02.12.1987
Neðri deild: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

125. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Mig langar til að fagna frv. sem hæstv. fjmrh. talaði fyrir áðan. Það hafa allir beðið eftir frv. og við skulum vona að það reynist vel.

Hæstv. fjmrh. sagði í upphafi að hér væri merkt skref stigið og vil ég taka undir að hér er viðamikil breyting á skattkerfinu að eiga sér stað. Ég held að henni þurfi að fylgja hugarfarsbreyting hjá fólki, sérstaklega gagnvart skattsvikum sem mig langaði aðeins að koma hérna inn á vegna þess að í raun og veru minntist fjmrh. á það einnig í sinni ræðu að frv. væri sett fram m.a. með það að markmiði að mismuna ekki þegnunum.

Þessari skattkerfisbreytingu má að mörgu leyti líkja við myntbreytinguna sem var um áramótin 1980–1981. Þá var ætlast til að hún hefði mikil og góð áhrif og vera má að hún hafi haft það, en hins vegar segir manni svo hugur um eftir á að þar hafi þurft fleira að koma til til þess að hún næði tilætluðum árangri. Þá á ég við að nú þurfa líka að fylgja aðgerðir í kjölfarið gegn skattsvikum.

Skattsvik hafa verið mikið til umræðu og ekki síst í flokki hæstv. fjmrh. og þeim umræðum hef ég verið samþykkur að öllu leyti. Í skýrslu sem lögð var fyrir Alþingi 18. apríl 1986 frá þáv. fjmrh. um umfang skattsvika koma fram ógnvænlegar tölur, m.a. að á árinu 1985 hafi tap hins opinbera vegna vangoldinna beinna skatta og söluskatts mátt áætla um 21/2–3 milljarða kr. sem gæti verið núna 4–6 milljarðar. Þarna eru ekki á ferð litlar tölur. Þessi skattsvik, eins og ég sagði áðan, eru með öllu óþolandi í þjóðfélaginu. Þegar skattskráin kemur fram er það ekki svo að fólkið sé endilega að rífast um að skattarnir séu háir heldur miklu frekar að það ber sig saman við náungann og finnur þar að samanjöfnuðurinn er oft og tíðum alveg út í hreinan hött.

Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, óttast ég að hliðarráðstafanir séu ekki tilbúnar til að mæta þessu og vil ég þá alls ekki átelja núv. hæstv. fjmrh. um að hann hafi ekki staðið í stykkinu einn og sér. Það hafa fleiri þurft að koma að. Ég vil, með leyfi forseta, vitna í skýrslu þá sem ég minntist á fyrr frá fjmrh. um störf nefndar sem kannaði umfang skattsvika á árinu 1984 og lagði fyrir Alþingi í apríl 1986, en þar segir svo um skattaeftirlit, með leyfi forseta:

„Starfshópurinn er þeirrar skoðunar að lélegt skattaeftirlit sé ein alvarlegasta brotalömin í íslenskum skattamálum. Skattaeftirlitið þarf því að styrkja og telur starfshópurinn í því skyni nauðsynlegt að breyta bæði skipulagi, starfsháttum og stjórnun skattkerfisins þannig að starfsemi þess verði markvissari og eftirlit skilvissara.“

Ég leyfi mér að koma með aðra tilvitnun, með leyfi forseta:

„Í stórum dráttum má fullyrða að skattstofurnar séu eins og málum er háttað nú allsendis ófærar um að sinna eftirlitsskyldu sinni. Áhættan af skattsvikunum er mjög lítil, refsing nánast engin en hagnaðurinn verulegur. Yfirstjórn skattamála er ábótavant og þarf að bæta. Það skortir á markvissa heildarstjórn og nútímaleg vinnubrögð og þjálfað og menntað starfsfólk.“

Þetta leiðir hugann að því hver aðstaða skattstofa og skatteftirlitsmanna sé nú til að fylgjast með bókhaldsuppgjöri og skattskilum fyrirtækja með tilliti til aukinnar tæknivæðingar þeirra og margbreytilegs hugbúnaðar þeim samfara við bókhaldsfærslur og reikningsskil. Það hefur orðið gífurleg þróun í þessum málum, skulum við segja, á síðustu árum þegar menn eru farnir að taka mikið í notkun tölvur og hvers konar forrit, þá læðist að mér sá grunur að margar skattstofurnar séu engan veginn færar til að mæta þessum vígbúnaði fyrirtækja og stofnana. Ég á við að þar er oft og tíðum kannski mannskapur sem er ekki launanna vegna jafnhæfur, skulum við segja, og þeir sem eru að útbúa skattaframtöl og annað fyrir fyrirtæki eða þá aðra sem skattstofurnar eru að fást við.

Við verðum að gá að því að öðrum megin við borðið eru hæfustu menn, en hinum megin eru oft og tíðum jafnvel skólakrakkar í einhverjum tilvikum, eins og ég hef fengið upplýsingar um, eða námsfólk sem við getum engan veginn líkt saman um getu eða kunnáttu til að fara ofan í öll þau gögn sem lögð eru fyrir þau.

Ég vil líka, með leyfi forseta, vitna í fyrrnefnda skýrslu, en þar segir um bókhaldslög og framkvæmd:

„Eitthvert mikilvægasta úrræði til að herða skattaeftirlit og draga úr skattsvikum er hert bókhaldseftirlit og viðurlög við brotum bókhaldsskyldra aðila.“

Í þessari umræðu langaði mig til, af því að ég hef tækifæri á því á hv. Alþingi að ræða um þessi mál, að minnast á þetta við hæstv. fjmrh. í trausti þess að hann athugi þetta líka vegna þess að ég veit að hjá honum og hans mönnum hefur þetta oft verið til umræðu. Ég er alveg sannfærður um að þessa er beðið þegar þessi kerfisbreyting á sér stað og það hefur verulega mikið að segja að þá strax verði skattsvikin upprætt að svo miklu leyti sem það er mögulegt. Það verður hugarfarsbreyting í kjölfar þessara nýju laga og við skulum vona að það takist allt vel, en einn liðurinn í því að fólk fái traust á því kerfi sem við erum að taka upp; að skattsvikin verði upprætt alveg á sama hátt og ég nefndi varðandi myntbreytinguna. Þá vonuðust menn eftir að hún mundi takast á annan máta en gerðist. Fólkið var tilbúið, en það þurfti fleira að koma til en lögin ein.

Ég endurtek það sem hæstv. fjmrh. nefndi hér, að þessu frv. og þessum nýju lögum væri ætlað að mismuna ekki þegnum þessa lands. Ég treysti hæstv. fjmrh. mjög vel til að standa þar í stykkinu og vonast til að svo geti orðið.

Ég vil að endingu lýsa yfir fullum stuðningi við frv. og vænti þess að það fái hraða afgreiðslu í þinginu.