131. löggjafarþing — 1. fundur,  1. okt. 2004.

Afbrigði.

[16:13]

Forseti (Halldór Blöndal):

Leita þarf afbrigða frá þingsköpum þar sem samkomulag er milli þingflokka um annan ræðutíma í umræðunni um stefnuræðu forsrh. nk. mánudagskvöld en kveðið er á um í 2. mgr. 73. gr. þingskapa, þ.e. að umferðir verði þrjár, 12 mínútur, 6 mínútur og 5 mínútur en forsætisráðherra hafi 20 mínútur í framsögu. Skoðast afbrigðin samþykkt ef enginn hreyfir andmælum.

Enn fremur þarf að leita afbrigða frá þingsköpum þegar hlutað verður um sæti á eftir, til að tveir hv. þingmenn, Helgi Hjörvar og Gunnar Örlygsson, geti fengið sæti sem hentar fyrir þann búnað sem þeir eða varamenn þeirra þurfa að hafa í þingsalnum þegar á þingfundi stendur. Þetta eru sæti nr. 32 fyrir hv. þm. Helga Hjörvar og 52 fyrir hv. þm. Gunnar Örlygsson.

Þá hefur orðið samkomulag milli forseta og formanna þingflokka að leggja til að tekin verði frá sæti næst inngangi í salnum fyrir formenn þingflokka eða forustumenn, einn fyrir hvern flokk, en þeir dragi innbyrðis um þessi sæti. Skoðast þessi afbrigði samþykkt ef enginn hreyfir andmælum.