefnilega svo að í annarri af tveimur sjónvarpsrásum landsmanna hefur núna í þrígang á stuttum tíma verið sýnd auglýsing um varning frá Suður-Afríku.

Stöð 2 hefur í þessum mánuði, dagana 5., 10. og 18. nóvember, sent út alllanga leikna auglýsingu um ávexti frá Suður-Afríku. Þar er auglýst vörumerkið Del Monte og ég hef með mér sýnishorn af þessum varningi. Þetta er perudós frá Del Monte fyrirtækinu. Þeir sem til þekkja vita að stór hluti af framleiðslu og markaðsvörum þessa fyrirtækis er einmitt ættaður frá Suður-Afríku. Þeir sem horfa á auglýsingu frá Stöð 2 geta daginn eftir labbað út í verslun á Íslandi og keypt sér svona dós, niðursoðnar perur, í sýrópi vel að merkja, og á bakhlið sendur: South African Reserving Cooperation, Cape Town, South-Africa. Það þarf ekki frekari vitna við. Það er ekki um að villast.

Ég ætla sannarlega að vona fyrir hönd forráðamanna Stöðvar 2 að hér hafi einfaldlega átt sér stað slys, að þeim ágætu mönnum hafi ekki verið ljóst að þeir væru að senda út auglýsingu um suður-afrískar vörur, því að ég trúi því ekki að siðferðisstig forráðamanna þar á bæ sé á því stigi að þeir mundu gera þetta vitandi vits. Ég hafði samband við auglýsingadeild þessarar stofnunar í morgun og sá fulltrúi sem ég fékk þar samband við fullyrti að a.m.k. hefði sér verið ókunnugt um að þeir hefðu undanfarna daga verið að senda út sjónvarpsauglýsingu um vörur frá Suður-Afríku. En svona er nú málunum komið. Auðvitað er það síðan innflytjandi þessa varnings sem gengur svo langt þrátt fyrir tilmæli stjórnvalda og yfirlýsta stjórnarstefnu á Íslandi að reyna að draga úr viðskiptum við þetta land að kaupa sérstaka sjónvarpsauglýsingu og láta senda hana út jafnvel án þess að gera ráðamönnum sjónvarpsstöðvarinnar grein fyrir því hvaða varning hann er að fara fram á að þeir auglýsi. Þeirra er mest skömmin og ég ætta að leyfa mér að lýsa því yfir að það er von mín og einlæg ósk að almenningur í landinu dragi úr viðskiptum við þetta fyrirtæki, við þennan innflytjanda sem þeir geta aflað sér upplýsinga um í firmaskrá hver er.

Síðan er það svo að menn gera oft lítið úr því að viðskipti við Suður-Afríku skipti svo miklu máli. Þau séu svo lítill hluti af innflutningi til Íslands. En er það rétt ef við skoðum málið? Er ríki sem er einhvers staðar á milli 30. og 40. sætis hvað varðar innflutning varnings til landsins mjög lítið? Þetta er þjóð sem flytur inn til Íslands næstum því jafnmikið af vörum og frændur okkar Færeyingar t.d. Er hægt að segja að það séu einhver smávægileg viðskipti sem ekki skipti máli, að þau gefi ekki tilefni til að taka siðferðislega afstöðu? Ég segi nei. Sú staðreynd að það má finna mörg Evrópulönd sem flytja inn jafnmikið eða jafnvel minna af vörum til Íslands en Suður-Afríka gerir að verkum að við getum ekki afsakað okkur og þvegið hendur okkar með því að þetta séu svo lítil viðskipti.

Ég hef tekið fyrir októberhefti Hagtíðinda, talið þar saman þau lönd sem við kaupum meira frá og minna frá en Suður-Afríku. Mér teljast það vera 36 lönd sem við eigum meiri viðskipti við, en 80–90 lönd sem við eigum minni viðskipti við en Suður-Afríka. Suður-Afríka gæti í þessu tilfelli, hvað varðar innflutning varnings á þessu ári mánuðina janúar-september, verið einhvers staðar nálægt 37. sæti. Og eins og ég segi má finna mörg jafnvel nágrannalönd okkar sem við verslum minna við. Þetta eru því engin rök og jafnvel þó að þessi innflutningur væri miklu minni og þessi viðskipti væru miklu minni eigum við samt að taka siðferðislega afstöðu sem á ekki að ráðast af magni viðskiptanna eða viðskiptahagsmunum.

Ég held að því miður sé alveg sýnt, þrátt fyrir áróður stjórnvalda, þrátt fyrir aðgerðir verkalýðshreyfingar og ýmissa fleiri aðila, þrátt fyrir víðtæka samstöðu úti í þjóðfélaginu um að reyna að takmarka þessi viðskipti, að gróðahagsmunir verslunarinnar ráði ferðinni. Það þýðir þá ekki annað en koma fyrir þá menn vitinu með lögum. Ég skora því á hv. alþm. að styðja framgang þess að annaðhvort með lagasetningu eða með því að setja allan varning frá Suður-Afríku á bannlista verði komið í veg fyrir að vörur verði fluttar hingað frá þessu ríki. Sjálfum er okkur í lófa lagið og með einföldum hætti getum við afnumið okkar viðskipti eða okkar útflutning þangað sem er reyndar hverfandi lítill.

Ég hygg að það þurfi í sjálfu sér ekki að taka á þessu máli á fleiri sviðum. Mér er ekki kunnugt um menningarsamskipti eða samskipti á sviði íþrótta við Suður-Afríku. Ég held að fjárfestingar íslenskra aðila í Suður-Afríku séu ekki af því tagi að það sé ástæða til að hafa áhyggjur, en ég vek á því athygli að þær þjóðir sem átt hafa í gegnum tíðina meiri viðskipti og samskipti við þetta land, eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar, hafa líka lagt hömlur á eða jafnvel bannað þessa hlið viðskiptanna.

Herra forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki að hafa um þetta fleiri orð. Málið talar fyrir sig sjálft. Staðreyndirnar tala sínu máli. Ég lít svo á að það sé pólitísk samstaða um það á Íslandi að grípa til aðgerða af þessu tagi til að mótmæla kynþáttaaðskilnaðarstefnunni og reyna að hnekkja henni. Þátttaka okkar Íslendinga í samnorrænum aðgerðum, margyfirlýst stefna íslenskra ríkisstjórna, bæði þeirrar er nú situr og fyrri ríkisstjórna, um að draga úr þessum viðskiptum og samskiptum liggur fyrir. Það eina sem þarf að gera er að tryggja að hún sé framkvæmd, þessi stefna, tryggja að hún nái fram að ganga. Ég þykist hafa sýnt fram á að hún geri það ekki nema gripið verði til miklu róttækari aðgerða en menn hafa hingað til verið að reyna. Þess vegna sýnist mér einboðið að ekkert annað en viðskiptabann á Suður-Afríku nái þar með tilgangi sínum.