131. löggjafarþing — 2. fundur,  4. okt. 2004.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:48]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Ég óska nýskipuðum forsætisráðherra og umhverfisráðherra til hamingju með embætti sín.

Núverandi ríkisstjórn hefur setið við völd lengur en hún hefur í rauninni haft þrek til. Þrekinu hefur verið sóað í átök um völd, ráðherrastóla og bitlinga og á meðan vanrækir ríkisstjórnin það sem ætti að vera á meðal hennar brýnustu úrlausnarefna. Ég á ekki bara við óréttlætið í skattkerfinu, svikin við öryrkja, stórhækkaða skatta á þá lægst launuðu, sem þýðir að nú borga lífeyrisþegar sem svarar milljarði króna í skatt á ári af naumt skömmtuðum lífeyri, og ég á ekki bara við það hvernig hinum dreifðu byggðum hefur farnast í valdatíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.

Nei. Ég á fyrst og fremst við það að ríkisstjórnin er að vanrækja framtíðina. Hún vanrækir þann vaxtarsprota sem hagvöxtur og lífsgæði framtíðarinnar byggjast á. Framtíðin byggist á menntun, menntun og meiri menntun. Menntun er forsenda þess að Íslendingar standi jafnfætis öðrum þjóðum til framtíðar, menntun er forsenda velferðar hvers og eins og menntun er forsenda hagvaxtar og lífsgæða í nútímasamfélagi. Þess vegna setur Samfylkingin menntun í forgang, þess vegna vill Samfylkingin hefja menntasókn á Íslandi. Í menntasókn Samfylkingarinnar felst að fjárfestingar í menntakerfinu verði auknar um 15 milljarða kr. að raungildi á kjörtímabili umfram það sem ríkisstjórnin áætlar. Þetta fjárfestingarátak Samfylkingarinnar mun ekki aðeins auka möguleika á lífsgæðum hvers og eins heldur leiða fjárhagslega til hækkunar á landsframleiðslu á mann um 3–6% þegar áhrifin verða komin fram að fullu.

15 milljarðar eru miklir fjármunir. En menntasókn Samfylkingarinnar er ekki eyðsluverkefni heldur fjárfestingarverkefni, í raun besta fjárfesting sem hægt er að hugsa sér. Þetta er fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka, bæði til einstaklinganna og til samfélagsins alls.

Nú er það ekki svo að þetta séu einhver nýuppgötvuð sannindi. Ríkisstjórnin á að vita þetta eins og flestir aðrir. En hvað gerir ríkisstjórnin og hvernig bregst hún við? Ísland er einungis í 14. sæti á meðal OECD-þjóðanna ef opinber útgjöld til menntamála eru skoðuð með tilliti til aldursdreifingar þjóðarinnar. Harkalegar fjöldatakmarkanir eru notaðar í háskólum ríkisins til að koma í veg fyrir útgjaldaaukningu til menntamála. Brottfall úr framhaldsskólum landsins er hærra en þekkist annars staðar og starfsnámið er hornreka í menntakerfinu.

Nýjasta afrek ríkisstjórnarinnar í menntamálum er síðan dæmigert um margt fyrir þann hug sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur bera til menntamála. Skólagjöld í ríkisháskólunum hækka um 40% og engir nýnemar verða teknir inn á vorönn í Háskóla Íslands.

Þessar staðreyndir segja allt sem segja þarf. Ungmennum er gert erfiðara, en ekki auðveldara, að sækja sér nauðsynlega þekkingu og menntun. Metnaðarleysið drýpur af hverju strái í skólapólitík stjórnarflokkanna. Þetta er ekki fjárfesting, þetta er sóun, gegndarlaus sóun sem mun reynast okkur dýrkeypt þegar fram líða stundir.

Og gleymum því ekki, ágætu landsmenn, að stjórnmálaflokkar eru þrátt fyrir allt ekki allir eins. Sumir þeirra eru raunar orðnir mjög líkir hverjir öðrum á meðan aðrir standa fyrir ákveðna og skýra pólitík. Samfylkingin stendur fyrir framtíðarsýn um velferð, jöfn tækifæri og lífsgæði handa öllum. Samfylkingin stendur fyrir betri menntun, betri menntun og aftur betri menntun. Þannig bætum við lífskjör allra. — Ég þakka áheyrnina.