131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:44]

Magnús Stefánsson (F):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Aldrei hafa fleiri Íslendingar búið við jafngóð lífskjör og nú. Íslenska þjóðin hefur upplifað efnahagslegt góðæri sem varað hefur í tæpan áratug með framförum, vexti og bættum lífsgæðum. Það eru engar ýkjur að fullyrða að kynslóðir núlifandi Íslendinga hafi aldrei upplifað svo langt tímabil samfelldra og mikilla efnahagslegra framfara. Allar hagtölur og meðaltöl segja okkur þessa sögu. Auðvitað segja tölurnar ekki allan sannleikann og enginn skyldi túlka orð mín svo að ég telji að við stjórnmálamennirnir getum nú látið staðar numið, eða að bættur hagur hafi skilað sér að fullu til allra einstaklinga. Öðru nær.

Okkar bíða næg viðfangsefni til þess að tryggja að þetta skeið geti haldið áfram og að ábatinn skili sér sem jafnast og best út til þjóðarinnar allrar. Að því mun ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir vinna eins og gert hefur verið undanfarin ár.

Umfjöllun um ríkisfjármál verður fyrirferðarmikil á þessu haustþingi. Eins og jafnan skiptir sköpum hvernig á þeim málum er haldið. Eitt meginmarkmið ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks allt frá árinu 1995 hefur verið að halda uppi efnahagslegum stöðugleika í landinu. Því markmiði hefur að mestu verið náð og hefur það vakið mikla athygli meðal annarra þjóða, enda eru almenn lífskjör á Íslandi nú ekki aðeins þau bestu í sögu okkar heldur eru þau með því allra besta sem þekkist í heiminum.

Sennilega skiptir ekkert viðfangsefni stjórnmálanna allan almenning í landinu eins miklu máli og það að okkur takist að halda uppi viðunandi hagvexti og að auka kaupmátt almennt. Það hefur tekist vel undanfarin ár. Það er og verður áfram eitt okkar meginmarkmið á næstu árum. Reynslan af samstarfi núverandi stjórnarflokka gefur tilefni til bjartsýni á að það starf muni bera góðan árangur þjóðinni allri til heilla. Staða ríkissjóðs er sterk og er það ekki síst að þakka aðhaldssamri fjármálastjórn undanfarinna ára. Þó er meginforsendan sú að tekist hefur að byggja upp öflugra atvinnulíf en áður og að mikil sókn hefur verið á mörgum sviðum atvinnumála. Það er gömul saga og ný að öflugt og arðbært atvinnulíf er undirstaða velferðar þjóðarinnar. Unnið hefur verið að því markmiði að greiða niður skuldir ríkissjóðs og hefur náðst mikill árangur við það, enda skiptir það miklu fyrir þjóðfélag framtíðarinnar að okkur takist að skila góðu búi í hendur barnanna okkar.

Herra forseti. Eitt helsta áherslumál Framsóknarflokksins fyrir síðustu alþingiskosningar voru breytingar á fyrirkomulagi húsnæðislána Íbúðalánasjóðs. Það hlaut góðan hljómgrunn í þjóðfélaginu, enda var ætlunin að koma til móts við brýna þörf og gefa almenningi kost á sambærilegri fjármögnun við húsnæðiskaup og almenningur í nágrannalöndum okkar á að venjast. Nú þegar hefur hluti af þessum breytingum komið til framkvæmda og fram undan er að ljúka þessu verkefni á haustþinginu með því að lögfesta 90% húsnæðislán Íbúðalánasjóðs fyrir húsnæðiskaupendur alls staðar á landinu.

Þessi áform okkar, sem bundin eru í stjórnarsáttmála, hafa nú þegar haft mikil áhrif á greiðslubyrði fjölmargra heimila í landinu. Fjármálafyrirtæki og stofnanir hafa undanfarnar vikur keppst um að bjóða hagstæð kjör til húsnæðiskaupa, hagstæðari en nokkru sinni fyrr. Íbúðakaupendur munu greiða lægra hlutfall tekna sinna í vexti en áður hefur þekkst.

Þessu ber að fagna en í mínum huga er ekki vafi á því að framganga okkar framsóknarmanna í húsnæðismálum undanfarin missiri er ein meginforsenda þeirra kjarabóta sem þúsundir Íslendinga hafa nú þegar tryggt sér með þessum hætti.

Þau húsnæðislánakerfi sem við höfum búið við í gegnum tíðina hafa á sinn hátt reynst vel, en sú þróun sem nú á sér stað er bæði löngu tímabær og eðlileg. Ég vil minna á að margir þeir stjórnarandstæðingar sem hér eru í kvöld og sátu á þingi á síðasta kjörtímabili lýstu eindreginni andstöðu við einkavæðingu ríkisbankanna sem er að sjálfsögðu ein meginforsenda þeirrar jákvæðu þróunar sem nú á sér stað.

Herra forseti. Ég hef lokið tíma mínum. Ég þakka þeim sem hlýddu. — Góðar stundir.