02.12.1987
Efri deild: 14. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

163. mál, veiting ríkisborgararéttar

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 176. Í 1. gr. frv. eru talin upp nöfn 18 manna sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt og að mati dómsmrn. uppfylla þau skilyrði sem Alþingi hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum.

Í 2. gr. frv. eru sömu ákvæði um nafnabreytingar og gilt hafa síðustu ár.

Þá liggja fyrir í ráðuneytinu nokkrar umsóknir um ríkisborgararétt sem ekki uppfylla að öllu leyti þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir veitingu ríkisborgararéttar og verða þessar umsóknir sendar þingnefndinni.

Ég legg áherslu á að þetta frv. fái afgreiðslu fyrir jólaleyfi. Sú aðferð sem tíðkast hefur á undanförnum árum að afgreiða frv. af þessu tagi aðeins einu sinni á ári, í lok þings að vori, er að mínum dómi óheppileg að því leyti að úrlausn á þessu mikilvæga málefni einstaklinga sem hér er um að ræða dregst þannig úr hófi fram. Ég áforma hins vegar ef þetta gengur eftir að flytja annað frv. af þessu tagi eftir jólaleyfi, eftir því sem tilefni gefst til.

Tillagan sem ég hér geri er sú að þeir sem uppfylla öll skilyrði sem Alþingi hefur sett til að hljóta íslenskan ríkisborgararétt hljóti hann nú með samþykkt þingsins fyrir jól.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.