131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:54]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Góðir Íslendingar. Ég óska nýjum forsætisráðherra til hamingju og vona að þjóðin njóti verkanna. Sömu von ber ég til starfa Alþingis þótt fyrsta ræða forseta Alþingis hafi valdið vonbrigðum á þingsetningardegi, þar sem ekki er hefð til andsvara frá okkur þingmönnum. Það er að verða venja hjá forustumönnum ríkisstjórnarinnar að nota hátíðisdaga og hátíðarhöld til að koma af stað ósætti milli mestu valdamanna okkar og forseta Íslands, m.a. í tengslum við aldarafmæli heimastjórnar.

Ráðamenn vilja ekki ræða feluákvarðanir sínar í þeirri hörmung að gera okkur að staðföstum eða viljugum árásarsinnum. Því miður horfum við daglega upp á hörmungar fólks, dauða, limlestingar og barnamorð. Íraksstríðið er óskapnaður sem ber að stöðva. Öll aðkoma okkar var á röngum forsendum. Stjórnarandstaðan vill aðra ákvörðun. Hún vill út af lista þeirra staðföstu og viljugu.

Í stefnuræðunni segir að atvinnuleysi hafi minnkað. Betur að satt væri. Vinnan, vefrit ASÍ, kom út á föstudaginn. Þar var upplýst um eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Atvinnuástandið í landinu er enn mjög slæmt. Fjöldi atvinnulausra hefur heldur aukist frá sama tíma í fyrra. Helmingur allra atvinnulausra er undir 35 ára aldri og þriðjungur er langtímaatvinnulaus, þ.e. hefur verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur. Bæði þessi hlutföll hafa hækkað síðustu ár.“

Telur ráðherra að ASÍ fari með rangt mál? Þar að auki hefur fólki á örorkubótum fjölgað. Það er m.a. afleiðing þess að meiri kröfur eru gerðar á vinnumarkaði til viðveru og afkasta launþega. Fatlaðir og veikburða fá síður vinnu.

Næsta fullyrðing ræðunnar er að velferðarkerfið hafi verið styrkt. Benedikt Davíðsson og fleiri þjóðkunnir eldri borgarar upplýstu á föstudag í Morgunblaðinu um þróun ráðstöfunartekna ellilífeyrisþega með tekjur úr lífeyrissjóði upp á tæpar 46 þús. kr. á mánuði. Við þá upphæð hefur ríkisstjórnin ákveðið að tekjutryggingarauki lífeyrisþegans falli niður. Frá árinu 1995 fylgja greiðslur almannatrygginga ekki launaþróun. Þær væru rúmlega 16 þús. kr. hærri ef fylgt hefði verið þróun lágmarkslauna. Dæmið um ellilífeyrisþegann með 110.500 kr. brúttó fyrir skatta töldu þeir að næði til hátt í 30% allra ellilífeyrisþega og að eftir skatta hefðu rauntekjur lækkað um 7 þús. kr. á mánuði.

Fyrirhuguð lækkun tekjuskatts um 4%, eins og ríkisstjórnin boðar nú, minnkar að þeirra mati tekjuskerðinguna aðeins um 1.500 kr. Persónuafslátturinn hefur rýrnað og skattleysismörk eru nú rúmlega 71 þús. kr. en ættu að vera tæpar 100 þús. kr., hefðu þau haldið verðgildi sínu sl. einn og hálfan áratug. Er nema von að Benedikt Davíðsson, Ólafur Ólafsson og Einar Árnason spyrji hvort horfa eigi fram hjá þeim sem hafa lægri tekjur, eins og þróunin hjá þeim komi engum við? Hverju ætlar ráðherra að svara? Fara mennirnir með fleipur? Fullyrðingar ráðherra standast ekki rök ASÍ sem segir að atvinnuleysi hafi aukist.

Fulltrúar eldri borgara telja að velferðarkerfið hafi versnað frá árinu 1995, á valdatíma framsóknarráðherra í tryggingamálum. Skattastefna Sjálfstæðisflokksins er sérhönnuð til að létta skattbyrði þeirra sem hæstar hafa tekjurnar. Hátekjuskattinn skal fella niður en fjölga skal þeim láglaunuðu sem skulu fátækir, nauðugir og jafnvel svangir borga skatta. Persónuafslátturinn hefur lækkað markvisst og ekki haldið raungildi sínu. Þannig fjölgar skattgreiðendum á lágum launum.

Framsóknarmenn, með sumt fólk í fyrirrúmi, hafa glaðir og fylgispakir við Sjálfstæðisflokkinn gengið á hlut þeirra tekjulægri eins og dæmin sanna. Ef í þingflokki þeirra heyrist kristin rödd um að fólkið hafi gleymst, og krónum til framfærslu fækkað, þá er betra að hafa liðið, ,,já-liðið“ án þeirra. Það hefur verið lærdómsríkt fyrir fólkið í landinu, einkum lýðræðisþenkjandi, félagssinnaða, eldri framsóknarmenn sem trúa á byggð í landinu öllu, að heyra fyrrverandi læriföður og skólamann Hjálmar Árnason, hv. þingflokksformann, lýsa því undanfarið hvernig fer í ástlausum hjónaböndum í liðinu. Þau er einfaldlega ekki á vetur setjandi enda kalt hjá liðinu. Ástareldurinn er slokknaður, enda körlum og konum vart treystandi í liðinu, sem nú stjórnast af járnaga Sjálfstæðisflokksins.

Hagur atvinnulífsins er að vænkast, fullyrðir ráðherrann. Hann hefur verið með hugann við suðvesturhornið og Austfirði undanfarið. Á ferðum sínum hefur hann vafalaust séð fjölgun ferðamanna en þar með er það að mestu upptalið, þar sem hagurinn er að vænkast.

Verð sjávarafurða hefur lækkað. Þorskkvótar og uppsjávarkvótar hafa minnkað. Olía hefur hækkað, sjómönnum fækkað og laun þeirra lækkað. Fiskvinnslufólki hefur fækkað, bændum fækkað og tekjur þeirra lækkað. Sláturhúsum fækkað. Störfum iðnaðarmanna í vélsmiðjum og verkstæðum fækkað. Rækjuvinnslum fækkað. Rækjuveiðiskipum fækkað. Innfjarðarrækjuveiðar lagst af og hörpuskel einnig. Árangur af kvótakerfinu er enginn. Skuldir sjávarútvegsins hafa vaxið. Bændur og sjómenn gerast leiguliðar að atvinnurétti. Land- og sægreifarnir eiga réttinn.

Hvað er þá að vænkast? Jú, fjármagnið græðir sem aldrei fyrr og bankar og fjárfestingarsjóðir bólgna út og sækjast eftir að geyma fé sitt á 1. veðrétti. Útrásin, fjármagnið fer úr landi.

Hagurinn er að vænkast sums staðar á landi hér, en alhæfing um batnandi hag atvinnulífsins sem heyrist í ræðu forsætisráðherra er blekking. Forsætisráðherra segir að ekkert kalli á róttækar breytingar. Sú fullyrðing lýsir takmörkuðum áhuga á stórum hluta landsbyggðar. Þvert á móti er rík ástæða til að skoða aðra vegferð í mörgum málum en þá sem ríkisstjórn kvótabrasksflokkanna vill fara. Stóreignamönnum er leiguliðinn arðsamur. Leiguliðahlutverkið á ekki að verða framtíð ungs fólks til sjávar og sveita í hefðbundnum undirstöðuatvinnugreinum þessa lands. Hvað gerist þegar launþeginn vill ekki vinna þau störf? Á þá að leita til útlanda eftir láglaunafólki til þess að erja landið, rækta miðin og stunda fiskveiðarnar?

Þakka þeim sem hlýddu.